Starfsemi og skipulag

Rannsókna- og nýsköpunarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar. Á ábyrgð sviðssins er rekstur stóru samkeppnissjóðanna ásamt rekstri minni sjóða er tengjast rannsóknum og nýsköpun, að taka við umsóknum og meta verkefni sem tengjast skattendugreiðslu rannsókna og þróunar og umsýsla fleiri sjóða.

Heimsfaraldurinn og ný verkefni

Viðbrögð stjórnvalda við heimfaraldrinum og nýtt sjö ára tímabil áætlana Evrópusambandsins settu mestan svip á starfsemi rannsókna- og nýsköpunarsviðs árið 2021. Sviðið hélt áfram að vaxa þar sem stjórnvöld fólu Rannís ný verkefni og fjárveitingar í stærstu sjóðina voru áfram mjög miklar.

Í ársbyrjun tók Rannís við rekstri Enterprise Europe Network, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands rak um margra ára skeið. Enterprise Europe Network á Íslandi aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki, auk háskóla og opinberra aðila, við að efla samkeppnishæfni sína á alþjóðamarkaði gegnum stærsta viðskiptatengsla- og tækniyfirfærslunet heims. Netið er styrkt af Evrópusambandinu og starfa um 3000 sérfræðingar á yfir 600 stöðum í fleiri en 60 löndum og í öllum heimsálfum. Með því að taka við þessu verkefni getur Rannís veitt sérstaklega fyrirtækjum aukna þjónustu og verður það vonandi til þess að árangur íslenskra þátttakenda í alþjóðlegu samstarfi verði áfram mjög góður.

Tvær nýjar ESB áætlanir

Þetta var þó ekki eina nýja verkefnið sem kom til Rannís á árinu, heldur bættust tvær nýjar ESB áætlanir við þær sem fyrir voru. Í báðum tilvikum er um nýjar áætlanir að ræða sem Ísland hefur ekki tekið þátt í áður. Annars vegar er Digital Europe sem er ætlað að móta stafræna framtíð Evrópu og styðja við verkefni sem brúa bilið milli rannsókna og þróunar og stafrænna afurða á markaði. Starfsfólk sviðsins tók virkan þátt í undirbúningi að þátttöku Íslands allt árið ásamt fulltrúum fjármála- og efnahags-, atvinnuvega- og nýsköpunar- og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hins vegar er um að ræða LIFE áætlunina sem fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfis- og loftslagsbreytingar. Þessi áætlun var á ábyrgð umhverfis- og auðlindaráðuneytis fyrir breytingar á stjórnarráðinu sem tóku gildi í ársbyrjun 2022.

Báðar þessar áætlanir eiga það sameiginlegt að vera hagnýtar og tengdar innleiðingu á tæknilausnum. Þannig styrkja þær mjög stafrænar megináherslur sem má finna í Horizon Europe – sem tók við af Horizon 2020 á árinu. Viðskiptavinahópur Rannís stækkar einnig og stofnunin verður betur í stakk búin að styðja við stefnu stjórnvalda í bæði stafrænum málum og umhverfis- og loftslagsmálum.

Horizon Europe

Horizon Europe verður hryggjarstykkið í evrópsku rannsóknastarfi Íslands næstu sjö árin. Fjárveitingar til áætlunarinnar aukast frá fyrra tímabili og vegna þess og Brexit aukast fjárhagslegar skuldbindingar Íslands verulega. Á árinu kom út yfirlitsskýrsla um Evrópusamstarfið síðast liðin sjö ár sem sýnir að árangurinn í rannsóknum og nýsköpun hefur verið mjög góður – bæði þegar litið er til árangurshlutfalls og upphæða sem skila sér í formi styrkja til Íslands. Það verður mikil áskorun að viðhalda þessum góða árangri. Til að ýta undir það samþykktu stjórnir bæði Rannsókna- og Tækniþróunarsjóðs að auka framlög sín í sóknarstyrki verulega og hækkuðu þeir úr 20 milljónum króna í 50 milljónum króna á árinu. Það gerði Rannís kleift að styrkja sóknina í Horizon Europe með hærri og fleiri styrkjum en áður.

