Alþjóðlegt samstarf

Evrópskt og norrænt samstarf

Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar er mjög umfangsmikið í starfsemi Rannís.

Evrópskt og norrænt samstarf er stærstur hluti alþjóðasamstarfsins og hefur hlutverk Rannís þróast í þá átt að vera helsti þjónustuaðilinn á Íslandi við formlegt alþjóðlegt samstarf á málefnasviðum stofnunarinnar.

Á árinu hófst nýtt tímabil evrópskra samstarfsáætlana til næstu sjö ára (2021-2027) og þrátt fyrir að undirbúningur hafi dregist nokkuð, vegna seinkunar á samþykkt fjárlaga ESB og frestunar á formlegri opnun vegna Covid-19 faraldursins, var áætlununum loks hleypt af stokkunum á Íslandi með opnunarhátíð 15. apríl í streymi frá Borgarleikhúsinu. Var viðburðurinn skipulagður af Rannís og sá Bergur Ebbi Benediktsson um ráðstefnustjórn.

Á opnunarhátíðinni voru kynnt helstu áhersluatriði áætlana á málefnasviðum Rannís; Horizon Europe, Erasmus+, European Solidarity Corps og Creative Europe, auk þess sem styrkþegar mættu til að segja frá góðum árangri. Einnig fluttu ávörp, þær Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Lucie Samcová-Hall Allen sendiherra ESB á Íslandi.

Hér má nálgast upptöku af opnunarhátíð samstarfsáætlana ESB.

Evrópskar samstarfsáætlanir

Rannís sinnir umsýslu með sjö helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samningsins:

  • Horizon Europe , rannsóknir og nýsköpun
  • Erasmus+  , menntun, æskulýðsmál og íþróttir
  • European Solidarity Corps , sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni ungs fólks
  • Creative Europe , menning og kvikmyndir
  • Digital Europe, stafræn tækni
  • LIFE , umhverfismál og loftslagsbreytingar
  • Uppbyggingarsjóður EES , rannsóknir og nýsköpun, menntun og menning 
  • Horizon Europe er stærsta alþjóðlega samstarfsáætlunin sem Ísland tekur þátt í og jafnframt stærsta rannsókna- og nýsköpunaráætlun heims, með um 95 miljarða evra til úthlutunar til næstu sjö ára (2021-2027). Uppbygging áætlunarinnar hefur ekki breyst mikið frá fyrirrennara hennar, áfram er markmið áætlunarinnar að Evrópa verði leiðandi afl í rannsóknum og nýsköpun á heimsvísu, og styrkir áætlunin allt frá grunnrannsóknum til tækniþróunar og áhersla er lögð á að fjárfesting í vísindum og nýsköpun skili sér til samfélagsþróunar og betri lífsskilyrða í Evrópu.. Hlutverk Rannís í Horizon Europe er að vera tengiliður áætlunarinnar við íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag með því að reka starf landstengla sem miðla upplýsingum, veita aðstoð og þjónustu við umsóknarferlið, halda námskeið og fleira. Með tilkomu nýrrar áætlunar efldi Rannís landstenglastarfið enn frekar, til að geta aukið og bætt þjónustu við íslenska umsækjendur. Haldnir voru fjölmargir upplýsingadagar, kynningarfundir, námskeið í umsóknarskrifum og fjármálum og ný heimasíða smíðuð. Rannís heldur jafnframt utan um stjórnarnefndarstarf Horizon Europe í umboði ráðuneytis, og á árinu voru stjórnarnefndarfulltrúar skipaðir og sérfræðingahópar settir á laggirnar. Fyrstu umsóknarlotur í áætluninni voru sumar og haust 2021 og er niðurstaðna úr þeim að vænta árið 2022.

    Ný heimasíða Horizon Europe

    Samstarf landstengla Horizon Europe 

    Rannís tekur virkan þátt í evrópskum samstarfsnetum landstengla ýmissa undiráætlana Horizon Europe, en verkefnin miða að því að styðja við og styrkja samstarf landstengla, fræða þá um áætlunina og bæta færni þeirra svo þeir geti veitt umsækjendum, hagsmunaðilum og öðrum áhugasömum betri þjónustu. Samstarfsaðilarnir eru systurstofnanir í öllum þátttökulöndum Horizon Europe, en stofnanirnar skiptast á að leiða samstarfið. Þau samstarfsnet sem voru starfandi undir Horizon 2020 voru mörg hver framlengd fram á árið 2021, annars vegar vegna áhrifa Covid-19, til að tryggja samfellu í þjónustunni og örugga yfirfærslu þekkingar og þjálfunar landstengla inn í nýja áætlun, og hins vegar vegna þess að innleiðing Horizon Europe tafðist vegna seinkunar samþykktar fjárlaga ESB, sem að hluta má einnig rekja til faraldursins. Áætlað er að landstenglar innan Rannís muni taka þátt í allt að 10 slíkum samstarfsnetum innan Horizon Europe frá og með ársbyrjun 2022.

