Evrópskt og norrænt samstarf
Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar er mjög umfangsmikið í starfsemi Rannís og mikilvægur þáttur í daglegu starfi.
Evrópskt og norrænt samstarf er stærstur hluti starfsins og hefur Rannís nú það hlutverk að vera helsti þjónustuaðilinn á Íslandi við formlegt alþjóðlegt samstarf á málefnasviðum stofnunarinnar. Mikil og djúp þekking á rekstri og þjónustu við alþjóðasamstarf á málefnasviðum Rannís hefur þannig byggst upp jafnt og þétt til góða fyrir íslenskt þekkingarsamfélag á breiðum grunni.
Árið 2023 fór alþjóðlegt samstarf á flug og jafnvægi náðist við að koma starfsemi samstarfsáætlana og verkefna á réttan kjöl eftir heimsfaraldurinn. Mikil vinna fór í að styðja við rekstur verkefna sem hafði verið framlengt og endurskipuleggja kynningarstarf á tækifærum í alþjóðastarfi, einkum í ljósi þess að nýrri kynslóð Evrópuáætlana var hleypt af stokkunum í miðjum faraldri. Sókn í norrænt og evrópskt samstarf tók mikinn kipp á árinu og hefur umfang þess náð því sem var fyrir faraldurinn og í mörgum tilfellum jafnvel aukist enn meira. Ýmsar fleiri áskoranir hafa einnig komið upp tengdar stöðunni í alþjóðamálum en þrátt fyrir það er óhætt að líta björtum augum til framtíðar alþjóðasamstarfs sem Rannís styður við á öllum sviðum...
Evrópskar samstarfsáætlanir
Rannís hefur umsjón með sjö helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samningsins:
- Horizon Europe, rannsóknir og nýsköpun
- Erasmus+, menntun, æskulýðsmál og íþróttir
- European Solidarity Corps, sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni ungs fólks
- Creative Europe, menning og kvikmyndir
- Digital Europe, stafræn tækni
- LIFE, umhverfismál og loftslagsbreytingar
- Uppbyggingarsjóður EES, rannsóknir og nýsköpun, menntun og menning
Horizon Europe er stærsta alþjóðlega samstarfsáætlunin sem Ísland tekur þátt í og jafnframt stærsta rannsókna- og nýsköpunaráætlun heims, með um 95 milljarða evra til úthlutunar á tímabilinu 2021-2027. Markmið áætlunarinnar er að Evrópa verði leiðandi afl í rannsóknum og nýsköpun á heimsvísu, og styrkir áætlunin allt frá grunnrannsóknum til tækniþróunar og áhersla er lögð á að fjárfesting í vísindum og nýsköpun skili sér til samfélagsþróunar og betri lífsskilyrða í Evrópu. Hlutverk Rannís í Horizon Europe er að vera tengiliður áætlunarinnar við íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag með því að reka starf landstengla sem miðla upplýsingum, veita aðstoð og þjónustu við umsóknarferlið, halda námskeið og fleira. Rannís heldur úti öflugri fréttaveitu á horizoneurope.is og á samfélagsmiðlum þar sem helstu fréttum og upplýsingum um Horizon Europe frá framkvæmdastjórn ESB er miðlað áfram til Íslendinga. Einnig veittu landstenglar Rannís töluverða einstaklingsmiðaða ráðgjöf til mögulegra umsækjenda á árinu og héldu kynningar í stofnunum og fyrirtækjum. Sömuleiðis hafa verið haldnir bæði rafrænir og staðbundnir kynningarfundir um tiltekna þætti áætlunarinnar, námskeið í umsóknarskrifum og fleira. Rannís heldur jafnframt utan um stjórnarnefndarstarf Horizon Europe í umboði ráðuneytis, og funduðu stjórnarnefndir og landstengiliðir reglulega á árinu.
Samstarf landstengla Horizon Europe
Rannís tekur virkan þátt í evrópskum samstarfsnetum landstengla ýmissa undiráætlana Horizon Europe, en verkefnin miða að því að styðja við og styrkja samstarf landstengla, fræða þá um áætlunina og bæta færni þeirra svo þeir geti veitt umsækjendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum betri þjónustu. Samstarfsaðilarnir eru systurstofnanir í öllum þátttökulöndum Horizon Europe, en stofnanirnar skiptast á að leiða samstarfið. Á árinu 2023 var Rannís með virka þátttöku í um 12 samstarfsnetum landstengla og sinnir þar margvíslegum verkum.
Erasmus+ er styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál og er starfsemi hennar í höndum Landskrifstofu, sem hýst er af Rannís. Undir Landskrifstofuna fellur einnig European Solidarity Corps (ESC) – sérstök áætlun fyrir ungt fólk sem styrkir sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni.
Mikið var um að vera hjá Erasmus+ og ESC á árinu, bæði hjá umsækjendum, styrkhöfum og Landskrifstofunni sjálfri. Á fyrstu mánuðum ársins voru 14 kynningarviðburðir skipulagðir til að vekja athygli á sóknarfærum ársins og styðja við umsækjendur á staðfundum, vefstofum og hugmyndasmiðjum. Meðal tækifæra í verkefnaflokknum Námi og þjálfun var í fyrsta sinn boðið upp á styrki til íþróttafélaga sem sinna grasrótarstarfi. Kynningarstarf tók einnig til umsóknarfrests í október, en í haust voru þrjár vefstofur haldnar um ólíka verkefnaflokka. Landskrifstofan skipulagði þar að auki kynningarfundi í samstarfi við aðra sjóði Rannís í Vestmannaeyjum og á Akureyri og bauð í aðventukaffi í Borgartúni.
Áhuginn á tækifærum til Evrópusamstarfs endurspeglaðist í umsóknum ársins. Yfir hundrað umsóknir um hátt í fimm þúsund ferðir til náms og þjálfunar sem bárust í umsóknarfrestinum í febrúar bera þessari miklu sókn vitni. Það er einkar vel við hæfi að styrkir til náms og þjálfunar hafi verið svo vel nýttir á árinu sem tileinkað var færni á Evrópuvísu, enda auka ferðir fólks á öllum aldri færni þess, bæði persónulega, faglega og samfélagslega. Þá gat Landskrifstofan styrkt 30 ný samstarfsverkefni á öllum menntastigum og í æskulýðsmálum, sem og átta sjálfboðaliða- og 11 samfélagsverkefni í ESC.
Stuðningur við styrkhafa og eftirlit með framkvæmd verkefna er veigamikill þáttur í starfi Landskrifstofunnar. Í því samhengi má nefna upphafsfundina, sem gefa starfsfólki Landskrifstofu og tengiliðum verkefna tækifæri til að ræða helstu atriði varðandi framkvæmd og umsýslu en líka til að kynnast hvert öðru og fá innsýn í fjölbreytt viðfangsefni og leiðir til útfærslu. Samtalið við styrkhafa á þessum vettvangi og öðrum er dýrmætt fyrir starfsfólk Landskrifstofu til að fá tilfinningu fyrir því hvað virkar vel í áætlununum og hvað má betur fara. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar tímabil áætlananna er hálfnað og verið að meta hvernig þeim skuli háttað eftir að því lýkur. Svonefnt miðmat Erasmus+ og ESC hófst á árinu og stendur til 2024.
Sterk áhersla er lögð á forgangsatriðin sem ná yfir Erasmus+ og ESC í heild í starfsemi Landskrifstofunnar: inngildingu, sjálfbærni, stafræna færni og virka þátttöku. Þannig má nefna að inngildingarstefna skrifstofunnar var birt á vefsíðunni og aðgerðaáætlun henni tengd þróuð áfram. Landskrifstofan bauð viðskiptavinum sínum upp á þjálfun varðandi inngildandi hugsun við framkvæmd verkefna og stóð einnig fyrir fræðsluerindum fyrir starfsfólk Rannís. Landskrifstofan tók einnig þátt í Gleðigöngunni í fyrsta sinn til að sýna samstöðu með réttindabaráttu hinsegin fólks og vekja athygli á þeim stuðningi sem boðið er upp á fyrir verkefni sem takast á við fordóma, misrétti eða hatursorðræðu. Þá má nefna að sérstök ráðstefna um græn markmið í Erasmus+, ESC og eTwinning var haldin í júní þar sem sjónum var beint að verkefnum sem takast á við umhverfis- og loftslagsmál.