Umtalsverð vinna fór í undirbúning að þátttöku Íslands í markáætlunum (s.k. Partnership) sem fjármagnaðar verða með framlagi úr Horizon Europe, frá þeim ríkjum sem taka þátt í samstarfinu og fyrirtækjum. Er fyrirséð að veruleg aukning mun eiga sér stað á þessu sviði sem kalla mun á aukna innlenda mótfjármögnun.

Uppbyggingarsjóður EES

Vinna við Uppbyggingarsjóð EES var umtalsverð á árinu en Rannís hefur umsjón með sex áætlunum í fimm löndum á málefnasviðum stofnunarinnar í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Unnin var úttekt á því hvernig sjóðurinn hefur nýst íslenskum aðilum sem sýnir að samstarf er umfangsmikið sérstaklega á sviði menningar- og menntaáætlana.

Hástökkvari ársins 2021 þegar kemur að fjárveitingum var skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna, en endurgreiðslur tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2021 og voru rúmir 10 milljarðar króna. Er skattfrádrátturinn nú orðinn stærsta einstaka stuðningsaðgerð stjórnvalda við rannsóknir og nýsköpun í landinu.

Starfsemi og fjárveiting innlendra sjóða

Úthlutun Rannsóknasjóðs í byrjun árs 2021 var stærsta úthlutun sjóðsins frá upphafi – en stjórnvöld juku fjárveitingar verulega sem viðbrögð við heimsfaraldrinum. Þannig var fjárveiting til sjóðsins 3,7 milljarðar á árinu í samanburði við 2,5 milljarða árið 2019. Það þótti einnig markvert að veittir voru níu öndvegisstyrkir og hafa þeir aldrei verið fleiri – en hver styrkur getur numið allt að 150 milljónum króna á þriggja ára tímabili.

Fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs voru einnig auknar vegna heimsfaraldursins úr 2,3 mö.kr. árið 2019 í 3,6 ma.kr. árið 2021. Sjóðurinn úthlutar tvisvar á ári og voru því báðar úthlutanir ársins stærri en áður hefur verið bæði hvað varðar fjölda verkefna sem hlutu styrki og heildarupphæðir. Umsóknum fækkaði lítillega frá árinu 2020 en þá varð líka mjög mikil aukning miðað við árin á undan. Færri umsóknir og hærri fjárveiting gerðu það að verkum að heildar árangurshlutfall umsókna var tæp 19% sem er mun ásættanlegra en verið hefur undanfarin ár. Bryddað var upp á því nýmæli á árinu að bjóða verkefnum sem fá Sprotastyrk námskeið og stuðning frá mentorum til að auka líkurnar á að verkefnin gangi vel. Var það unnið í samstarfi við Klak – Icelandic Startup og tókst fyrsta tilraun það vel að ákveðið var að halda þessu áfram.

Á árinu var jafnframt ákveðið að efla samstarfið við aðila sem eru í Grósku og er starfsfólk Tækniþróunarsjóðs og Enterprise Europe Network með reglulega viðveru þar auk þess sem Rannís hefur staðið fyrir viðburðum þar. Einn fyrsti viðburðurinn sem þar var haldinn var kynning á haustúthlutun Tækniþróunarsjóðs – sem var nýlunda því venjulega hefur bara verið send út fréttatilkynning eftir að styrkþegum hafa verið send bréf. Formaður stjórnar sjóðsins kynnti styrkþega, sem öllum var boðið á staðinn, og nýskipaður ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar flutti ávarp og kynnti sitt nýja ráðuneyti.

Nýtt ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar mun hafa talsverð áhrif til einföldunar á starfsemi rannsókna- og nýsköpunarsviðs þótt breytingar á stjórnarráðinu kunni að auka flækjustig í annarri starfsemi Rannís. Með því að helstu samkeppnissjóðir Rannís sem styðja við rannsóknir og nýsköpun eiga nú lögheimili í sama ráðuneyti ásamt bæði Horizon Europe og Digital Europe er tækifæri til að auka samlegð milli sjóða og við alþjóðlegt samstarf.