  • Árið var viðburðaríkt hjá Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) þar sem það markaði upphaf nýs sjö ára tímabils, en ný kynslóð Evrópuáætlana gildir 2021-2027. Við þessi tímamót var lögð áhersla á að kynna fyrir umsækjendum helstu áhersluatriði sem áætlanirnar setja í forgang: inngildingu og aðgengi, sjálfbærni, stafræna nálgun og virka þátttöku í samfélaginu. Vefsíða Landskrifstofu var uppfærð bæði hvað varðar útlit og efni. Sökum aðstæðna fóru flestir kynningarviðburðir fram á netinu en þó var mögulegt að sækja Vestfirði heim á haustmánuðum. Sú heimsókn gaf starfsfólki Landskrifstofu ómetanlegt tækifæri til að eiga samtal við heimafólk um sóknarfæri í Erasmus+ og ESC. Einnig var dýrmætt að geta loks tekið á móti gestum erlendis frá, en Landskrifstofan skipulagði tvær ráðstefnur með um 70 þátttakendum víðsvegar frá Evrópu í október og nóvember. Við þau þáttaskil sem upphaf nýrra áætlana fól í sér, notaði Landskrifstofa tækifærið og uppfærði verklag sitt í átt að aukinni straumlínustjórnun. Töflufundir voru teknir upp að morgni hvers dags til að efla yfirsýn og auka samvinnu innan Erasmus+ og ESC teymisins. Ýmis konar stefnumótun fyrir skrifstofuna átti sér stað á árinu, til að mynda á vettvangi inngildingar og sjálfbærni. Einnig var viðbragðsáætlun þróuð, sem meðal annars felur í sér aukna upplýsingagjöf til styrkhafa varðandi öryggi þátttakenda.

    Kynningarefni sem var notað til að vekja athlygli á skptinámi Erasmus+ á samfélagsmiðlum.

    Kynningarefni notað til að vekja athygli á skiptinámi Erasmus+ á samfélagsmiðlum.
  • Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styrkja evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt, og eru í umsjón framkvæmda­stjórnar­ ESB.

    EPALE - samstarf í fullorðinsfræðslu

    EPALE er evrópskt vefsvæði á sviði fullorðinsfræðslu fyrir kennara, leiðbeinendur, stefnumótunaraðila, fræðafólk og annað áhugafólk um formlega eða óformlega fræðslu fullorðinna nemenda, 18 ára og eldri. Viðmót EPALE hefur verið uppfært og er vefurinn nú miklu hraðvirkari og framsetning betri. Mikilvægasta breytingin er sú, að nú er hægt að velja íslenskt viðmót á EPALE vefnum þar sem hægt er að setja inn efni, blogga og eiga samskipti á íslensku. Á EPALE eru ákveðin þemu tekin fyrir árlega og árið 2021 var deilt fjölbreyttu efni m.a. um tölvufærni, lýðræðislega þátttöku í samfélaginu, óformlegt og formlegt nám, inngildingu og nám á vinnustöðum, svo nokkuð sé nefnt. Hægt er að fylgjast með þróun kennsluhátta í fullorðinsfræðslu á EPALE, finna samstarfsaðila í Evrópuverkefni og tækifæri til starfsþróunar, s.s. námskeið og ráðstefnur. Með EPALE er hægt að fylgjast með fréttum, taka þátt í umræðum og deila reynslu sem nýtist fagfólki í fullorðinsfræðslu um alla Evrópu. Fréttabréf á íslensku er birt reglulega á EPALE vefnum og margvíslegar fréttir eru einnig birtar á Facebook-síðunni EPALE Ísland. Norrænt samstarf hefur verið farsælt innan EPALE og þar standa Norðurlöndin saman að því að vekja athygli á efni um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum.

    eTwinning - rafrænt skólasamstarf

    Evrópska samstarfsnetið eTwinning tengir nemendur og kennara víðs vegar um Evrópu saman í rafrænu samstarfi. Verkefnin eru af ýmsum toga og styður eTwinning á Íslandi við íslenska kennara og nemendur í starfinu.

    Árið 2021 hlutu 20 verkefni gæðamerki eTwinning sem er aukning frá árinu áður og verður það að teljast góður árangur í ljósi Covid-19 faraldursins og áhrifa hans á skólastarf. Árið 2021 höfðu þrettán íslenskir skólar hlotið nafnbótina „eTwinning-skóli“, sem veitt er til tveggja ára, en þess má geta að það eru fleiri skólar en hin Norðurlöndin státa af. Alls tóku um 500 manns þátt í árlegri eTwinning-ráðstefnu sem haldin var rafrænt í október og mættu tveir kennarar fyrir Íslands hönd, ásamt starfsmönnum Landskrifstofu Erasmus+. Einnig sendi mennta- og menningarmálaráðuneytið fulltrúa á ráðstefnuna, sem sat sérstaka vinnustofu fyrir fulltrúa menntamálaráðuneyta þátttökuríkja.