Í lok nóvember var svo auglýst eftir umsóknum ársins 2024, en um 13 milljónir evra munu renna til Íslands með beinum hætti í Erasmus+. Auk áðurnefndra forgangsatriða er lögð áhersla á hlutverk áætlunarinnar við að efla samevrópsk gildi, svo sem mannréttindi, frelsi og lýðræði.
Mynd: Erasmus+ og ESC umsóknir og styrkir 2023
Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styrkja evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt, og eru í umsjón framkvæmdastjórnar ESB.
DiscoverEU
DiscoverEU er átak undir Erasmus+ áætluninni þar sem 18 ára ungmennum gefst tækifæri til að kynnast menningu og þjóðum Evrópu með því að ferðast um álfuna með lest. DiscoverEU er happdrætti þar sem vinningar eru 30 daga lestarpassar sem hægt er að nota nær ótakmarkað á evrópskum lestarleiðum. Ísland fær u.þ.b. 50 miða úr pottinum og þau sem eru dregin út fá tækifæri til að skoða heimsálfuna á umhverfisvænan hátt. Íbúar á eyjum fá einnig flugmiða til og frá meginlandinu. Það kostar ekkert að taka þátt í happdrættinu sem fer fram tvisvar á ári en ferðalangar fá afsláttarkort fyrir gististaði sem þau þurfa að bóka sjálf.
Í ár hafa í kringum 100 íslensk ungmenni farið til Evrópu með DiscoverEU og fyrir mörg þeirra var þetta í fyrsta skipti sem þau ferðuðust til útlanda án fullorðinna. Þau tala um að hafa eignast nýja vini, orðið betri í tungumálum og aukið sjálfstraust sitt. Landskrifstofa skipulagði einnig viðburð fyrir evrópska ferðalanga sem voru hér á landi á vegum DiscoverEU í ágúst og mættu níu ungmenni hvaðanæva að úr Evrópu. Þau fengu stutta kynningu á sögu lands og þjóðar en að henni lokinni spilaði hópurinn kubb, fór í sund og svo stóð landskrifstofan fyrir grillveislu. Alvöru íslenskri sumarveislu.
Sérstakur umsóknarfrestur er einu sinni á ári fyrir þau sem telja sig þurfa aukastuðning til að geta tekið þátt. Inngildingarátakið DiscoverEU Inclusion Action veitir möguleika á því að sækja um fjármagn fyrir þessum aukastuðningi, sem gæti m.a. falið í sér kostnað vegna fylgdarmanneskju, flutning á búnaði, eða öðrum kostnaði fyrir þau sem að öðrum kosti gætu ekki tekið þátt. Hægt er að sækja um DiscoverEU Inclusion Action fyrir einstaklinga eða hópa allt að fimm saman (auk fylgdarfólks).
EPALE - samstarf í fullorðinsfræðslu
EPALE er evrópskur vefur fyrir kennara, leiðbeinendur, stefnumótunaraðila og annað fagfólk á sviði fullorðinsfræðslu um formlega eða óformlega fræðslu fullorðinna nemenda, 18 ára og eldri.
Helstu áhersluatriði EPALE árið 2023 voru að styrkja fólk til að takast á við breytingar á vinnumarkaði, hvetja það til að stunda nám og til að vera virkt í lýðræðissamfélagi. Fullorðinsfræðsla getur gegnt lykilhlutverki í að valdefla og auka seiglu nemenda til að takast á við samfélagslegar breytingar á jákvæðan máta.
Hægt er að velja íslenskt viðmót á EPALE vefnum og setja inn efni, blogga og eiga samskipti á íslensku. Þar er hægt að fylgjast með þróun kennsluhátta í fullorðinsfræðslu, finna samstarfsaðila í Evrópuverkefni og tækifæri til starfsþróunar starfsfólks í fullorðinsfræðslu, s.s. námskeið og ráðstefnur.
Fréttabréf á íslensku birtist reglulega á EPALE vefnum og margvíslegar fréttir eru einnig birtar á Facebook-síðunni EPALE Ísland. Norrænt samstarf hefur verið farsælt innan EPALE og þar standa Norðurlöndin saman að því að vekja athygli á efni um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum.
eTwinning - rafrænt skólasamstarf
Evrópska samstarfsnetið eTwinning tengir nemendur og kennara víðs vegar um Evrópu saman í rafrænt samstarf. Verkefnin eru af ýmsum toga og styður landsskrifstofa eTwinning á Íslandi við íslenska kennara og nemendur í starfinu. eTwinning er hluti af European School Education Platform en á því vefsvæði má finna rafræn námskeið fyrir skólastarfsfólk auk alls kyns starfsþróunartækifæra.
Á árinu sendi íslenska eTwinning landskrifstofan kennara og sendiherra sína á ráðstefnur í Bologna, Bergen, Árósum og Lúxemborg. Átta eTwinning sendiherrar eru staðsettir víðs vegar um landið og kynna starfið. Einn þeirra tók þátt í evrópskri sendiherraráðstefnu í Lissabon í Portúgal. Þá fór fram sameiginleg evrópsk verðlaunahátíð í nóvember þar sem handhafar gæðamerkis eTwinning og fulltrúar frá eTwinning skólum fengu viðurkenningu. Alls voru veitt tólf gæðamerki og þrír skólar bættust í hóp eTwinning skóla á árinu. Þeir eru nú þrettán alls á öllum skólastigum.
Árlega eTwinning-ráðstefnan var haldin rafrænt í október. Á henni voru 500 þátttakendur en þar voru tveir kennarar fyrir Íslands hönd ásamt starfsmönnum Landskrifstofu Erasmus+. Starfsfólk skrifstofunnar fór í fjölda skólaheimsókna og eiga skólar víðs vegar um landið kost á því að biðja um slíka kynningu.
Eurodesk - upplýsingaveita fyrir ungt fólk
Eurodesk veitir ungu fólki upplýsingar um möguleika til náms, starfsþjálfunar og sjálfboðaliðastarfa á hlutlausan hátt. Hlutverk Eurodesk er að styðja við Erasmus+ og European Solidarity Corps með því að gera upplýsingar um þau tækifæri sem felast í áætlununum aðgengilegar fyrir ungt fólk og þau sem vinna með þeim. Eurodesk starfar víðsvegar um Evrópu og getur Eurodesk samstarfsnetið, sem tengist yfir 1600 staðbundnum æskulýðsmiðstöðvum í 36 Evrópulöndum, verið gífurlega verðmætt tól til að finna samstarfsaðila fyrir íslensk Evrópuverkefni. Árið 2023 aðstoðaði Eurodesk nokkur íslensk samtök og að finna samstarfsaðila, m.a. ungmennaráð í Grindavíkurbæ til ungmennaskiptaverkefnis. Auk þess veitti Eurodesk einstaklingsbundna ráðgjöf til ungs fólks og aðstoðaði við að finna sjálfboðaliðatækifæri.
Eurodesk á Íslandi skipuleggur ýmsa viðburði í samstarfi við landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, m.a. kynningar þar sem framhaldsskólar víðsvegar á landinu eru heimsóttir ásamt því að halda hugmyndasmiðjur fyrir æskulýðstarfsfólk. Árið 2023 hóf Eurodesk viðræður við Hitt húsið um að verða sérstakur samstarfsaðili sem veitir upplýsingar um Evróputækifæri til ungra skjólstæðinga sinna. Verkefnastýra Eurodesk á Íslandi er einnig í framkvæmdaráði Eurodesk og tekur þátt í fundum ráðsins, skipulagningu netsins og samskiptum við framkvæmdastjórn Evrópu fyrir hönd annarra þátttökuríkja.
