Starfsemi og skipulag

Rannsókna- og nýsköpunarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar. Á ábyrgð sviðsins er rekstur stóru samkeppnissjóðanna ásamt rekstri minni sjóða er tengjast rannsóknum og nýsköpun, að taka við umsóknum og meta verkefni sem tengjast skattendugreiðslu rannsókna og þróunar og umsýsla fleiri sjóða.

Gervigreindarmynd sem sýnir kúlulaga glerhýsi með rannsóknafólki við jökulsporð í íslensku landslagi

Það helsta sem má nefna

  • Árangurshlutfall í bæði Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði var um 22% á árinu.
  • Ísland komið í fremstu röð OECD ríkja í stuðningi við rannsókna- og þróunarverkefni.
  • Rafrænt samningakerfi fyrir Tækniþróunarsjóð tekið í notkun.
  • Árangurshlutfall íslenskra aðila í Horizon Europe er yfir 20%.
  • LIFE og Digital Europe úthlutuðu styrkjum fyrir tæpa tvo milljarða til íslenskra aðila.
  • Ísland og Færeyjar gerðu með sér samstarfssamning á sviði Rannsókna.

Vöxtur og breytingar á árinu

Starfsfólki sviðsins fjölgaði á árinu vegna aukins umfangs verkefna og nýrra verkefna og var það alls 26 í lok árs, eða þremur fleiri en árið 2022. Einnig var nokkur nýliðun í röðum starfsfólks sviðsins, og voru þrír sérfræðingar ráðnir í alþjóðateymi sviðsins og þrír sérfræðingar í nýsköpunarteymi.

Úthlutanir burðarsjóðanna Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eru mældar í fjármagni sem er ráðstafað til nýrra verkefna. Í báðum sjóðum var árangurshlutfall um 22% á árinu. Áður en kom til hækkunar á fjárveitingum til sjóðanna var árangurshlutfallið, t.d. árið 2020, talsvert undir 20%, sem þýðir að verulega góð verkefni voru ekki að fá stuðning. Fjárveitingar til burðarsjóðanna tveggja munu lækka árið 2024, þ.e. um 500 m.kr. til Tækniþróunarsjóðs og rúmar 550 m.kr. til Rannsóknasjóðs.

Úttekt OECD á skattfrádrætti Rannsókna- og þróunarverkefna

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) birti á árinu niðurstöður úttektar sinnar á skattfrádrætti rannsóknar- og þróunarverkefna á Íslandi. OECD bendir á að þetta úrræði hafi hvetjandi og jákvæð áhrif á fyrirtæki og að stuðningur við rannsóknir og þróun hafi aukist hvað mest hér á landi í samanburði við önnur OECD lönd undanfarin ár. Fram kemur að Ísland sé komið í fremstu röð OECD ríkja hvað varðar stuðning í þessu formi, ekki síst við lítil og meðalstór fyrirtæki. Þó telur OECD vísbendingar um að breytingar á hámarksupphæð frádráttarbærs kostnaðar og hækkun á endurgreiðsluhlutfalli frá 2020 gagnist helst fáum stórum fyrirtækjum.

Hvetur OECD Rannís og íslensk stjórnvöld m.a. til að styðja við aukna skilvirkni í umsýslukerfi skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefna og auka samlegð í vinnu Rannís og Skattsins, efla bolmagn til stöðugrar vöktunar og reglulegs áhrifamats, og að bæta gæði gagna og innleiða mælikvarða. Einnig er í skýrslunni hvatning til yfirvalda um að taka af vafa um grundvöll og skilyrði fyrir endurgreiðslum með formlegri hætti og að skýra frekar vafaatriði sem snúa að mismunandi tegundum fyrirtækja og mismunandi rannsókna- og þróunarstarfsemi.

„Fyrir eru í notkun hjá Rannís rafræn umsókna-, fagráðs- og úthlutunarkerfi og er mikil ánægja með þau kerfi á meðal viðskiptavina skv. þjónustukönnun Gallup 2023“

Rafrænt samningakerfi tekið í notkun

Á árinu var tekið í notkun rafrænt samningakerfi fyrir verkefni sem eru styrkt af Tækniþróunarsjóði. Samningakerfið var hannað af greiningar- og hugbúnaðarsviði Rannís í samvinnu við nýsköpunarteymi rannsókna- og nýsköpunarsviðs, og er hluti af þeirri vegferð að stafvæða öll umsýsluferli sem snúa að viðskiptavinum sjóða í umsýslu Rannís. Fyrir eru í notkun hjá Rannís rafræn umsókna-, fagráðs- og úthlutunarkerfi og er mikil ánægja með þau kerfi á meðal viðskiptavina skv. þjónustukönnun Gallup 2023. Á árinu 2024 verður samningakerfið innleitt fyrir verkefni sem eru styrkt af Rannsóknasjóði og markmiðið er að allir samningar innlendra sjóða Rannís verði rafrænir á allra næstu misserum.