    Eurodesk - upplýsingaveita fyrir ungt fólk

    Eurodesk er upplýsingaveita um tækifæri fyrir ungt fólk og er hlutverk Eurodesk að gera upplýsingar um hreyfanleika í Evrópu aðgengilegar fyrir ungt fólk og þá sem vinna með ungu fólki. Eurodesk vekur athygli á möguleikum til náms, starfsþjálfunar og sjálfboðaliðastarfa í samvinnu við net innlendra samstarfsaðila sem tengjast yfir 1600 staðbundnum upplýsingaveitum í 36 Evrópulöndum. Eurodesk er aðaluppspretta upplýsinga um Evrópustefnu í málefnum ungmenna ásamt því að vera uppspretta upplýsinga um hreyfanleika og tækifæri fyrir ungt fólk með því að svara fyrirspurnum og veita leiðsögn fyrir ungt fólk um alla Evrópu.

    Euroguidance - evrópsk miðstöð náms- og starfsráðgjafar

    Euroguidance hefur það hlutverk að miðla gagnlegri þekkingu til náms- og starfsráðgjafa um alla Evrópu. Á árinu var annars vegar haldið námskeið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um rafræna starfsferilsráðgjöf og hins vegar með Europass um hvernig gera á góða ferilskrá og hvað beri að varast í þeim efnum, með þátttöku um 80 náms- og starfsráðgjafa. Félag náms- og starfsráðgjafa fékk stuðning við að halda sinn árlega dag náms- og starfsráðgjafa, sem var óvenju glæsilegur í tilefni 35 ára afmælis félagsins og af því tilefni var m.a. gefinn út sérstakur kálfur með Fréttablaðinu. Fyrsta tilraun til þess að halda netnámskeið fyrir náms- og starfsráðgjafa á vegum Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna var gerð undir lok ársins og tókst vel. Námskeiðin verða framvegis haldin reglulega.

    Europass - rafræn hæfnismappa

    Europass er rafræn menntunar- og hæfnismappa sem er fyrst og fremst ætlað að aðstoða fólk við að sækja nám eða störf erlendis í lengri eða skemmri tíma. Ný Europass vefgátt, sem opnuð var um mitt ár 2020, sannaði sig rækilega á árinu 2021. Nú hafa yfir 3,5 milljónir aðganga verið stofnaðir á Europass vefsíðunni og fer þeim ört fjölgandi með yfir 2 milljónir heimsókna á mánuði að meðaltali. Árið 2021 voru að meðaltali 33 Europass aðgangar stofnaðir á Íslandi mánaðarlega, eða alls um 400 yfir árið. Þá er Europass vefsíðan í stöðugri þróun með auknum möguleikum á því að hengja rafræn skjöl við ferilskrána, búa til kynningarbréf og deila ferilskránni með væntanlegum vinnuveitendum eða með EURES - evrópsku vinnugáttinni. Stafrænar lausnir Europass eru einnig í þróun og stefnt er að því að rafræn vottun prófskírteina og rafrænn viðauki með háskólaskírteini verði brátt hluti af Europass.

  • Ný kynslóð Creative Europe, menningar- og kvikmyndaáætlunar ESB, tók við á árinu og gildir til 2027, en áætlunin styrkir skapandi greinar með áherslu á menningarlega fjölbreytni og viðbrögð við áskorunum sem menning og listir standa frammi fyrir. Creative Europe styrkir verkefni sem styðja við stefnumál framkvæmdastjórnar ESB eins og til dæmis grænar lausnir, jöfn tækifæri, sjálfbærni og jafnrétti kynjanna. Áætlað umfang Creative Europe næstu sjö árin er um 2,44 milljarðar evra sem er 60% aukning frá fyrri áætlun. Helstu áherslur Creative Europe eru að styðja við, þróa og kynna fjölbreytileika evrópskrar menningar og menningararfleifðar frá öllum málsvæðum, auka samkeppnishæfni og hagræna möguleika menningargeirans með sérstakri áherslu á kvikmyndir og margmiðlun, auk þess að ýta undir fjölbreytt, sjálfstætt og margbreytilegt miðlaumhverfi og fjölmiðlalæsi. Frábær þátttaka var á árinu í MEDIA hluta Creative Europe, sem er sá hluti áætlunarinnar sem styður við kvikmyndagerð og margmiðlun, jafnvel þótt opnað væri fyrir umsóknir seint á árinu. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn stóðu sig með mikilli prýði í umsóknarlotu MEDIA og sendu inn átta umsóknir í fimm sjóði áætlunarinnar á haustmisserinu, og var alls sótt um u.þ.b. 1,5 milljónir evra. Í menningarhluta Creative Europe voru fjórir umsóknarfrestir snemma að hausti og var eitt menningarsamstarfnet leitt af íslenskum aðila.