Euroguidance - evrópsk miðstöð náms- og starfsráðgjafar
Euroguidance hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessu samhengi er náms- og starfsráðgjöf séð sem tæki til að auka möguleika fólks til að læra og vinna í öðrum löndum Evrópu.
Euroguidance á Íslandi kom að skipulagningu ráðstefnu sem haldin var í Stokkhólmi 31. maí til 1. júní, í samstarfi við hin Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Ráðstefnan var haldin í tengslum við formennsku Svíþjóðar í Evrópusambandinu og fjallaði um mikilvægi náms- og starfsráðgjafar í sambandi við sí- og endurmenntun. Euroguidance á Íslandi bauð upp á námskeið fyrir náms- og starfsráðgjafa á Íslandi í samstarfi við Euroguidance undir yfirskriftinni Hvar leynast tækifæri fyrir ungt fólk að stunda nám og störf erlendis? Námskeiðið var haldið tvisvar, 28. ágúst og aftur 22. september, og sóttu það samtals 34 náms- og starfsráðgjafar af öllum skólastigum.
Miðstöðin stóð einnig fyrir viðburðum, hádegisverðarfundi í samstarfi við EPALE um gervigreind í fullorðinsfræðslu sem 28 starfsmenn innan fullorðinsfræðslu sóttu. Euroguidance hefur átt farsælt samband við Félag náms- og starfsráðgjafa á árinu og studdi við haustráðstefnu félagsins í sambandi við dag náms- og starfsráðgjafar sem hlaut yfirskriftina Flóttafólk og ráðgjöf – menningarnæmi og ráðgjöf til viðkvæmra hópa og hélt Miriam Petra Awad Ómarsdóttir, inngildingarfulltrúi landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, þar erindi.
Félag náms- og starfsráðgjafa var einnig samstarfsaðili um morgunverðarfund sem haldinn var í sambandi við Evrópska hæfniárið þar sem raunfærnimat og tengsl við nám og störf voru kynnt, en fundinn sóttu 45 náms- og starfsráðgjafar. Alþjóðlegt samstarf er stór hluti af starfi Euroguidance, og Ísland tekur þátt í að halda úti heimasíðu www.euroguidance.eu og netverkið gefur út tímaritið Insight Magazine tvisvar á ári auk þess sem sent er út fréttabréf átta sinnum á ári með fréttum sem varða náms- og starfsráðgjafa og alþjóðasamstarf.
Europass - rafræn hæfnismappa
Europass er rafræn menntunar- og hæfnismappa sem er fyrst og fremst ætlað að aðstoða fólk við að sækja nám eða störf erlendis í lengri eða skemmri tíma. Nú hafa yfir 5,5 milljónir aðganga verið stofnaðir á Europass vefsíðunni síðan hún var uppfærð árið 2020 og þeim fer ört fjölgandi með um 2 milljónir heimsókna á mánuði að meðaltali. Árið 2023 voru samtals 211 íslenskir aðgangar stofnaðir, en vefsíðan var að meðaltali heimsótt af 460 íslenskum notendum á mánuði. Europass verkefnið stóð að margvíslegum kynningum á árinu með það að markmiði að ná til ungs fólks og þeirra sem standa utan við vinnumarkaðinn. Einnig var boðið upp á rafrænt námskeið í samstarfi við Euroguidance um notkun á Europass fyrir náms- og starfsráðgjafa sem stendur íslenskum náms- og starfsráðgjöfum til boða endurgjaldslaust.
Europass vefsíðan og sú þjónusta sem þar er boðið upp á er auk þess í stöðugri þróun með auknum möguleikum, t.d. geta einstaklingar nú leitað að sérhæfðum náms- og starfstækifærum í Evrópu út frá sinni hæfni og kunnáttu.
Evrópsk samvinna um raunfærnimat á háskólastigi
Rannís hélt áfram að styðja við innleiðingu raunfærnimats í íslenskum háskólum á árinu í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og ENIC/NARIC á Íslandi. Sú vinna fer fram innan evrópsks stefnumótunarverkefnis á vegum Erasmus+ sem stýrt er frá Austurríki. Verkefnið snýst um að leiða saman tengiliði í fimm löndum auk Íslands – Austurríki, Svíþjóð, Írlandi, Króatíu og Þýskalandi – sem eiga það sameiginlegt að sjá um innlend tengslanet um raunfærnimat eða vera í þann veginn að hleypa slíku neti af stokkunum.
Á Íslandi var íslenskt tengslanet um raunfærnimat á háskólastigi sett á fót í marsmánuði. Meðlimir eru 23 talsins frá ólíkum fagsviðum og stofnunum háskólastigsins en koma öll að mati á raunfærni á einn eða annan hátt. Tengslanetið hittist á fyrsta formlega fundi sínum á netinu í mars og bar þátttakendum saman um að þörfin á innlendu og evrópsku samstarfi um raunfærnimat væri mikil. Í þessu ferli skiptir lykilmáli að skilningurinn milli stofnana og nálgunin á ferlið sé samræmd svo að einstaklingur fái umsókn sína um raunfærnimat afgreidda á sambærilegan hátt óháð því hvert hún er send inn. Því er tengslanetið góður vettvangur til að deila reynslu, aðferðum og áskorunum. Auk fundanna hýsir Rannís samstarfsvettvang fyrir netið á Teams.
Landstengiliður um fullorðinsfræðslu
EAAL er samstarf fyrir alla þá sem koma að stefnumótun í menntun fullorðinna, ráðuneyti og aðra hagaðila. Verkefnið er hluti af samráði um menntun fullorðinna sem miðar að því að auka aðgengi þeirra að menntun. Stærsti markhópurinn á Íslandi er fólk með litla formlega menntun sem getur ef til vill stytt sér leið í námi með raunfærnimati. Þá er fólki sem stendur höllum fæti, t.d. vegna fötlunar eða lítillar íslenskukunnáttu, veitt sérstök athygli.
Á árinu var megináherslan á þátttöku við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og kynningar um hæfniár Evrópu (European Year of skills) í samráði við önnur Evrópuverkefni.
Starfsmenntahópur Erasmus+ (National VET Teams)
Starfsmenntahópur Erasmus+ er sérstakt verkefni innan Erasmus+ áætlunarinnar sem hefur það að markmiði að efla alþjóðastarf í starfsmenntun og þátttöku í Erasmus+ verkefnum. Hópurinn veitir alþjóðafulltrúum, helstu starfsmenntaskólum landsins ásamt öðrum sem bjóða upp á starfsnám stuðning þar sem áhersla er lögð á jafningjafræðslu og að deila reynslu og þekkingu. Fulltrúar starfsmenntahópsins eru þrír og koma úr röðum styrkþega Erasmus+. Árið 2023 stóð starfsmenntahópurinn fyrir tveimur mikilvægum verkefnum er snúa að markhópnum, kynningarátaki og skipulagningu á viðburði.
Starfsmenntahópurinn ákvað að fylgja eftir niðurstöðum rannsóknar sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands vann fyrir Rannís árið áður. Rannsóknin var gerð meðal nemenda í starfsmenntun sem hafa farið í starfsþjálfun til Evrópu með styrk frá Erasmus+ áætluninni en þau telja reynsluna verulega verðmæta, bæði faglega og félagslega. Þar kom sérstaklega fram að kynna mætti betur Erasmus+ áætlunina fyrir nemendum og vildi hópurinn því komast að því með hvaða hætti væri best að kynna Erasmus+ tækifæri. Boðað var til spjallfundar með verk- og starfsnámsnemum sem reynslu hafa af Erasmus+ þátttöku ásamt því að senda út rafræna könnun til fleiri nemenda með sambærilegum spurningum og þeim sem lagðar voru fyrir á spjallfundinum. Afraksturinn af þessari vinnu var hönnun veggspjalda með QR kóða sem leiðir áhugasama inn á upplýsingasíðu. Ungur hönnuður bjó til þrenns konar veggspjöld sem Rannís mun dreifa til allra starfsmenntaskóla landsins.
