Starfsemi og skipulag

Mennta- og menningarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar og fer með umsýslu alþjóðlegra áætlana og innlendra sjóða sem veita styrki til íslensks mennta-og menningarsamfélags, auk þess sem það rekur upplýsingaveitur um tækifæri til náms og starfa erlendis. Það sinnir auk þess upplýsingaþjónustu og stuðningi við stefnumótun í mennta- og menningarmálum.

Gervigreindarmynd sem sýnir timburhús með A-þaki á lítilli eyju. umhverfis húsi og svífandi fyrir ofan eru hlutir og tákn sem vísa til menntunar og menningar. Í fjarska eru tindótt fjöll

Það helsta sem má nefna

  • Stóraukin sókn í Erasmus+ og Nordplus á árinu.
  • Árið 2023 var tileinkað færni á Evrópuvísu, undir heitinu European Year of Skills.
  • Nýr vefur farabara.is í loftið.
  • Nýtt fimm ára tímabil Norplus áætlunarinnar hófst á árinu.
  • Sótt um í Creative Europe MEDIA fyrir þróun á 25 kvikmynda- og sjónvarpstengdum verkefnum.

Færni á Evrópuvísu í fókus

Á árinu fór alþjóðlegt samstarf á flug þegar allar takmarkanir sem voru á starfsemi evrópskra og norrænna samstarfsáætlana vegna heimsfaraldursins voru úr sögunni. Þetta þýddi aukið álag á starfsfólk mennta- og menningarsviðs þar sem töluverð vinna fór í að koma starfseminni á réttan kjöl og styðja við rekstur verkefna sem höfðu verið framlengd, bæði innan evrópskra og norrænna samstarfsáætlana. Á sama tíma var stóraukin sókn í Erasmus+ og Nordplus og hefur umfang umsókna farið fram úr björtustu vonum eftir faraldurinn. Kynningarstarf á tækifærum í alþjóðastarfi fór á flug og þátttaka í viðburðum jókst töluvert.

Árið 2023 var tileinkað færni á Evrópuvísu, undir heitinu European Year of Skills, sem kemur inn á alla hluta starfsemi mennta- og menningarsviðs. Átakið var nýtt til að vekja athygli á tækifærum sem tengjast samstarfi í námi og þjálfun á öllum stigum, með sérstakri áherslu á starfsmenntun og fullorðinsfræðslu. Hér á landi hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið umsjón með Evrópuári færni og var fulltrúum mennta- og menningarsviðs boðið að tilnefna fulltrúa Rannís til setu í vinnuhópi um átakið og gengur samstarfið vel.

Nýr vefur farabara.is

Vinnu við nýjan vef með upplýsingaveitu um nám erlendis, FaraBara.is, lauk á árinu og var hleypt af stokkunum á haustmánuðum, en þar getur ungt fólk fundið upplýsingar um nám erlendis, spennandi áfangastaði, styrki og fleira. Við sama tækifæri voru veittar gæðaviðurkenningar í evrópsku samstarfi s.s. fyrir verkefni innan Erasmus+ og eTwinning.

Vöxtur í menningar- og kvikmyndageiranum

Mikill uppgangur var í menningar- og kvikmyndageiranum og var töluverð sókn í Creative Europe, einkum í MEDIA hluta áætlunarinnar, sem skilaði sér í miklum fjölda styrkja til íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar. Samanlagt var sótt um styrki til að þróa 25 verkefni af ýmsu tagi, leiknar kvikmyndir, sjónvarpsþáttaraðir, heimildamyndir, teiknimyndir og stuttmyndir og var ánægjulegt að sjá ný fyrirtæki sækja um í evrópsku samstarfi. Á árinu varð líka vöxtur í menningarhluta Creative Europe og verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun á næstu árum.

Norrænt og tvíhliða samstarf

Nýtt tímabil Nordplus áætlunarinnar hófst á árinu til næstu fimm ára (2023-2027) en auk þess að hafa umsjón með undiráætlun Nordplus um norræn tungumál rekur Rannís sem stendur einnig aðalskrifstofu áætlunarinnar fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Fjöldi umsókna jókst mikið á árinu í allar undiráætlanir og má segja að hápunktur ársins hafi verið stór tengslaráðstefna sem Nordplus tungumálaáætlunin stóð fyrir og haldin var í Hveragerði í september, en markmið hennar var að auka samstarf á sviði norrænna tungumála með áherslu á smærri málsvæði.

Mikill gangur var í starfi norræns verkefnis sem nefnist Menntun til sjálfbærni og mennta- og menningarsvið hefur umsjón með fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnið stóð fyrir ungmennaráðstefnu á haustmánuðum auk þess sem sérfræðingahópur verkefnisins hittist á Íslandi í tengslum við norrænan ráðherrafund.

Af öðrum verkefnum er helst að telja að styrkjum til náms í Bretlandi var úthlutað í annað sinn úr tvíhliða samstarfi Íslands og Bretlands undir heitinu UK-Iceland Explorer Fund, þar sem íslenskir nemar geta sótt um styrk til framhaldsnáms eða starfsþjálfunar í Bretlandi.

Innlendir sjóðir og þjónusta við viðskiptavini

Teymi innlendra sjóða á mennta- og menningarsviði hélt áfram vinnu við að straumlínulaga vinnulag og ferla í umsýslu sjóðanna og lögð var áhersla á að bæta þjónustu við viðskiptavini með því að samræma notkun umsókna- og umsýslukerfis Rannís. Góð samvinna var við helstu fagráðuneyti, en innlendir sjóðir á málefnasviðum sviðsins skiptast á milli þriggja ráðuneyta eftir að mennta- og menningarráðuneytinu var skipt upp. Unnið var áfram með menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna breytinga á umsýslu menningarsjóða sem tengjast stofnun menningarmiðstöðva.

Góður árangur og samheldni í starfi sviðsins

Starf mennta- og menningarsviðs hefur gengið mjög vel á árinu, jafnt í evrópskum og norrænum samstarfsáætlunum sem og í innlendum sjóðum. Góður árangur, samheldni og gott andrúmsloft einkenndi starf sviðsins, en það er ekki síst að þakka frábæru starfsfólki sviðsins sem með dugnaði og skilvirkni er alltaf til í að koma með nýjar hugmyndir og leggja til bætt verklag, jafnt í alþjóðastarfi sem umsýslu innlendra sjóða. Ánægjulegt er að fylgjast með endurnýjaðri grósku og krafti í samstarfinu eftir þær áskoranir sem tekist var á við í faraldrinum og framundan eru spennandi tímar við að kynna tækifæri og samstarf á sviði menntamála, menningar, æskulýðsmála og íþrótta.