    Creative Europe skreytimynd
  • Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í LIFE samstarfsáætluninni frá og með 2021, en áætlunin hófst 1992. Núverandi tímabil tekur til áranna 2021-2027 og eru rúmlega 5,4 milljarðar evra alls til úthlutunar. LIFE fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfismál og loftslagsbreytingar og skiptist áætlunin í fjögur áherslusvið: loftslagsbreytingar, náttúru og líffræðilega fjölbreytni, hringrásarhagkerfið og orkuskipti. Með þátttöku Íslands í LIFE áætluninni gefst ólíkum aðilum hér á landi kostur á að sækja um styrki til umhverfisverkefna.

    Life logo
  • Ný samstarfsáætlun ESB á sviði stafrænnar tækni, sem Rannís hefur umsjón með frá og með 2021. Digital Europe leggur áherslu á að auka aðgengi að stafrænni tækni fyrir fyrirtæki, einstaklinga og opinbera aðila, og er markmiðið að takast á við eina stærstu áskorun okkar tíma, sem eru stafræn umskipti. Áætlunin mun móta stafræna framtíð Evrópu og styður við verkefni sem brúa bilið milli rannsókna og tækniþróunar annars vegar og stafrænnar tækni og afurða á markaði hins vegar. Áætlunin tengist sterkt inn í stefnumótun ESB á þessum sviðum og veitir styrki til sviða eins og gervigreindar, netöryggis og stafrænnar hæfni, auk þess sem komið verður á fót stafrænum miðstöðvum, sk. Digital Hubs.

  • Rannís fer með hlutverk þjónustuskrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES á málefnasviðum stofnunarinnar. Markmið Uppbyggingarsjóðs EES eru einkum tvö, annars vegar að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar að styrkja tengsl á milli framlagaríkjanna þriggja, Íslands, Liechtenstein og Noregs, og styrkþegaríkjanna sem eru 15 talsins. Sjóðnum er því ætlað að styðja við samfélagslega innviði þeirra fimmtán ESB-ríkja sem lakar standa í efnahagslegu tilliti og greiðir Ísland til sjóðsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ásamt hinum tveimur EES-ríkjunum sem standa utan Evrópusambandsins. Heildarfjármagn Uppbyggingarsjóðsins 2014-2021 er alls 1,5 milljarðar evra, en verkefnin geta varað til ársins 2024 og er meginhluta fjármagnsins, eða um 98% sjóðsins, úthlutað með opnum köllum. Rannís hefur umsjón með fjórum samstarfsáætlunum á fjórum mismunandi sviðum, það er á sviði rannsókna í Rúmeníu, nýsköpunar í Portúgal, menntunar í Póllandi og á sviði menningar í Tékklandi. Þátttaka íslenskra aðila í verkefnum styrktum af sjóðnum hefur verið töluverð, þá sérstaklega á sviði menningar- og menntaáætlana, og ýmsir nýir möguleikar hafa opnast fyrir íslenska aðila t.a.m. á sviði nýsköpunar og rannsókna. Á árinu stóð Rannís fyrir, og tók þátt í, fjölda kynningarfunda, tengslamyndunarviðburða og samstarfsnefndarfunda á fagsviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningarmála auk þess að veita leiðsögn til íslenskra þátttökuaðila í Uppbyggingarsjóði EES.

  • Þátttaka í COST (European Cooperation in the field of Science and Technology) hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum og greiða verkefnin fyrir kostnað vegna funda og ráðstefnuhalds, en ekki kostnað við rannsóknaverkefnin sjálf. Á árinu 2021 var þess minnst að 50 ár voru síðan COST samstarfið hófst, og að 30 ár voru liðin frá því að Ísland hóf þátttöku sína í COST. Í tilefni þessara tímamóta lét Rannís útbúa kynningarmyndband um COST þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þátttöku í COST verkefnum fyrir vísindafólk á Íslandi, ekki síst fyrir doktorsnema og nýdoktora. Fjörutíu þjóðríki eru nú þátttakendur í COST samstarfinu í gegnum beina samninga. Í maí var opnað fyrir þátttöku í 40 nýjum COST verkefnum en þau hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda í stærri rannsóknarverkefnum innan rannsókna- og nýsköpunaráætlunar ESB. Mögulegt er að gerast aðili að verkefnum á umsóknarstigi en einnig eftir að verkefni er farið í gang. Íslensk þátttaka í COST verkefnum er að jafnaði mjög góð en markmiðið með kynningarmyndbandinu var að auka áhuga og þátttöku hjá yngra vísindafólki, doktorsnemum og nýdoktorum. 

  • Rannís hefur umsjón með þátttöku Íslands í Euraxess, sem hefur það hlutverk að styðja við markmið Evrópska rannsóknasvæðisins um að styrkja flæði vísindaþekkingar innan álfunnar, t.a.m. með því að auðvelda vísindafólki að flytjast búferlum á milli landa og að styðja við framaþróun vísindafólks. Rannís skipulagði rafræna ráðstefnu í júní fyrir norrænt starfsfólk mannauðs- og alþjóðaskrifstofa um hvernig megi styrkja þjónustu við erlent vísindafólk á tímum heimsfaraldurs. Einnig héldu Rannís og Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands námskeið undir merkjum Euraxess fyrir leiðbeinendur doktorsnema í háskólum, sem mikill áhugi var fyrir.