Starfsmenntahópurinn skipulagði einnig málstofu í lok árs. Umræðuefni málstofunnar var alþjóðastarf í starfsmenntun undir yfirskriftinni „Alþjóðastarf í starfsmenntun, það borgar sig!“ Gestir málstofunnar voru skólastjórnendur, alþjóðafulltrúar í framhaldsskólum, annað skólafólk og fulltrúar fyrirtækja sem sinna starfsþjálfun starfsmenntanema. Þar var rannsókn Menntavísindasviðs H.Í. kynnt og tækifærin sem bjóðast í Erasmus+ áætluninni. Áhersla var lögð á gæði starfsnámsins og mat á náminu sem og mikilvægi starfs alþjóðafulltrúa skóla og annarra stofnana. Nemendur sögðu frá sinni reynslu og fulltrúar skóla og fyrirtækja ræddu mikilvægi og áhrif evrópsks samstarfs á starfsmenntun.
Ein útgáfa af veggspjöldunum sem hönnuð voru fyrir starfsmenntahóp Erasmus+
Creative Europe kvikmynda- og menningaráætlun ESB styrkir skapandi greinar og eflir menningarlega fjölbreytni á sviði kvikmynda, lista og menningar.
Media
Metþátttaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Styrkir frá MEDIA árið 2023 voru rúmlega 2,3 milljónir evra eða 325 milljónir íslenskra króna til íslenskra verkefna.
Heildarfjöldi umsókna 2023 var eftirfarandi:
- Sextán umsóknir frá íslenskum aðilum voru sendar inn og fengu sjö þeirra úthlutað styrkjum.
- Fimm umsóknir voru sendar inn í sjónvarpssjóð MEDIA og fengu fjórar þeirra brautargengi sem er einstakur árangur.
Hver framleiðandi hlýtur 500.000 evra framleiðslustyrk og heildin því tvær milljónir evra. Fyrirtækin eru:
- Glassriver ehf. / Svartir sandar 2
- Compass ehf. / Teiknimyndaserían Ormhildur the Brave
- New Media ehf. / Reykjavík 112
- Vigdís Productions ehf. / þáttaröðin Vigdís
Ein umsókn frá Riff fór í MEDIA Festival/kvikmyndahátíðasjóð og fékk 72.000 evra styrk.
Níu umsóknir voru sendar inn í Þróunarsjóði MEDIA:
- Átta umsóknir voru sendar inn í Mini Slate og ein umsókn fór í samþróunarsjóð. Samanlagt var sótt um að þróa 25 verkefni af ýmsu tagi, leiknar kvikmyndir, sjónvarpsþáttaraðir, heimildarmyndir, teiknimyndir og stuttmyndir.
- Framleiðslufyrirtækið Compass ehf. fékk 140 þúsund evrur til fimm verkefna: þróun tveggja bíómynda, teiknimyndaseríu og „docudrama“ sem er blanda af heimildarmynd og leiknu efni auk stuttmyndar.
Umsókn Bíó Paradís/Heimili kvikmyndanna ehf um dreifingu á evrópskum kvikmyndum fékk úthlutun að upphæð 33.850 evrur.
Fjórar umsóknir voru sendar inn í desember 2023 í sjónvarpssjóð MEDIA. Niðurstöðu er að vænta vorið 2024.
Creative Europe Menning / Culture
Samstarfsverkefni/Co-operation projects: Metfjöldi íslenskra þátttakenda var í umsóknum um CE samstarfsverkefni á umsóknarfresti í mars 2023. Fimm sóttu um að leiða samstarfsverkefni og þrettán voru þátttakendur í verkefnum en því miður hlutu umsækjendur ekki brautargengi þegar niðurstaða lá fyrir í september 2023.
Bókmenntaþýðingar/ Circulation of Euorpean Literary Works: Ein umsókn fór í bókmenntaþýðingasjóð Creative Eruope/ í mars 2023 en fékk ekki styrk.
Culture Moves Europe: Culture Moves Europe hefur styrkt 4 listamenn til námsdvalar í Evrópu. Ein listasmiðja fékk styrk til að taka við evrópskum listamönnum og 52 evrópskir listamenn eða menningarstarfsmenn hafa sótt Ísland heim með dvalarstyrk frá Culture Moves Europe.
LIFE fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfismál og loftslagsbreytingar og skiptist áætlunin í fjögur áherslusvið: loftslagsbreytingar, náttúru og líffræðilega fjölbreytni, hringrásarhagkerfið og orkuskipti. Með þátttöku Íslands í LIFE áætluninni gefst ólíkum aðilum hér á landi kostur á að sækja um styrki til umhverfisverkefna og veitir Rannís margvíslegan stuðning til þeirra sem hyggjast sækja um. Sem dæmi má nefna:
- Kynningar á áætluninni víðsvegar um landið
- Fundir með mögulegum umsækjendum og umsækjendum til að kynna áætlunina og veita ráðgjöf
- Fræðsla og ráðgjöf um umsóknaskrif
- Miðlun og upplýsingagjöf
- Skimun eftir tækifærum til sóknar í sjóði
Skrifað var undir fjóra styrksamninga við 15 íslenska aðila á árinu vegna umsókna sem bárust árið 2022, þar af þrjú verkefni undir íslenskri stjórn. Alls hlutu íslenskir aðilar styrki upp á 7.063.583 evra eða u.þ.b. 1,1 milljarð íslenskra króna, vegna umsóknarársins 2022. Alls hefur íslenskum aðilum verið úthlutað 7.162.998 evra úr LIFE síðan Ísland gerðist aðili að áætluninni. Niðurstöður vegna umsóknarársins 2023 eru væntanlegar í upphafi árs 2024.
Digital Europe áætlunin (DEP) er fjármögnunaráætlun ESB sem leggur áherslu á að koma stafrænni tækni til fyrirtækja, borgara og opinberra aðila. Áætlunin veitir stefnumótandi fjármögnun til verkefna á fimm lykilsviðum: ofurtölvum, gervigreind, netöryggi, stafrænni færni og nýtingu stafrænna lausna. Áætlað umfang DEP á tímabilinu 2021 – 2027 er um 7,5 milljarðar evra. Hlutverk Rannís í DEP er að vera tengiliður áætlunarinnar og miðla þekkingu á málefnum hennar til íslenskra fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila, sjá um fræðslu og aðstoða við umsóknir og greiningu nýrra tækifæra.
Á árinu 2023 var skrifað undir tvo nýja styrktarsamninga við átta mismunandi íslenska aðila vegna umsókna ársins 2022. Heildarupphæð styrkja sem runnu til íslenskra aðila á árinu nam rúmlega fjórum milljónum evra. Þar með hafa sex umsóknir u.þ.b. 15 íslenskra aðila fengið samþykki úr DEP frá árinu 2021, samtals úthlutað 6.038.700 evra. Niðurstöður vegna umsókna ársins 2023 eru væntanlegar á fyrsta ársfjórðungi 2024.
Rannís er einnig þátttakandi í tveimur verkefnum sem eru að hluta til fjármögnuð af DEP; European Digital Innovation Hub (EDIH) og National Coordination Center (NCC). Þessi verkefni gera Rannís kleift að efla enn frekar grunnstarfsemi stofnunarinnar á sviði Evróputækifæra, auka sérþekkingu innan hennar á sviði stafrænnar tækni og fjármögnunarmöguleikum innan þess sviðs. Á árinu 2023 var lagður grundvöllur fyrir starfsemi EDIH og NCC á Íslandi og vænta má árangurs þeirrar vinnu á árinu 2024.