Horizon Europe

Rannís tekur þátt í 12 samstarfsnetum landstengiliða Horizon Europe og eflir það getu stofnunarinnar til að veita þátttakendum góðan stuðning. Umtalsverð vinna fór í undirbúning að þátttöku Íslands í sk. Partnership þar sem um er að ræða samfjármögnun frá þeim ríkjum sem taka þátt í samstarfinu og Horizon Europe. Ísland hefur tilkynnt um þátttöku í 14 slíkum verkefnum og er fyrirséð að það mun kalla á aukna innlenda mótfjármögnun.

Árangur Íslands í Horizon Europe til þessa hefur verið með ágætum og árangurshlutfall íslenskra aðila er yfir 20%, sem er vísbending um virka þátttöku í áætluninni. Hlutverk Rannís í Horizon Europe er að vera tengiliður áætlunarinnar við íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag með því að reka starf landstengla sem miðla upplýsingum, veita aðstoð og þjónustu við umsóknarferlið, halda námskeið og fleira. Rannís heldur úti öflugri fréttaveitu á www.horizoneurope.is og á samfélagsmiðlum þar sem helstu fréttum og upplýsingum um Horizon Europe frá framkvæmdastjórn ESB er miðlað áfram til Íslendinga. Einnig veittu landstenglar Rannís töluverða einstaklingsmiðaða ráðgjöf til mögulegra umsækjenda á árinu og héldu kynningar í stofnunum og fyrirtækjum. Sömuleiðis hafa verið haldnir bæði rafrænir og staðbundnir kynningarfundir um tiltekna þætti áætlunarinnar, námskeið í umsóknarskrifum og fleira. Rannís heldur jafnframt utan um stjórnarnefndarstarf Horizon Europe í umboði ráðuneytis, og funduðu stjórnarnefndir og landstengiliðir reglulega á árinu.

Life áætlunin og Digital Europe

Life áætlunin styrkir verkefni sem takast á við umhverfis- og loftslagsbreytingar. Skrifað var undir fjóra styrksamninga við 15 íslenska aðila á árinu vegna umsókna sem bárust árið 2022, og þar af voru þrjú verkefni undir íslenskri stjórn. Alls hlutu íslenskir aðilar styrki upp á rétt rúmar sjö milljónir evra, eða u.þ.b. 1,1 milljarð kr., vegna umsóknarársins 2022 (úthlutun 2023).

Digital Europe áætlunin er fjármögnunaráætlun ESB sem leggur áherslu á að koma stafrænni tækni til fyrirtækja, borgara og opinberra aðila. Hlutverk Rannís í DEP er að vera tengiliður áætlunarinnar og miðla þekkingu á málefnum hennar til íslenskra fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila, sjá um fræðslu og aðstoða við umsóknir og greiningu nýrra tækifæra. Á árinu 2023 var skrifað undir tvo nýja styrktarsamninga við átta mismunandi íslenska aðila vegna umsókna ársins 2022 (úthlutun 2023). Heildarupphæð styrkja sem runnu til íslenskra aðila á árinu nam rúmlega 4 milljónum evra, eða um 600 milljónum kr.

Rannís er þátttakandi í tveimur verkefnum sem eru að hluta til fjármögnuð af Digital Europe áætluninni; European Digital Innovation Hub (EDIH) og National Coordination Center (NCC). Þessi verkefni gera Rannís kleift að efla enn frekar grunnstarfsemi stofnunarinnar á sviði Evróputækifæra, auka sérþekkingu innan hennar á sviði stafrænnar tækni og fjármögnunarmöguleikum innan þess sviðs. Á árinu 2023 var lagður grunnur að starfsemi EDIH og NCC á Íslandi og vænta má árangurs þeirrar vinnu á árinu 2024.

„Rannís lítur á þetta starf sem hluta af öflugri áframhaldandi þátttöku í norðurslóðasamstarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda“

Tvíhliða rannsóknasamstarf við Færeyjar

Á árinu var gengið frá samstarfssamningi við færeyska rannsóknarráðið og er um að ræða sams konar samning og gerður var við grænlenska rannsóknaráðið árið 2022. Rannís lítur á þetta starf sem hluta af öflugri áframhaldandi þátttöku í norðurslóðasamstarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda. Í ágúst 2024 verður haldin vinnustofa í Þórshöfn þar sem saman komu íslenskir, grænlenskir og færeyskir vísindamenn til að skipuleggja frekara rannsóknasamstarf. Gert er ráð fyrir samskonar vinnustofnum á Íslandi 2025 og á Grænlandi 2026.

Fyrsti íslenski einhyrningurinn

Á árinu 2023 var fyrirtækið Kerecis selt erlendum aðilum á um 180 milljarða króna. Sú sala setur fyrirtækið í hóp einhyrninga á markaði en það eru fyrirtæki sem vaxa hratt og ná markaðsvirði yfir milljarði Bandaríkjadala. Gaman er að segja frá því að fyrsti Rannís styrkurinn til Kerecis, Lækningabúnaður úr fiskipróteinum, var veittur árið 2008 úr Tækniþróunarsjóði. Á 15 ára vegferð hefur Kerecis hlotið 13 styrki til nýsköpunar frá sjóðum í umsýslu Rannís, og hefur sá stuðningur numið alls rúmum 450 m.kr. frá bæði innlendum og evrópskum sjóðum.