  • Enterprise Europe Network (EEN) er samstarfsnet fyrir fyrirtæki og er markmið þess að styðja metnaðarfull fyrirtæki í nýsköpun og alþjóðlegum vexti. Rannís er þjónustuaðili netsins á Íslandi og veitir gjaldfrjálsa þjónustu til fyrirtækja í sókn á nýja markaði og í leit að erlendum samstarfsaðilum. EEN er styrkt af Evrópusambandinu og nær til 600 samstarfsaðila í yfir 65 löndum. Sérfræðingar innan þessa öfluga netverks búa yfir víðtækri þekkingu á viðskiptaumhverfi hvers svæðis fyrir sig og nýta tengslanet sitt til að ná árangri fyrir viðskiptavini. Þrátt fyrir að Covid-19 hafi gert netinu erfitt fyrir að skipuleggja viðburði og tengslamyndun, var haldið fjölmennt fyrirtækjastefnumót á árinu í tengslum við stærstu jarðvarmaráðstefnu í heimi, sem haldin var í Hörpu. Einnig var góð þátttaka íslenskra fyrirtækja í fyrirtækjastefnumótum sem haldin voru á netinu, þar sem þau kynntust framtíðarsamstarfsaðilum og náðu þrír aðilar að tryggja sér samstarfssamninga á árinu.

  • Eurostars er fjármögnunaráætlun innan EUREKA sem er sérstaklega ætluð til að auka rannsókna- og þróunarsamstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en Ísland hefur verið aðili að EUREKA samstarfinu frá árinu 1986. Í dag standa 36 lönd að áætluninni ásamt Evrópusambandinu. Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári og er lögð áhersla á að verkefnin séu tiltölulega nálægt markaði. Tækniþróunarsjóður sér um að fjármagna íslenska þátttöku í samþykktum verkefnum, en á árinu fengu tvö ný verkefni með íslenskri aðild stuðning, auk þess sem sex framhaldsverkefni voru í gangi með íslenskum þátttakendum. 

  • Markmiðið með sóknarstyrkjum er að auðvelda íslenskum aðilum að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum með því að styrkja undirbúning umsókna. Fjármagnið kemur úr Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði, en á árinu 2021 ákváðu stjórnir þessara sjóða að auka framlag sitt verulega og hækkaði ráðstöfunarfé sóknarstyrkja úr 20 í 50 milljónir króna. Vegna þessarar aukningar var hægt að koma betur til móts við þarfir og voru 106 af 128 umsóknum styrktar. Skiptust styrkirnir þannig að háskólar fengu um helming upphæðarinnar, rannsóknastofnanir um þriðjung og fyrirtæki um fimmtung.       

  • Samstarf íslenskra rannsóknasjóða í ERA-netum gerir íslenskum fyrirtækjum og stofnunum kleift að taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknaverkefnum á völdum sviðum. Rannís tekur þátt í nokkrum slíkum verkefnum sem styrkja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hvert ERA-net hefur eigin áherslusvið, þátttökureglur og umsóknarfresti.

    ERA-Netin sem Rannís tók þátt og voru með úthlutanir á árinu eru: 

    • CHANSE er evrópskt samfjármögnunarverkefni sem er helgað samvinnu á sviði hug- og félagsvísinda, með áherslu á rannsóknir á samfélagsbreytingum og menningarþróun. Fyrsti umsóknarfresturinn var árið 2021 og mun úthlutun fara fram 2022.
    • BlueBioeconomy ERA-Net er fimm ára evrópskt samstarfsnet um lífhagkerfi sjávar.  Verkefnið er samstarf 27 fjármögnunaraðila frá 16 löndum og stýrir Rannís einum vinnupakka í áætluninni sem snýr að samskipta- og kynningamálum. Sá vinnupakki er unninn í samstarfi við Matís og þátttökulönd í netinu. Í fyrsta kalli var auglýst eftir umsóknum vegna rannsókna- og þróunarverkefna á tilteknum sviðum sem snúa að lífhagkerfi sjávar (bláa hagkerfið). Tækniþróunarsjóður styrkir íslensku aðilana og var skuldbinding hans ein milljón evra. Alls voru 19 verkefni valin og voru íslenskir þátttakendur í þremur þeirra. Þessi verkefni hófust á árinu 2020. Aftur var auglýst eftir umsóknum á árinu með stuðningi Tækniþróunarsjóðs. Áherslan var á verkefni sem tengjast „logistics and transportation – from harvest to processing“ og var úthlutað á öðrum ársfjórðungi 2021. 
    • GEOTHERMICA ERA-Net verkefnið er samstarfsnet 17 stofnana frá 16 löndum á sviði jarðvarma, en þátttakendum fjölgaði frá fyrra ári m.a. með þátttöku Bandaríkjanna. Úthlutað var styrkjum í annað skipti á vegum verkefnisins í júní 2021. Af þeim 12 verkefnum, sem boðin var þátttaka í seinna þrepi umsóknaferilsins, fóru 10 í lokamat og hlutu 7 þeirra styrk. Þar af voru tvö með íslenskri þátttöku og er öðru þeirra stýrt frá Íslandi. Undirbúningur að þriðja kalli er hafinn og er það í samstarfi við annað net á sviði orkumála, Smart Energy Systems. Tækniþróunarsjóður styrkir íslenska þátttöku. 
    • M-ERA.NET 2 er samstarfsnet á sviði efnistækni og er framhald samskonar verkefnis sem Rannís hefur áður tekið þátt í. Um er að ræða samstarf 32 fjármögnunaraðila frá 23 löndum innan Evrópusambandsins og EFTA, ásamt Rússlandi, Japan og Taívan. Tækniþróunarsjóður stendur að baki styrkjum til íslenskra aðila, en ekkert verkefni með íslenskri þátttöku hlaut styrk 2021.     