Rannís fer með hlutverk þjónustuskrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES á málefnasviðum stofnunarinnar. Markmið Uppbyggingarsjóðs EES eru einkum tvö, annars vegar að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar að styrkja tengsl á milli framlagaríkjanna þriggja, Íslands, Liechtenstein og Noregs, og styrkþegaríkjanna sem eru 15 talsins. Sjóðnum er því ætlað að styðja við samfélagslega innviði þeirra fimmtán ESB-ríkja sem lakar standa í efnahagslegu tilliti og greiðir Ísland til sjóðsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, ásamt hinum tveimur EES-ríkjunum sem standa utan Evrópusambandsins.
Heildarfjármagn Uppbyggingarsjóðsins 2014-2021 er alls 1,5 milljarðar evra, en verkefnin geta varað til ársins 2024 og er meginhluta fjármagnsins, eða um 98% sjóðsins, úthlutað með opnum köllum. Rannís hefur umsjón með fjórum samstarfsáætlunum á fjórum mismunandi sviðum, það er á sviði rannsókna í Rúmeníu, nýsköpunar í Portúgal, menntunar í Póllandi og á sviði menningar í Tékklandi.
Þátttaka íslenskra aðila í verkefnum sem hafa verið styrkt af sjóðnum hefur verið töluverð, þá sérstaklega á sviði menningar- og menntaáætlana, og ýmsir nýir möguleikar hafa opnast fyrir íslenska aðila t.a.m. á sviði nýsköpunar og rannsókna. Úthlutunum í samstarfsáætlunum Rannís er að mestu lokið á núverandi sjóðstímabili og nú standa yfir fjölmörg verkefni. Í menntaáætluninni í Póllandi eru 59 íslenskir samstarfsaðilar í 101 verkefni. Í nýsköpunaráætluninni í Portúgal, með áherslu á bláan hagvöxt, eru sjö íslenskir samstarfsaðilar í sex verkefnum, í rannsóknaáætluninni í Rúmeníu er einn íslenskur samstarfsaðili í einu verkefni og í menningaráætluninni í Tékklandi eru 24 íslenskir samstarfsaðilar í 22 verkefnum.
Í byrjun árs stóð Rannís fyrir vel heppnuðum samráðsfundi með íslenskum samstarfsaðilum. Einnig fékk Rannís tvær heimsóknir að utan, annars vegar frá sviði menningaráætlunar í Tékklandi í mars og hins vegar frá fulltrúum allra rannsóknaráætlananna í september. Fundirnir tókust einstaklega vel og tók íslenska veðrið vel á móti gestunum. Rannís sótti einnig fundi erlendis á fagsviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningarmála, auk þess að veita leiðsögn til íslenskra þátttökuaðila í Uppbyggingarsjóði EES.
Þátttaka í COST (European Cooperation in the field of Science and Technology) hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum og greiða verkefnin fyrir kostnað vegna funda og ráðstefnuhalds, en ekki kostnað við rannsóknaverkefnin sjálf. COST verkefni hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda í stærri rannsóknaverkefnum innan rannsókna- og nýsköpunaráætlunar.
Alls er 41 þjóðríki með fulla aðild að COST samstarfinu. Einnig tekur Ísraelsríki þátt sem samstarfsland (Cooperating Member) og Suður Afríka hefur aukaaðild (Partner Member).
Í maí var auglýst opnun 70 nýrra COST verkefna og hófust tilnefningar strax í byrjun júní.
Á árinu 2022 (ekki til nýrri tölur) tók Ísland þátt í 43% verkefna sem er þó örlítil lækkun frá árinu á undan. Ísland átti 13 einstaklinga í leiðtogastöðu (e. leadership position) innan verkefna sem er það mesta sem verið hefur.
Nýsköpunarstyrkur COST verkefna
Dagana 6. – 8. september funduðu um 50 vísindamenn og sérfræðingar á sviði hjarta- og æðasjúkdóma um verkefnið „IMproving Preclinical Assessment of Cardioprotective Therapies" (IMPACT), sem hefur hlotið nýsköpunarstyrk (Innovation Grant) innan COST áætlunarinnar. Verkefni sem hljóta nýsköpunarstyrk innan COST eru talin líkleg til að ná árangri við að tengja grunnrannsóknir við markaðinn, hvort sem um er að ræða vöru, bætta þjónustu eða samfélagslegan ávinning. Verkefnið sem hófst árið 2022 lauk með fundinum í Reykjavík. Gestgjafi og skipuleggjari var George Kararigas, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Forveri IMPACT var COST verkefnið „Realising the therapeutic potential of novel cardioprotective therapies" (EU-CARDIOPROTECTION) og eru bæði þessi verkefni undir stjórn prófessors Derek Hausenloy.
Rannís hefur umsjón með þátttöku Íslands í Euraxess, sem hefur það hlutverk að styðja við markmið Evrópska rannsóknasvæðisins um að auka flæði vísindaþekkingar innan álfunnar, t.a.m. með því að auðvelda vísindafólki að flytjast búferlum á milli landa og að styðja við framaþróun þeirra. Rannís starfar markvisst með öllum opinberu háskólunum við að byggja upp móttökuumhverfi erlends vísindafólks á Íslandi. Meðal verkefna ársins var námskeið sem Rannís hélt í samstarfi við Miðstöð framhaldsnáms við HÍ auk HA og HR fyrir leiðbeinendur doktorsnema í háskólum sem mikil eftirspurn er eftir. Þá stóðu Rannís og HÍ fyrir ráðstefnu í maímánuði fyrir starfsfólk háskóla á Norðurlöndunum sem starfa við móttöku erlendra fræðimanna en ráðstefnuna sóttu um 100 manns.
Enterprise Europe Network er samstarfsnet fyrir fyrirtæki með það að markmiði að styðja metnaðarfull fyrirtæki í nýsköpun og alþjóðlegum vexti. Rannís er þjónustuaðili Enterprise Europe Network á Íslandi og veitir gjaldfrjálsa þjónustu til fyrirtækja í sókn á nýja markaði og leit að erlendum samstarfsaðilum.
Enterprise Europe Network er styrkt af Evrópusambandinu og nær til 600 samstarfsaðila í yfir 65 löndum. Árangrinum er náð með því að nýta tengslin innan þessa öfluga netverks þar sem sérfræðingar netverksins þekkja viðskiptaumhverfið á staðnum og nýta sitt tengslanet.
Viðburðir og kynningar sem Enterprise Europe Network kom að:
Enterprise Europe Network á Íslandi tók þátt í Innovation week 2023, var þar bæði með almenna viðveru og viðburð með fókus á nýsköpunargreiningar fyrir fyrirtæki.
EEN var ásamt Rannís með bás á UTmessunni þar sem þjónusta EEN og Digital Europe prógrammið var kynnt fyrir þátttakendum messunnar.
Í september 2023 hélt EEN í Danmörku Food & Bio global summit, og þar var Matís með þátttakanda á þessum vel sótta viðburði.
Aðrir viðburðir Enterprise Europe Network
Að auki kynnti Enterprise Europe Network þjónustu sína fyrir íslenskum frumkvöðlum á hinum ýmsu kynningarfundum og í Dafna.
Eurostars er fjármögnunaráætlun innan EUREKA sem er sérstaklega ætluð til að auka rannsókna- og þróunarsamstarf lítilla og meðalstórra nýsköpunarfyrirtækja, en Ísland hefur verið aðili að EUREKA samstarfinu frá árinu 1986. Í dag standa 37 lönd að áætluninni ásamt Evrópusambandinu. Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári og er lögð áhersla á að verkefnin séu tiltölulega nálægt markaði. Tækniþróunarsjóður sér um að fjármagna íslenska þátttöku í samþykktum verkefnum, en árið 2023 fengu fjögur ný verkefni með íslenskri aðild stuðning, auk þess sem 14 framhaldsverkefni voru í gangi með íslenskum þátttakendum.
