Sjóðir og úthlutanir

Rannís hefur umsjón með helstu samkeppnissjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar á Íslandi, auk samstarfsáætlana ESB og norrænna áætlana sem veita styrki til samstarfsverkefna, náms og þjálfunar.

Yfirlitsmynd yfir umfang sjóða sem Rannís hefur umsjón með

Hér fyrir neðan er hægt að sjá yfirlitsmynd sem sýnir úthlutun úr sjóðum og áætlunum í umsýslu Rannís eftir umfangi. Þar fyrir neðan er listi yfir sjóðina í stafrófsröð þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um úthlutanir ársins. Sækja yfirlitsmynd sem pdf.

 • Áætlunin byggir á tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs á sviði norðurslóðafræða sem hófst árið 2011 og hefur veitt styrki annars vegar til stúdentaskipta í háskólum á öllum námsstigum og hins vegar til samstarfs á milli stofnana, einkum í formi ferðastyrkja. Að auki er styrkt Nansen prófessorsstaða við Háskólann á Akureyri en sú fjármögnun fer ekki í gegnum Rannís. Samstarfssamningur um umsjón Rannís með sjóðnum var endurnýjaður haustið 2021. Áhersla núverandi tímabils sjóðsins er á sóknarstyrki vegna undirbúningsvinnu við gerð umsókna í alþjóðlega samkeppnissjóði.

  Á núgildandi tímabili hafa borist 15 umsóknir í áætlunina og hefur 11 verkefnastyrkjum verið úthlutað að upphæð 35,2 m.kr. Þar af bárust fimm umsóknir á undanförnu ári og var þremur þeirra úthlutað verkefnastyrkjum að upphæð 13,8 m.kr. Í október 2021 fór fram viðburður á Hringborði norðurslóða í tilefni 10 ára afmælis samkomulags um norðurslóðarannsóknasamstarf Íslands og Noregs þar sem utanríkisráðuneyti ríkjanna undirrituðu viljayfirlýsing um áframhaldandi samstarf á þessu sviði.

 • Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Sjóðurinn nýtur 100 milljóna króna framlags á ári fram til 2023. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

  Umsóknarfrestur var til 7. apríl 2021. Alls bárust 113 umsóknir og var sótt um rúmlega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 373 milljónir króna. Styrkt voru 37 metnaðarfull verkefni og heildarupphæð úthlutunarinnar var 90 milljónir króna. Þann 28. maí var tilkynnt um þriðju úthlutun úr Barnamenningarsjóði Ísland við hátíðlega athöfn í Hörpu þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og fiðlusveit úr Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar flutti tónlistaratriði. Hæsta styrkinn eða 6 milljónir hlaut Hönnunarmiðstöð Íslands í samstarfi við List fyrir alla, fyrir verkefnið: Hönnun fyrir alla en þar á að framleiða stutta og vandaða þætti með kennsluefni um hönnun og arkitektúr sem miðast að börnum og ungmennum.

  Fjölgun varð á verkefnum utan höfuðborgarsvæðisins, frá dreifðari byggðum. Sérstaklega ánægjulegt var að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

 • Í Bókasafnasjóð bárust 18 umsóknir og voru 20 milljónir til úthlutunar, samtals var sótt um ríflega 33 milljónir. Ellefu verkefni hlutu styrki úr sjóðnum að þessu sinni.

 • Í september var úthlutað í fyrsta sinn úr Doktorsnemasjóði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags. Sjóðurinn veitir styrki til doktorsnema á sviði náttúruvísinda. Alls bárust 8 umsóknir í sjóðinn og voru 4 þeirra styrktar eða 50% umsókna. Veittir voru fjórir styrkir, þrír til þriggja ára og einn til eins árs. Heildarupphæð styrkveitingar fyrir árið 2021 var 39,7 milljónir króna, en til þriggja ára er heildarupphæð styrkveitingar 86,4 milljónir króna.

 • Heimsfaraldurinn setti sitt mark á eftirspurn í sjóði Erasmus+ og European Solidarity Corps á árinu 2021 með tvenns konar afleiðingum. Í fyrsta lagi voru ferðalög flókin í framkvæmd stóran hluta ársins, sem gerði það að verkum að umsækjendur héldu að sér höndum við að leggja út í nýtt samstarf við erlenda aðila. Í öðru lagi hafa verkefni verið framlengd og ferðum frestað í miklum mæli undanfarin tvö ár, sem þýðir að í stað þess að sækja um nýja styrki eru styrkhafar fyrst núna að koma út því fjármagni sem úthlutað var á liðnum árum. Þannig bárust töluvert færri umsóknir á árinu en áður, eða 102 borið saman við 175 metárið 2020.