Norrænt samstarf

Norrænt samstarf á starfssviði Rannís á sér langa sögu og tekur stofnunin þátt í samstarfsnefndum á vegum Norræna ráðherraráðsins.

  • Rannís rekur landskrifstofu norrænu menntaáætlunarinnar Nordplus, auk þess að eiga gott samstarf við NordForsk og Nordic Innovation.
  • Rannís sér um samfjármögnun nokkurra verkefna á vegum NordForsk sem hafa skilað góðum ávinningi fyrir íslenskt rannsóknarsamfélag.
  • Jafnframt sér Rannís um styrkveitingar úr tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs undir heitinu Arctic Research and Studies, sem fjármagnað er af utanríkisráðuneytum ríkjanna og er ætlað að styðja við samstarf þjóðanna í rannsóknum á norðurslóðum. 
  • Rannís rekur landskrifstofu fyrir norrænu menntaáætlunina Nordplus sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Áætlunin, sem skiptist í fimm undiráætlanir, veitir styrki á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og hefur um 10 milljónir evra til úthlutunar á ári hverju. Auk þess að reka landskrifstofu áætlunarinnar, tók Rannís við yfirstjórn Nordplus árið 2019 og átti að gegna því hlutverki til loka árs 2023. Norræna ráðherranefndin hefur nú beðið Rannís að stýra skrifstofunni til loka árs 2024 og hefur sú beiðni verið samþykkt af hálfu Rannís.

    Í rekstri aðalskrifstofunnar felst samræming á starfi landskrifstofa á Norðurlöndunum fimm, sem skipta með sér verkum við undirbúning úthlutana, auk starfs sem unnið er af tengiliðum í Eystrasaltsríkjunum, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Aðalskrifstofan sér einnig um samskipti við Norrænu ráðherranefndina og formennskuríkið á hverjum tíma. Helsta áskorunin á árinu 2021 var að stýra Nordplus skútunni í gegnum Covid-19 boðaföllin. Það tókst nokkuð vel þrátt fyrir að færa þyrfti alla fundi og viðburði yfir á rafrænt form.

    Þetta speglast meðal annars í umsögn sem Nordplus áætlunin fékk í mati á árangri sínum í skýrslu sem danska ráðgjafafyrirtækið Ramböll vann fyrir Norrænu ráðherranefndina og kom út í ágúst 2021. Í skýrslunni kemur fram mjög mikil ánægja styrkþega með skipulag Nordplus og þá þjónustu sem umsækjendur fá. Í heild eru um 90% allra umsækjenda ánægðir með Nordplus. Einnig eru verkefnastjórar starfandi Nordplus verkefna mjög ánægðir með áætlunina. Hægt er að lesa skýrsluna hér.

    Auk þess að fara með yfirstjórn Nordplus hefur Rannís umsjón með tungumálahluta áætlunarinnar. Þar er árlega úthlutað styrkjum til ýmissa verkefna sem felast í gerð kennsluefnis, ráðstefnuhaldi og starfi sérfræðinganeta í norrænum tungumálum. Einnig sér Rannís um íslenska þátttöku í öðrum hlutum Nordplus, þar sem bæði nemendur og kennarar geta fengið styrki til heimsókna eða námsdvalar, samvinnuverkefna eða þátttöku í samstarfsnetum, sem öll miða að því að auka samskipti þjóðanna á sviði menntunar. Á hefðbundnu ári fara um 600–800 Íslendingar í náms- og þjálfunarferðir til annarra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og svipaður fjöldi kemur hingað til lands með stuðningi Nordplus. Þá er veittur stuðningur til þróunarverkefna á sviði menntunar á öllum stigum og til samstarfsneta sem vinna saman að brýnum verkefnum innan menntageirans. Covid-19 hafði mikil áhrif á rekstur Nordplus á árinu 2021. Nánast öllum verkefnum og fundum á vegum áætlunarinnar var frestað eða þeim breytt í rafræna viðburði. Þar er átt við öll þau verkefni sem styrkt voru á árinu en einnig málstofur, ráðstefnur og fundi stjórnar og verkefnastjóra. Nordplus brást mjög skjótt við breyttum aðstæðum með því að breyta úthlutunarreglum, t.d. með því að leyfa verkefnum að halda veffundi og var almenn ánægja hjá þátttakendum Nordplus með þann skilning og sveigjanleika sem gefinn var. Það stefnir allt í að starfsemi Nordplus komist í eðlilegt horf aftur árið 2022.