Evrópumerkið er viðurkenning sem er veitt til tungumálakennara eða annarra sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Mennta- og barnamálaráðuneytið veitir viðurkenninguna í samstarfi við Rannís og sækja verkefni um viðurkenninguna sem líta má á sem gæðastimpil á verkefnið þeirra.
Á Íslandi er viðurkenningin veitt annað hvert ár, en í ár hlaut verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag frá Háskólasetri Vestfjarða viðurkenninguna, og 500.000 kr. styrk. Alls sóttust sjö framúrskarandi verkefni eftir viðurkenningunni svo samkeppnin var hörð, en dómnefnd skipuðu fulltrúar frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Samtökum tungumálakennara á Íslandi.
Í umsögn dómnefndar kom meðal annars fram að verkefnið væri fyrirmyndarverkefni og félli vel að forgangsatriðum Evrópumerkisins 2023 en þau voru meðal annars að veita innflytjendum stuðning við að læra tungumál heimamanna til þess að tryggja félagslega samheldni og að allt fólk hafi aðgang að þeim björgum sem nauðsynlegar eru til þess að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Verðlaunaafhendingin fór fram á KEX Hostel þann 14. nóvember þar sem forstöðumaður Rannís, Ágúst H. Ingþórsson veitti viðurkenninguna fyrir hönd mennta- og barnamálaráðherra.
Miðstöð evrópskra tungumála (European Centre for Modern Languages) er stofnun á vegum Evrópuráðsins sem rekin er í Graz í Austurríki. Hlutverk hennar er að efla og styðja við nám og kennslu í evrópskum tungumálum m.a. með því að útfæra og kynna þau gögn sem Evrópuráðið hefur þróað á þessu sviði, svo sem Evrópska tungumálarammann (CEFR). Rannís sér um að koma tækifærum á vegum miðstöðvarinnar á framfæri, í góðu samstarfi við Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Markhópurinn er fyrst og fremst kennarar og starfsfólk sem kemur að tungumálakennslu á öllum stigum og felst starfsemi tungumálamiðstöðvarinnar m.a. í skipulagningu námskeiða og vinnustofa í Graz og víðar. Einnig er á vegum stofnunarinnar unnið að margvíslegum þróunar- og rannsóknarverkefnum á sviði tungumálanáms og tungumálakennslu.
Kynning var haldin á starfsemi Miðstöðvar evrópskra tungumála þann 9. júní 2023 í Veröld – Húsi Vigdísar, þar sem Sarah Breslin framkvæmdastjóri hennar kynnti nýja vinnuáætlun fyrir tímabilið 2024-2027. Nýtt tímabil verður tileinkað Tungumálakennslu sem grunni að lýðræði (Language Education at the Heart of Democracy). Miðstöð evrópskra tungumála hefur alltaf fylgst með nýjum áherslum í tungumálakennslu í aðildarlöndum hennar, en einnig forgangsröðun Evrópuráðsins í menntamálum varðandi menntun án aðgreiningar og mannréttindi og lýðræði, þar sem þróun tungumálakunnáttu og menningarlegrar færni leikur lykilhlutverk. Boðið verður upp á fjölmargar vinnustofur og verkefni á tímabilinu og geta aðildarlönd almennt sent einn þátttakanda á hvert námskeið eða vinnustofu sér að kostnaðarlausu.
Markmiðið með sóknarstyrkjum er að auðvelda íslenskum aðilum að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum með því að styrkja undirbúning umsókna. Fjármagnið kemur úr Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði, en á árinu 2021 ákváðu stjórnir þessara sjóða að auka framlag sitt verulega og hækkaði ráðstöfunarfé sóknarstyrkja úr 20 í 50 milljónir króna. Þessi hækkun var staðfest fyrir árið 2023. Vegna þessarar aukningar var hægt að koma betur til móts við þarfir þeirra aðila sem sækja um í alþjóðlega sjóði og voru 108 af 174 umsóknum styrktar. Skiptust styrkirnir með svipuðum hætti og fyrri ár. Þannig fengu háskólar um 60% upphæðarinnar, rannsóknastofnanir rúmlega 20% og fyrirtæki tæplega 20%.
Samstarf íslenskra rannsóknasjóða í svokölluðum samfjármögnunarverkefnum (ERA-NET og Partnerships) gerir íslenskum fyrirtækjum og stofnunum kleift að taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknaverkefnum á völdum sviðum. Rannís tekur þátt í nokkrum slíkum verkefnum sem styrkja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hvert ERA-net og Partnership hefur eigin áherslusvið, þátttökureglur og umsóknarfresti.
Samfjármögnunarverkefnin sem Rannís tók þátt í og voru með úthlutanir á árinu eru:
- Clean Energy Transitions Partnership (CETP) - Fyrsta kallinu er lokið og ein umsókn var styrkt með íslenskri þátttöku.
- Sustainable Blue Economy Partnership (SBEP) – Fyrsta kallinu lauk á árinu og voru tvær umsóknir styrktar með íslenskri þátttöku.
Sumarið 2023 voru veittir námsstyrkir úr UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðnum í annað sinn til íslenskra nemenda sem hefja nám í Bretlandi, annaðhvort á meistara- eða doktorsstigi. Geimferðastofnun Bretlands, UK Space Agency, veitir styrkina í samstarfi við Rannís, breska sendiráðið í Reykjavík og íslensk yfirvöld. Sjóðurinn var stofnaður til að styðja við samstarf milli Bretlands og Íslands á sviði háskólamenntunar og þjálfunar og styrkir íslenska nemendur sem stunda nám eða þjálfun í Bretlandi.
Rannís tók við fjölbreyttum og vönduðum umsóknum þar sem nemendur í margvíslegum greinum sóttu um, svo sem alþjóðasamskiptum, lífefnafræði, sagnfræði og líffræði. Að þessu sinni voru veittir þrír styrkir til framúrskarandi umsækjenda. Hver styrkur nemur 10.000 pundum og auk hans hafa styrkþegar möguleika á launaðri starfsþjálfun við breskt fyrirtæki eða stofnun innan ramma SPIN-áætlunarinnar.
Á myndinni má sjá Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur og Guðrúnu Diljá Agnarsdóttur taka við styrknum við breska sendiherrabústaðinn ásamt Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands.
Rannís og breska vísinda-, nýsköpunar- og tækniráðuneytið í samstarfi við breska sendiráðið í Reykjavík, breska vísinda- og nýsköpunarnetið og Norðurslóðaskrifstofu umhverfisrannsóknaráðs Bretlands, ásamt breska utanríkisráðuneytinu, skrifuðu undir samning á árinu um samstarf sem felst í að veita styrki til rannsóknasamstarfs íslenskra og breskra aðila.
Styrkjunum er ætlað að styðja við rannsóknavinnu, tengslamyndun og uppbyggingu rannsóknateyma, þ.m.t. að deila færni og tækni og þróa hagnýtar aðferðir sem sameina vísindi og hefðbundna/staðbundna þekkingu. Umsóknarfrestur um styrki verður í janúar 2024 og verða styrkupphæðir á bilinu 5 – 20.000 pund.
Norrænt samstarf
Norrænt samstarf á starfssviði Rannís á sér langa sögu og tekur stofnunin þátt í samstarfsnefndum á vegum Norræna ráðherraráðsins.
- Rannís rekur landskrifstofu norrænu menntaáætlunarinnar Nordplus, auk þess að hafa tímabundið umsjón með aðalskrifstofu Nordplus fyrir öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin.
- Rannís sér um samfjármögnun nokkurra verkefna á vegum NordForsk sem hafa skilað góðum ávinningi fyrir íslenskt rannsóknasamfélag, auk þess að eiga gott samstarf við Nordic Innovation.
- Rannís hefur verið falið að sjá um verkefnið Menntun til sjálfbærni sem er menntahluti framtíðarstefnu Norðurlandanna um að þau verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.