  Landskrifstofu Erasmus+ og ESC þykir gleðiefni að í þessum krefjandi aðstæðum virðist sem nýjungar í áætlunum hafi hlotið góðar móttökur meðal umsækjenda. 36 stofnanir og samtök fengu svokallaða aðild að námi og þjálfun í Erasmus+ og rennur drjúgur hluti styrkja til þeirra, mest í starfsmenntahluta þar sem 100% fjármagns rann til umsækjenda með aðild á árinu. Sama hugmynd er að baki gæðavottun í European Solidarity Corps, sem ein samtök hlutu á árinu og geta þar með sótt um að taka á móti sjálfboðaliðum á einfaldaðan hátt. Fjórir háskólar af sjö hlutu Erasmus+ styrk til að skipuleggja svokölluð blönduð hraðnámskeið, sem gera þátttakendum kleift að dvelja í útlöndum í styttri tíma en áður í tengslum við nám og þjálfun á netinu. Flóran í alþjóðlegum tækifærum er því í stöðugum vexti og ljóst að hér á landi er eftirspurn eftir sveigjanlegri og aðgengilegri leiðum til að taka þátt.

 • Hlutverk Hljóðritasjóðs er að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist með fjárhagslegum stuðningi við útgáfu hljóðrita. Ráðherra skipar stjórn Hljóðritasjóðs til þriggja ára í senn. Samtónn tilnefnir tvo fulltrúa með þekkingu og reynslu á sviði tónlistarútgáfu eða tónlistarlífs og ráðherra skipar formann sjóðsstjórnar. Fjárveiting til sjóðsins á árinu 2021 var 39,9 milljónir króna. Veittar voru 30 milljónir króna til 108 verkefna. Samtals var sótt um 327 verkefni að heildarupphæð 251 milljón króna.

  Fyrri úthlutun í mars 2021:
  Fyrir umsóknarfrest 15. mars bárust alls 180 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar og er það metfjöldi umsókna í einni lotu. Sótt var um styrki að upphæð 140 milljónir króna. Veittar voru 15 milljónir króna til 58 hljóðritunarverkefna og því einungis hægt að styrkja tæpan þriðjung umsækjenda og um 11% af umsóttum fjárhæðum.

  Skiptast styrkveitingar þannig:

  • 34 styrkir til ýmiss konar rokk-, hipphopp- og poppverkefna í afar víðum skilningi
  • 17 styrkir til samtímatónlistar, raftónlistar og annarrar tónlistar af ýmsum toga
  • 7 styrkir til fjölbreyttra djassverkefna

  Seinni úthlutun í september 2021:

  Umsóknarfrestur rann út 15. september 2021. Alls bárust 147 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar. Sótt var um rúmlega 111 milljónir króna en fimmtán milljónir voru til úthlutunar til 50 hljóðritunarverkefna.

  Skiptast styrkveitingar þannig:

  • 31 styrkir til ýmis konar rokk-, hipphopp- og popp verkefna í afar víðum skilningi
  • 13 styrkir til samtímatónlistar, raftónlistar og annarrar tónlistar af ýmsum toga
  • 6 styrkir til fjölbreyttra djassverkefna.
 • Í boði voru fimm styrktegundir: vegvísir, tækjakaupastyrkur, uppbyggingarstyrkur, uppfærslu- og viðhaldsstyrkur og aðgengisstyrkur. Á árinu var gefinn út fyrsti íslenski vegvísirinn um rannsóknarinnviði sem er samvinnuverkefni stjórnar Innviðasjóðs, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Á vegvísi eru tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum á Íslandi og samræmast áherslum Vísinda- og tækniráðs. Úthlutað var styrkjum til innviðaverkefna sem valin voru á vegvísi um rannsóknarinnviði í byrjun ársins. Styrkir til verkefna á vegvísi eru talsvert viðameiri en almennir styrkir og var framlag til sjóðsins aukið verulega. Hafði sjóðurinn því rúmlega 546 m.kr. sem var veitt til úthlutunar en sótt var um tæplega 1.047 m.kr. til sjóðsins og voru um 52% umbeðinnar upphæðar úthlutað. Þetta er langstærsta úthlutun úr sjóðnum frá upphafi. Um 80% styrkupphæðarinnar fara til vegvísaverkefna en alls barst 51 umsókn í Innviðasjóð, öll verkefnin sex á vegvísi hlutu styrk auk 15 almennra verkefna, eða um 41% umsókna.

 • Styrkir til íslenskukennslu fyrir útlendinga eru veittir einu sinni á ári skv. reglugerð sem samþykkt var í árslok 2015 og fer sú úthlutun fram í upphafi árs. Alls bárust 23 styrkumsóknir fyrir námskeiðahald á árinu 2021 en af þeim voru 17 sem stóðust umsóknarskilyrði sjóðsins. Heildarfjárbeiðnir námu alls 414,2 m.kr. og ákvað ráðuneytið að úthluta samtals 144,9 m.kr. til að halda 450 námskeið fyrir alls 5.131 nemanda. Síðar á árinu var tilkynnt um aukaúthlutun fyrir tímabilið 21. september 2021 til 30. júní 2022. Alls bárust 19 umsóknir um aukafjárveitingu og voru 18 þeirra gildar. Heildarfjárbeiðnir námu alls 346,2 m.kr. og ákvað ráðuneytið að úthluta samtals 131,8 m.kr. til að halda 416 námskeið fyrir alls 5.000 nemendur á þessu tímabili, aukalega við árlegar úthlutanir sjóðsins.