    Kynningarborði Nordplus Café
  • Hlutverk NordForsk er að styðja við norrænt rannsóknasamstarf í gegnum samstarf stærstu fjármögnunaraðila rannsókna allra Norðurlandanna. Á vettvangi NordForsk eru skilgreindar samstarfsáætlanir á ákveðnum sviðum sem hafa það að markmiði að veita fé til sameiginlegra forgangsmála á sviði rannsókna. Á hverjum tíma eru í gangi nokkrar slíkar áætlanir á ólíkum fræðasviðum, og má þar nefna á sviði samfélagslegs öryggis, heilbrigðisvísinda og menntarannsókna. Eftirfarandi samstarfsáætlanir eru í undirbúningi og áætlað er að auglýsa eftir umsóknum á árinu 2022:

    • Nordforsk - Societal Security Beyond Covid 19. Markmið áætlunarinnar að kanna afleiðingar af Covid-19 faraldrinum til lengri og skemmri tíma.
    • Nordforsk - Future Working Life Research Programme. Vel starfhæft atvinnulíf er lykilatriði í þróun samfélagsins þar sem það skapar skilyrði fyrir hagvöxt og fjármögnun velferðarkerfa. Markmið áætlunarinnar er að efla þekkingu á vinnumarkaði framtíðarinnar.
    • Nordforsk – Sustainable Agriculture and Climate Change. Loftslagsbreytingar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á landbúnað og fæðu- og fóðuröryggi. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknaverkefni á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að nýjungum í landbúnaði og aðlögun plantna að breyttum aðstæðum á svæðinu og svæðisbundinni próteinframleiðslu til manneldis og í dýrafóður.
    • NordForsk – Education for Tomorrow. Ísland hefur tekið þátt í Education for Tomorrow rannsóknaráætluninni frá 2013, en áætlunin er nú í öðrum fasa sem er frá 2017 til 2023. Heildarfjárhagsáætlun fyrir allt tímabilið 2013-2023 er um 2 milljarðar króna. Á árinu 2021 lauk fjórum verkefnum sem íslenskir aðilar taka þátt í, og í gangi er eitt stórt öndvegisnet með íslenskri þátttöku. Netið heitir Quality in Nordic Teaching og taka bæði Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands þátt í því. Á árinu var jafnframt samþykkt af Íslands hálfu að halda samstarfinu áfram eftir 2023 en ákvörðun um framhaldið verður tekin af stjórn NordForsk á árinu 2022.
    • Nordic Programme for Interdisciplinary Research. Markmið áætlunarinnar er að styðja við þverfaglegar rannsóknir sem rjúfa hefðbundin landamæri vísinda og fræða, og taka öll Norðurlöndin þátt með fjárframlagi í sameiginlegan sjóð. Rannís heldur utan um þátttöku Íslands sem er fjármögnuð af Rannsóknasjóði. Alls bárust 337 umsóknir á fyrsta umsóknarfresti sem var 2020 og var ákveðið að styrkja 12 verkefni. Listaháskóli Íslands tekur þátt í verkefninu Nordic network on smart light-conversion textiles beyond electric circuits. Verkefninu er stýrt frá Aalto háskólanum í Finnland og taka Danmörk og Svíþjóð einnig þátt. Markmiðið er að þróa snjallar vefnaðarvörur sem geta nýtt sólarljós eða aðra umhverfisorku til nytsamlegra hluta, eins og hitamyndunar og litabreytinga, og jafnframt að hönnun og fagurfræði textílsins nýtist í daglegu lífi, en verkefnið byggir ekki hvað síst á samvinnu efnaverkfræði, hönnunar og lista.
  • Rannís tekur þátt í þremur norrænum samstarfsnefndum á vegum rannsóknaráða Norðurlandanna, NOS-HS á sviði hug- og félagsvísinda, NOS-N í raunvísindum og náttúruvísindum og NOS-M sem er samstarfsnefnd í heilbrigðisvísindum.  

