Ávarp forstöðumanns

Uppskeruár

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, fer yfir árið 2023 sem var ár uppskeru.

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís fyrir framan vegg með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

Árið 2023 var sannkallað uppskeruár í starfsumhverfi Rannís. Hæst ber fréttir af góðum árangri nýsköpunarfyrirtækja sem sjóðir í umsjón Rannís hafa bæði styrkt og verðlaunað. Þar var stærsta fréttin sala á líftæknifyrirtækinu Kerecis fyrir ríflega milljarð dollara sem mun veita verulega innspýtingu í nýsköpunargeirann á Íslandi. Tækniþróunarsjóður og síðar skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna hafa stutt við þróun og starfsemi Kerecis frá 2008 og er vegferð fyrirtækisins áminning um að nýsköpun á grunni vísindalegrar þekkingar tekur oft langan tíma og krefst mikillar þolinmæði. Árangursrík nýsköpun tekur þó ekki alltaf langan tíma. Þannig fékk fyrirtækið PayAnalytics bæði vaxtar- og markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði árið 2018 og svo Nýsköpunarverðlaun Íslands 2023 við hátíðlega athöfn í október og í lok árs var það selt svissnesku fyrirtæki fyrir upphæð sem mun geta numið nokkrum milljörðum króna.

„Úttektin staðfestir gott starf Rannís og bendir á tækifæri til úrbóta sem Rannís er sammála og vonast eftir góðu samstarfi við stjórnvöld um umbætur á regluverki“

Aukinn stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki hefur aldrei verið meiri en árið 2023. Tæplega 14 milljarða króna stuðningur var veittur í formi skattfrádráttar og beinna útgreiðslna frá Skattinum og einnig hafði Tækniþróunarsjóður rúmlega þrjá milljarða króna til ráðstöfunar.

Á árinu var birt úttekt OECD á skattfrádrætti rannsókna- og þróunarverkefna, sem var orðin tímabær, enda hefur þessi stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki vaxið mjög hratt á síðustu árum. Úttektin dregur vel fram hversu jákvæð áhrif þessi stuðningur hefur haft, sérstaklega á lítil og meðalstór fyrirtæki. Úttektin staðfestir gott starf Rannís og bendir á tækifæri til úrbóta sem Rannís er sammála og vonast eftir góðu samstarfi við stjórnvöld um umbætur á regluverki.

Rannís hefur umsjón með nærri 30 sjóðum sem úthlutað var úr á árinu 2023 og átta alþjóðlegum samstarfsáætlunum. Samtals námu fjárveitingar til sjóða og áætlaðar úthlutanir úr alþjóðlegum áætlunum um 32,5 milljörðum króna á árinu 2023 og gert er ráð fyrir að sú upphæð verði rúmlega 34 milljarðar króna árið 2024.

Góður gangur í alþjóðlegu samstarfi

Af alþjóðlegu samstarfi bárust einnig góðar fréttir – en ný kynslóð samstarfsáætlana Evrópusambandsins, sem hófst árið 2021, fór nokkuð seint af stað. Það breyttist árið 2023 þegar margir íslenskir aðilar hlutu styrki. Nefna má sérstaklega að þrjú íslensk fyrirtæki hlutu bæði styrki og hlutafjárloforð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem geta leitt til fjárfestinga upp á meira en þrjá milljarða króna. Íslensk fyrirtæki hlutu einnig stóra styrki úr nýjum áætlunum sem Ísland hefur ekki tekið þátt í áður: Life og Digital Europe sem nánar er sagt frá í þessari ársskýrslu.

Þær áætlanir sem Rannís hefur lengi séð um gengu ekki síður vel. Mannaskipti og menntasamstarf af margvíslegu tagi eru komin á fulla ferð aftur eftir heimsfaraldurinn og hefur Landskrifstofa Erasmus+ aldrei úthlutað eins miklu fjármagni. Þá var einnig metár í Creative Europe og er með ólíkindum sá árangur sem íslenskur sjónvarps- og kvikmyndaiðnaður hefur náð.

Þá var ánægjulegt að ganga frá samstarfssamningi við færeyska rannsóknaráðið sem er sambærilegur þeim sem gerður var við grænlenska rannsóknaráðið árið 2022. Í árslok bárust þau ánægjulegu tíðindi að fjárveiting hefur fengist á norrænum vettvangi til að efla samstarf þessara þriggja ríkja og er gert ráð fyrir vinnustofum vísindamanna frá þessum löndum árlega næstu þrjú árin. Bæði Færeyingar og Grænlendingar horfa til reynslu Íslands af þátttöku í evrópsku samstarfi og mun Rannís fúslega miðla af reynslu sinni.