- Jafnframt sér Rannís um styrkveitingar úr tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs undir heitinu Arctic Research and Studies, sem fjármagnað er af utanríkisráðuneytum ríkjanna og er ætlað að styðja við samstarf þjóðanna í rannsóknum á norðurslóðum.
Rannís rekur landskrifstofu fyrir norrænu menntaáætlunina Nordplus sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Áætlunin, sem skiptist í fimm undiráætlanir, veitir styrki á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og hefur um 12 milljónir evra til úthlutunar á ári hverju. Auk þess að reka landskrifstofu áætlunarinnar, tók Rannís við yfirstjórn Nordplus árið 2019 og mun gegna því hlutverki til ársloka 2024.
Norðurlöndin fimm skipta með sér yfirumsjón undiráætlananna fimm og hefur Rannís umsjón með tungumálahluta áætlunarinnar. Þar er árlega úthlutað styrkjum til ýmissa verkefna sem felast í gerð kennsluefnis, ráðstefnuhaldi og starfi sérfræðinganeta í norrænum tungumálum. Einnig eru hjá Rannís tengiliðir fyrir íslenska þátttöku í öðrum hlutum Nordplus, þar sem bæði nemendur og kennarar geta fengið styrki til heimsókna eða námsdvalar, samvinnuverkefna eða þátttöku í samstarfsnetum, sem öll miða að því að auka samskipti þjóðanna á sviði menntunar. Á hefðbundnu ári fara um 600–800 Íslendingar í náms- og þjálfunarferðir til annarra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og svipaður fjöldi kemur hingað til lands með stuðningi Nordplus. Þá er veittur stuðningur til þróunarverkefna á sviði menntunar á öllum stigum og til samstarfsneta sem vinna saman að brýnum verkefnum innan menntageirans. Árið 2023 voru um 8% þeirra verkefna sem áætlunin styrkti íslensk og það því gott merki um að áætlunin skipti miklu máli fyrir farsælt norrænt menntasamstarf.
Úthlutanir
Árið 2023 bárust 499 umsóknir um Nordplus styrki í aðalumsóknarfresti áætlunarinnar í febrúar og fjölgaði þeim um 35% milli ára. Ísland átti um 8% umsóknanna og gekk því almennt mjög vel. Samtals fengu 340 umsóknir styrki og var úthlutunarhlutfall umsókna um 67%. Úthlutunarhlutfall fjármagns var 47% sem er nokkuð lægra en árið 2022. Alls úthlutaði Nordplus rúmlega 12,75 milljónum evra til 2.729 skóla, stofnana, samtaka og fyrirtækja á öllum Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum sem er 11% fleiri aðilar en árið áður.
Í tungumálahluta Nordplus bárust 33 umsóknir eða 13 fleiri en árið á undan, sem er um 55% aukning milli ára.
Starfsemi yfirstjórnar á árinu
Í rekstri aðalskrifstofunnar felst samræming á starfi landskrifstofa á Norðurlöndunum fimm, sem skipta með sér verkum við undirbúning úthlutana, auk starfs sem unnið er af tengiliðum í Eystrasaltsríkjunum, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Aðalskrifstofan sér einnig um samskipti við Norrænu ráðherranefndina og formennskuríkið á hverjum tíma. Stærsta verkefni ársins 2023 var að hefja nýja fimm ára áætlun Nordplus 2023-2027 og tókst það vel. Einnig átti aðalskrifstofan gott samstarf við íslensk yfirvöld en Ísland var með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023. Aðalskrifstofan sá meðal annars um að skipuleggja tvo fundi stjórnarnefndar Nordplus eins og venja er. Að þessu sinni voru fundirnir í Hveragerði í apríl og í Vilnius í Litháen í október. Vel gekk að fá umsóknir í Nordplus árið 2023 og er áætlunin að rétta úr kútnum eftir erfið Covid-19 ár.
Yfirstjórn Nordplus stóð fyrir stjórnendafundi?? Nordplus á Grænlandi í júní. Þetta er fyrsti viðburður sem haldinn er á Grænlandi frá því að Nordplus hóf göngu sína fyrir 35 árum síðan! Svo óheppilega vildi til að fulltrúar Íslands komust ekki á fundinn vegna veðurs en fulltrúar hinna Norðurlandanna mættu og héldu uppi gunnfána Nordplus á fundinum. Haldnir voru opnir fundir með fulltrúum skóla og einnig hittu fulltrúar Nordplus ráðuneyti þeirra málaflokka sem sjá um Nordplus á Grænlandi.
Landskrifstofa Nordplus
Hlutverk Rannís árið 2023 var fyrst og fremst að vera upplýsingaskrifstofa fyrir allar undiráætlanir Nordplus auk þess að hafa yfirumsjón með Nordplus norrænu tungumálaáætluninni. Þetta felur í sér að starfsfólk Rannís svarar spurningum um undiráætlanirnar og veitir ráðgjöf og kennslu í umsóknarferlinu, auk þess sem það tekur þátt í matsferli á umsóknunum í samstarfi við landskrifstofur hinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna . Starfsfólk Rannís hefur yfir árið kynnt áætlunina á margvíslegum viðburðum.
Tungumálahluti Nordplus hélt tengslaráðstefnu í Hveragerði í september í samvinnu við yfirstjórn Nordplus undir yfirskriftinni Nya Initiativ för nordisk språkförståelse. Ráðstefnan var ætluð tungumálakennurum, skólastjórnendum, ráðuneytisfólki, frjálsum félagasamtökum og öllum þeim sem tengjast tungumálakennslu. Rúmlega sextíu aðilar frá öllum Norðurlöndunum sóttu ráðstefnuna og heppnaðist hún mjög vel.
Hlutverk NordForsk er að styðja við norrænt rannsóknasamstarf í gegnum samstarf stærstu fjármögnunaraðila rannsókna allra Norðurlandanna. Á vettvangi NordForsk eru skilgreindar samstarfsáætlanir á ákveðnum sviðum sem hafa það að markmiði að veita fé til sameiginlegra forgangsmála á sviði rannsókna. Á hverjum tíma eru í gangi nokkrar slíkar áætlanir á ólíkum fræðasviðum, og má þar nefna á sviði samfélagslegs öryggis, heilbrigðisvísinda og menntarannsókna.
Eftirfarandi samstarfsáætlanir voru í gangi á árinu 2023:
- Nordforsk - Societal Security Beyond Covid 19. Markmið áætlunarinnar er að kanna afleiðingar af Covid-19 faraldrinum til lengri og skemmri tíma. Enginn umsóknarfrestur var á árinu 2023.
- Nordforsk - Future Working Life Research Programme. Vel starfhæft atvinnulíf er lykilatriði í þróun samfélagsins þar sem það skapar skilyrði fyrir hagvöxt og fjármögnun velferðarkerfa. Markmið áætlunarinnar er að efla þekkingu á vinnumarkaði framtíðarinnar. Enginn umsóknarfrestur var á árinu 2023.
- Nordforsk – Sustainable Agriculture and Climate Change. Loftslagsbreytingar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á landbúnað og fæðu- og fóðuröryggi. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknaverkefni á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að nýjungum í landbúnaði og aðlögun plantna að breyttum aðstæðum á svæðinu og svæðisbundinni próteinframleiðslu til manneldis og í dýrafóður. Enginn umsóknarfrestur var á árinu 2023.
- NordForsk – Education for Tomorrow. Ísland hefur tekið þátt í Education for Tomorrow rannsóknaráætluninni frá 2013, en áætlunin er nú í öðrum fasa sem er frá 2017 til 2023. Heildarfjárhagsáætlun fyrir allt tímabilið 2013-2023 er um tveir milljarðar króna. Á árinu 2021 lauk fjórum verkefnum sem íslenskir aðilar taka þátt í, og í gangi er eitt stórt öndvegisnet með íslenskri þátttöku. Netið heitir Quality in Nordic Teaching og taka bæði Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands þátt í því. Á árinu var jafnframt samþykkt af Íslands hálfu að halda samstarfinu áfram eftir 2023.