Þá naut Innviðasjóður einnig aukinna framlaga vegna heimsfaraldursins og var úthlutun ársins sú langstærsta í sögu sjóðsins um 550 milljónir króna. Var 80% af því fjármagni úthlutað til verkefna sem voru valin á vegvísi um rannsóknainnviði sem birtur var á árinu. Er það nýlunda hér á landi en undirbúningur hafði staðið um talsvert skeið og voru sambærilegir evrópskir vegvísar hafðir til hliðsjónar. Á vegvísinn voru valdir sex viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem var talið að uppfylltu kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum á Íslandi og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs.

Hástökkvari ársins 2021 þegar kemur að fjárveitingum var skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna, en endurgreiðslur tvöfölduðust milli áranna 2020 og 2021 og voru rúmir 10 milljarðar króna. Er skattfrádrátturinn nú orðinn stærsta einstaka stuðningsaðgerð stjórnvalda við rannsóknir og nýsköpun í landinu. Vegna mikillar fjölgunar umsókna á árinu 2020 var unnið að nýju umsókna- og umsýslukerfi fyrir skattfrádráttinn og samhliða hófst markviss söfnun á upplýsingum um skattspor þeirra fyrirtækja sem njóta frádráttar. Er það gert til að auðvelda stjórnvöldum að leggja mat á áhrif þessarar stuðningsaðgerðar.

Nýtt ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar mun hafa talsverð áhrif til einföldunar á starfsemi rannsókna- og nýsköpunarsviðs þótt breytingar á stjórnarráðinu kunni að auka flækjustig í annarri starfsemi Rannís. Með því að helstu samkeppnissjóðir Rannís sem styðja við rannsóknir og nýsköpun eiga nú lögheimili í sama ráðuneyti ásamt bæði Horizon Europe og Digital Europe er tækifæri til að auka samlegð milli sjóða og við alþjóðlegt samstarf.

Viðburðaríkt ár

Tveir nýir innlendir sjóðir bættust við verkefni sviðsins á árinu: Doktorsnemasjóður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins hefur það markmið að styrkja rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í doktorsnámi á sviði náttúruvísinda og reyndist unnt að styrkja fjóra doktorsnema á árinu. Menntarannsóknasjóður styrkir hagnýtar menntarannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, náms á framhaldsskólastigi og frístundastarfs. Markmið sjóðsins er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna, auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu til 2030.

Eins og önnur svið Rannís, naut rannsókna- og nýsköpunarsvið góðs af sumarstörfum námsmanna. Var gerð sérstök gangskör í kynningarmálum bæði í því skyni að bæta vef og að búa til kynningarmyndbönd um Tækniþróunarsjóð, skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna og Enterprise Europe Network. Er það liður í viðleitni til að gera enn sýnilegri þau fjölmörgu góðu verkefni sem njóta góðs af starfi Rannís.

Árið 2021 var þannig viðburðaríkt og starfsemi rannsókna- og nýsköpunarsviðs efldist. Starfsmönnum sviðsins fjölgaði á árinu í samræmi við aukin verkefni og sviðið er því vel í stakk búið til að nýta þau tækifæri sem næstu ár færa okkur.

  • Í ársbyrjun tók Rannís við rekstri Enterprise Europe Network, sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands rak um margra ára skeið
  • Tvær nýjar ESB áætlanir bættust við; Digtal Europe og LIFE
  • Úthlutun Rannsóknasjóðs í byrjun árs 2021 var stærsta úthlutun sjóðsins frá upphafi en fjárveiting til sjóðsins var 3,7 milljarðar á árinu í samanburði við 2,5 milljarða árið 2019
  • Fjárveitingar til Tækniþróunarsjóðs voru auknar vegna heimsfaraldursins úr 2,3 milljörðum króna árið 2019 í 3,6 milljarða
  • Innviðasjóður naut aukinna framlaga vegna heimsfaraldursins og var úthlutun ársins sú langstærsta í sögu sjóðsins um eða 550 milljónir króna
  • Tveir nýir innlendir sjóðir bættust við verkefni sviðsins á árinu: Doktorsnemasjóður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Menntarannsóknasjóður
  • Gerð varð sérstök gangskör í kynningarmálum bæði í því skyni að bæta vef og að búa til kynningarmyndbönd um Tækniþróunarsjóð, skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna og Enterprise Europe Network