    NOS-N er samstarfsvettvangur á vegum fjármögnunaraðila rannsókna í raunvísindum og náttúruvísindum á Norðurlöndum. Haldnir voru tveir fundir á árinu. Fyrri fundurinn var 4. maí og þar var fjallað um verkferla við skil á lokaskýrslum. Síðari fundurinn, sem var 100 ára afmælisfundur, átti að vera haldinn í Helsinki árið 2020 en var frestað vegna Covid-19. Loks var fundurinn haldinn á netinu 2.-3. desember 2021, og var þema hans markmið og verkefni NOS-N.

    NOS-M er samstarfsvettvangur í heilbrigðisvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Haldinn var einn fjarfundur 6. maí 2021.  

    NOS-HS er samstarfsvettvangur í  hug- og félagsvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Rannsakendur í hug- og félagsvísindum og skyldum greinum geta sótt um styrki til að halda norrænar vinnustofur. Á árinu 2021 hlutu 32 verkefni styrk um slíkar vinnustofur, þar af þrjú sem eru leidd af íslenskum aðila. 

  • Jules Verne er samstarfsverkefni Frakklands og Íslands á sviði rannsókna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið stýrir samstarfinu fyrir hönd Íslands en Rannís sér um framkvæmdina. Tilgangurinn með samstarfinu er að virkja vísinda- og tæknisamstarf milli stofnana, skóla og rannsóknarhópa í báðum löndunum og að auðvelda samstarf við önnur slík samstarfsverkefni í Evrópu. Styrkir eru veittir til ferða- og dvalarkostnaðar fyrir vísindafólk. Fjármögnunin er samþykkt til tveggja ára í senn og að þessu sinni var úthlutað fjórum styrkjum.

  • Rannsóknasetrið (ROCS) var stofnað í apríl 2020 af Carlsbergsjóðnum í samvinnu við íslensk stjórnvöld og Rannís, í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands. Rannsóknasetrið er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. Carlsbergsjóðurinn leggur röskar 500 m.kr. til verkefnisins, eða 25 m.dkr., og íslenska ríkið 240 m.kr. ROCS mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands og verður því stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við danskt og íslenskt vísindafólk. Árið 2021 var fyrsta starfsár nýdoktora við setrið sem eru sex talsins, þrír styrktir af Carlsberg sjóðnum og þrír styrktir af Rannís og íslenska ríkinu.

  • Samstarfssamningur um umsjón Rannís með Arctic Research and Studies sjóðnum var endurnýjaður haustið 2021. Áhersla núverandi tímabils sjóðsins er á sóknarstyrki vegna undirbúningsvinnu við gerð umsókna í alþjóðlega samkeppnissjóði. Áætlunin byggir á tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs á sviði norðurslóðafræða sem hófst árið 2011 og hefur veitt styrki annars vegar til stúdentaskipta í háskólum á öllum námsstigum og hins vegar til samstarfs á milli stofnana, einkum í formi ferðastyrkja. Að auki er styrkt sk. Nansen prófessorsstaða við Háskólann á Akureyri, en sú fjármögnun fer ekki í gegnum Rannís.

    Á núgildandi tímabili hafa borist 15 umsóknir í áætlunina og hefur 11 verkefnastyrkjum verið úthlutað að upphæð 35,2 m.kr. Í október 2021 fór fram viðburður á Hringborði norðurslóða í tilefni 10 ára afmælis samkomulags um norðurslóðarannsóknasamstarf Íslands og Noregs þar sem utanríkisráðuneyti ríkjanna undirrituðu viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf á þessu sviði.

  • Árið 2021 var fimmta starfsár IASC í rannsóknarhúsinu að Borgum á Akureyri, samkvæmt samkomulagi á milli nefndarinnar og Rannís. Í ljósi þeirrar jákvæðu reynslu sem fengist hefur af starfsemi skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar ákvað Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, að framlengja starfsemi skrifstofunnar hjá Rannís á Akureyri um fimm ár frá upprunalegu samkomulagi, eða til loka árs 2026. Auk vísindastofnana í norðurskautsríkjunum átta eiga aðild að IASC vísinda- og rannsóknarstofnanir í Austurríki, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Japan, Hollandi, Indlandi, Póllandi, Portúgal, Kína, Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi. IASC stuðlar að samstarfi um vöktun og rannsóknir á norðurslóðum. Sem áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu gegnir nefndin einnig mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á breytingum í náttúrufari norðurslóða.  

    Starfsemi IASC fer að miklu leyti fram í fimm vinnuhópum; um landræn kerfi, gufuhvolf, hafvísindi, mann- og félagsvísindi og freðhvolf. Þátttökuríkin útnefna að jafnaði tvo fulltrúa í hvern vinnuhóp. Þeir eru í senn fulltrúar innlendra vísinda- og rannsóknarstofnana gagnvart hinu alþjóðlega vísindasamfélagi, sem og talsmenn IASC og helstu tengiliðir við starfsemi vinnuhópanna. Hóparnir halda fundi, ásamt vísindaráði IASC, að vori ár hvert á vikulangri vísindaráðstefnu (Arctic Science Summit Week) til að leggja línurnar og móta stefnuna í starfi IASC.