„Þá eru viðskiptavinir stofnunarinnar einnig ánægðir með starfsfólkið og þjónustuna samkvæmt þjónustukönnun sem gerð var á árinu.“

Rekstur í jafnvægi á viðburðaríku ári

Í innra starfi og rekstri Rannís ber hæst að gengið var frá endurnýjuðum stofnanasamningum við öll stéttarfélög sem starfsfólk Rannís á aðild að. Nýir samningar gera launasetningu gagnsærri og sveigjanlegri en áður. Haldið var áfram með umbætur á húsnæði og vinnuaðstöðu starfsfólks til að gera stofnunina hlýlegri. Starfsandi er góður og mikil þátttaka í þeim starfsmannaviðburðum sem skipulagðir voru. Þá eru viðskiptavinir stofnunarinnar einnig ánægðir með starfsfólkið og þjónustuna samkvæmt þjónustukönnun sem gerð var á árinu. Níu hundruð manns svöruðu og tveir þriðju þeirra voru ánægðir með þjónustu Rannís og rétt er að taka fram að aðeins helmingur þeirra hafði fengið styrk.

Talsverður vöxtur var í sértekjum frá fyrra ári. Lágt gengi krónunnar stuðlaði að auknum sértekjum sem gerði stofnuninni kleift að standa undir auknum kostnaði. Vöxturinn kemur fyrst og fremst til vegna aukinna alþjóðlegra verkefna sem stofnunin hefur tekið að sér og var farið af stað með nokkur ný verkefni á árinu.

Að venju stóð starfsfólk Rannís fyrir mörgum viðburðum á árinu. Þar bar hæst feikilega vel heppnaða Vísindavöku og viðburði í tengslum við hana í Reykjavík og úti á landi. Yfir sex þúsund manns lögðu leið sína í Laugardalshöll og hittu þar fyrir um 40 sýnendur sem höfðu meira rými til ráðstöfunar en nokkru sinni áður. Fjölskyldufólk var mjög áberandi sem var afar ánægjulegt og það var gaman að sjá áhugann hjá börnunum.

Stofnunin hefur eflst á síðustu árum og talsvert hefur bæst í hópinn af nýju fólki en jafnframt er stór hópur sem hefur mikla starfsreynslu. Sá góði árangur sem náðist í starfsemi stofnunarinnar árið 2023 er fyrst og fremst að þakka því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Rannís.

„Loks verður nýr og fyllilega tvímála vefur þróaður á árinu og hýstur hjá Stafrænu Íslandi“

Spennandi tímar framundan

Ef horft er fram á veginn til ársins 2024 þá eru nokkur stór verkefni framundan: Stjórnvöld hafa tilkynnt endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem fela í sér lagagrundvöll Rannís. Boðuð hefur verið sameining á sjóðum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis þannig að þeim fækki úr átta niður í þrjá. Þá hefur Rannís ásamt Stafrænu Íslandi verið falið að setja upp eina sjóðagátt sem allir opinberir aðilar geti nýtt en það mun þýða betra aðgengi fyrir umsækjendur. Þar verður byggt á því öfluga kerfi sem Rannís hefur þróað og þannig tryggt að betri upplýsingar liggi fyrir um hverjir njóta stuðnings úr opinberum sjóðum. Slík gögn eru nauðsynleg forsenda fyrir reglubundnu áhrifamati.

Stafræn stjórnsýsla verður þannig mjög í brennidepli á árinu. Í innra starfi er stefnt að því að taka upp rafræn samningakerfi í öllum sjóðum sem Rannís hefur umsjón með. Þá er unnið að innleiðingu á kerfi sem veitir stofnuninni betri yfirsýn yfir allan þann fjölda viðskiptavina sem stofnunin á í samskiptum við. Loks verður nýr og fyllilega tvímála vefur þróaður á árinu og hýstur hjá Stafrænu Íslandi – en opinberar stofnanir eru að færa sín vefsetur í samræmdara vefumhverfi. Er það liður í að bæta þjónustu Rannís við allt Ísland og öll sem þar búa.

Samhliða endurskoðun á lagalegum grunni mun stofnunin vinna að eigin stefnumótun á árinu. Núgildandi stefna stofnunarinnar nær til ársins 2025. Hún hefur reynst gagnlegt leiðarljós í starfinu og er stefnt að því að ný stefna varði veginn til ársins 2030.

Það verður líka nóg af viðburðum eins og endranær og mun þar bera hæst 30 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem haldið verður upp á með viðburði í Reykjavík og viðburðum víða á landsbyggðinni. Þá á sjálft „Rannís“ nafnið einnig 30 ára afmæli og verður því eflaust litið um öxl samhliða því sem horft verður fram á veg.

Það er því hugur í starfsfólki Rannís sem mun halda áfram sínu góða samstarfi við fjölmarga aðila og sinna því af mikilli fagmennsku – eins og þessi ársskýrsla ber vitni um. Með því móti heldur Rannís áfram að hafa áhrif til góðs í íslensku samfélagi.