- Nordic Programme for Interdisciplinary Research. Markmið áætlunarinnar er að styðja við þverfaglegar rannsóknir sem rjúfa hefðbundin landamæri vísinda og fræða, og taka öll Norðurlöndin þátt með fjárframlagi í sameiginlegan sjóð. Rannís heldur utan um þátttöku Íslands sem er fjármögnuð af Rannsóknasjóði. Enginn umsóknarfrestur var árið 2023.
- Welfare among Children and Young People in the Post-Pandemic Nordics – Markmið áætlunarinnar er meðal annars að styðja við rannsóknir sem auka þekkingu á hvernig hægt er að milda áhrif heimsfaraldurs á velferð barna og ungmenna.
Enginn umsóknarfrestur var árið 2023. - Green Transition. Markmið áætlunarinnar er að styðja við rannsóknaverkefni á sviði grænna umskipta. Umsóknarfrestur var 5. desember 2023.
Rannís tekur þátt í þremur norrænum samstarfsnefndum á vegum rannsóknaráða Norðurlandanna, NOS-HS á sviði hug- og félagsvísinda, NOS-N í raunvísindum og náttúruvísindum og NOS-M sem er samstarfsnefnd í heilbrigðisvísindum.
NOS-HS er samstarfsvettvangur í hug- og félagsvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Ekki var auglýst eftir umsóknum 2023. Hins vegar var úthlutað styrkjum til rannsóknaverkefna en kallað var eftir umsóknum árið áður með það í huga að veita yngra vísindafólki tækifæri til að leiða rannsóknaverkefni og byggja upp norrænt tengslanet. Styrkt verkefni voru sjö og tóku íslendingar þátt í þremur þeirra. Umfjöllunarefnið fjölbreytt, allt frá víkingum, fornum lagabókum, eldri innflytjendum, til flóttafólks frá Úkraínu.
NOS-N eer samstarfsvettvangur á vegum fjármögnunaraðila rannsókna í raunvísindum og náttúruvísindum á Norðurlöndum. Haldnir voru tveir fundir á árinu. Fyrri fundurinn var 11.-12. maí í Kaupmannahöfn og þar var m.a. fjallað um stuðning og stöðu styrkveitenda við græn umskipti. Síðari fundurinn var haldinn á netinu 5. desember 2023, og var þema hans innlendir rannsóknarinnviðir í norrænu samhengi.
NOS-M er samstarfsvettvangur í heilbrigðisvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Haldinn var einn fundur á árinu.
Á árinu hófst nýtt fjögurra ára tímabil Arctic Research and Studies fyrir árin 2023-2026. Í apríl fór fram kynningarviðburður á High North Dialouge í Bodø, Noregi, þar sem fulltrúar frá Rannís, Háskólanum á Akureyri og Hk-dir kynntu Arctic Research and Studies sjóðinn. Í október sama ár fór fram pallborðsumræða á Arctic Circle í Hörpu þar sem starfsemi sjóðsins var kynnt og fyrrum styrkþegar deildu sinni reynslu. Umsóknir fyrir árið 2023 opnuðu um mitt árið og umsóknarfresturinn var til 1. desember. Umsækjendur eiga von á svörum í byrjun árs 2024.
Verkefnið Menntun til sjálfbærni heyrir undir Norrænu ráðherranefndina en Rannís leiðir verkefnið á Íslandi. Markmið verkefnisins er að þróa samstarfsnet til að samþætta sjálfbæra þróun við kennslu allra skólastiga. Markhópur verkefnisins eru kennarar á öllum skólastigum á Norðurlöndunum (Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð) sem og á sjálfstjórnarsvæðunum Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Stefnt er að því að sjálfbær þróun verði samofin öllu námi barna jafnt sem fullorðinna.
Helstu viðburðir verkefnisins á Íslandi 2023
Menntamálaráðherrar Norðurlanda og forysta kennarasamtaka á Norðurlöndum ræddu menntun til sjálfbærni á öllum námsstigum í Hörpu 3. maí.
Þessi fundur um menntastefnu var í formi samtals milli norrænu menntamálaráðherranna og forystu kennarasamtakanna á Norðurlöndum um þemað: „Hvernig getum við aukið vitund um sjálfbærni í menntun“.
Þemað tengist áætlun Norðurlanda um sjálfbærni (Nordic Vision 2030) og verkefni okkar Menntun til sjálfbærni sem og formennskuverkefni Íslands 2019–2021.
Þetta var fyrsti fundur allra menntamálaráðherra á Norðurlöndum með forystu kennarasamtaka um þetta þema.Dagana 1.-3. nóvember 2023 fór fram ungmennaráðstefna á vegum verkefnisins Menntun til sjálfbærni sem Rannís leiðir fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar, en ráðstefnan var skipulögð í samvinnu við Samfés. Á ráðstefnunni voru saman komin hátt í 70 ungmenni frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðum Norðurlandanna. Tilefni ráðstefnunnar var að fá að heyra raddir unga fólksins og fá þeirra álit á hvernig unnið er með sjálfbærni í skólum og hvernig tekist hefur að samþætta sjálfbærni við þá kennslu sem fyrir er. Ungmennin unnu saman tillögur um hvernig hægt væri að vinna nánar með sjálfbærni í skólum og kennslu og þær niðurstöður voru kynntar mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið stýrir samstarfinu fyrir hönd Íslands en Rannís sér um framkvæmd verkefnisins. Veittir eru styrkir til ferða- og dvalarkostnaðar fyrir vísindamenn til gagnkvæmra heimsókna.
Alls bárust 17 umsóknir og ákveðið var að styrkja fimm þeirra. Heildarúthlutunin var fjórar milljónir króna og hlaut hver styrkþegi 800 þúsund krónur sem ætlað er til greiða ferða- og dvalarkostnað vísindamanna vegna gagnkvæmra heimsókna á tímabilinu 2024 til 2025.
Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) hefur verið til húsa að Borgum á skólasvæði Háskólans á Akureyri frá árinu 2017 og er rekin samkvæmt samningi IASC og Rannís sem gildir til ársloka 2026. IASC er leiðandi alþjóðleg vísindastofnun á norðurslóðum með 24 þátttökulöndum. Hlutverk IASC er að hvetja til og greiða fyrir samstarfi á öllum sviðum norðurslóðarannsókna, í öllum löndum sem stunda rannsóknir á norðurslóðum og á öllum svæðum norðurskautsins. IASC er áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu.
Helstu vísindastörf IASC eru unnin af fimm vinnuhópum þess: Atmosphere; Cryosphere; Marine; Social and Human; and Terrestrial. Á árinu 2023 veittu hóparnir m.a. undirbúningsstyrki til 20 alþjóðlegra verkefna og gáfu út skýrsluna IASC State of Arctic Science Report 2023. IASC Fellowship áætlunin styður við þátttöku nýrra vísindamanna í starfi vinnuhópanna. Arctic Science Summit Week IASC ráðstefnan fór fram dagana 17. – 24. febrúar 2023 í Vínarborg í Austurríki með 850 þátttakendum frá 37 löndum.
Frá 2022 til 2026 hefur IASC umsjón með 4th International Conference on Arctic Research Planning (ICARP IV) ferlinu. Á árinu 2023 voru sett á laggirnar sjö ICARP IV teymi, með 170 vísindamenn, innfædda þekkingarhafa (e. indigenous knowledge holders) og kennara frá 26 löndum (þar á meðal Íslandi) innan borðs, sem munu vinna að þekkingareyðum, forgangsröðun og þörfum fyrir rannsóknir á norðurslóðum næsta áratuginn, leiðum til að mæta þessum þörfum og möguleikum á nýjum samstarfshópum og samstarfsverkefnum. Niðurstöður ICARP IV ferlisins munu leggja grunninn að þróun rannsóknarþema norðurslóða fyrir fimmta alþjóðlega heimskautaárið (e. 5th International Polar Year 2032-33).