 • Á fjárlögum 2021 voru 22 m.kr. til ráðstöfunar úr Íþróttasjóði. Til úthlutunar fyrir árið 2021 bættust einnig 4 milljónir sem var hlutdeild Íþróttasjóðs af hagnaði Íslenskra getrauna á árunum 2014-2018. Þar með voru 26 milljónir til úthlutunar á árinu 2021. Einn umsóknarfrestur var og bárust 145 umsóknir að upphæð 124 m.kr. Að tillögu íþróttanefndar ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að úthluta styrkjum til 87 verkefna að upphæð 22 m.kr. Þar af fengu 47 verkefni styrk til að bæta aðstöðu til íþróttaiðkana fyrir 10,2 m.kr., 36 fræðslu- og útbreiðsluverkefni fengu styrk upp á 10 m.kr. og fimm verkefni vegna rannsókna í íþróttafræðum upp á 5,7 m.kr. Meðalstyrkur var rúmlega 290.000 kr. sem er hækkun frá fyrra ári, en þetta eru samt sem áður lægstu styrkir sem Rannís veitir.

 • Markmið Jafnréttissjóðs Íslands er að styrkja verkefni og rannsóknir sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi og á alþjóðavísu. Sjóðurinn var stofnaður í tilefni af 100 ára kosningarréttarafmæli íslenskra kvenna árið 2015. Alls barst 81 umsókn í sjóðinn á árinu og var úthlutað 25 m.kr. í styrki til átta verkefna. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kynnti úthlutun sjóðsins við formlega athöfn í Björtuloftum í Hörpu 18. júní.

 • Fjárveiting til starfslauna listamanna var um 905.6 milljónir króna. Til úthlutunar úr launasjóðnum voru 2.150 mánaðarlaun, sem er 550 mánaða aukning frá 1.600 lögfestum mánuðum, aukning er til komin vegna Covid-19. Umsóknarfrestur rann út 1. október og fjöldi umsækjenda var 1.440 (1305 einstaklingar og 135 sviðslistahópar með um 940 listamenn innanborðs). Sótt var um 13.675 mánuði. Úthlutun fá 308 listamenn og 26 sviðslistahópar með um 145 sviðslistamenn (alls um 450 listamenn).

  Sex úthlutunarnefndir tilnefndar af ráðuneyti og fagfélögum luku störfum í byrjun desember. Úthlutun var tilkynnt 7. janúar 2021. Starfslaun listamanna eru 409.580 kr. á mánuði samkvæmt fjárlögum 2021. Um verktakagreiðslur er að ræða.

  Skipting umsókna milli sjóða og árangurshlutfall var eftirfarandi:

 • Í mars var úthlutað úr Loftslagssjóði. Boðið var upp á tvær styrktegundir, annars vegar styrki til kynningar- og fræðsluverkefna og hins vegar styrki til nýsköpunarverkefna. Sótt var alls um 1,1 milljarð kr. og veittar rúmar 170 m.kr. Alls bárust 158 gildar umsóknir í Loftslagssjóð og voru 24 þeirra styrktar eða um 15% umsókna. Alls voru 12 nýsköpunarverkefni styrkt og 12 kynningar- og fræðsluverkefni. Styrkir eru veittir til eins árs.

 • Markáætlun er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (nr. 3/2003 með áorðnum breytingum). Áherslur áætlunarinnar eru ákvarðaðar af Vísinda- og tækniráði, en hún er fjármögnuð af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

  Markáætlun í tungu og tækni:

  Hlutverk Markáætlunar í tungu og tækni er annars vegar að vernda og efla íslenska tungu og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbótar almenningi, stofnunum og fyrirtækjum. Alls barst 21 umsókn í sjóðinn á árinu. Úthlutað var 295 m.kr. til fimm verkefna í fyrstu úthlutun áætlunarinnar 2020-2023.

 • Menntarannsóknasjóði var komið á laggirnar á árinu af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Sjóðurinn styrkir rannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, náms á framhaldsskólastigi og frístundastarfs. Markmið sjóðsins er að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna, auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og umbóta í skólastarfi og styðja við framkvæmd menntastefnu til ársins 2030. Árið 2021 voru áherslur sjóðsins eftirfarandi:

  • Nám og kennsla nemenda með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn
  • Skólaforðun og brotthvarf úr nám
  • Nám og kennsla í náttúrugreinum, raungreinum eða tæknigreinum

  Umsóknarfrestur var 1. október og var fyrsta úthlutun í desember. Alls bárust 23 gildar umsóknir í sjóðinn og hlutu fjórar þeirra styrk að upphæð rúmar 72 m.kr. Voru það tvö rannsóknaverkefni og tveir doktorsnemar sem hlutu styrk.

 • Alls bárust 118 umsóknir um Námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla á árinu en umsóknirnar gilda fyrir veturinn 2022-2023. Sóttu 102 framhaldsskólakennarar um orlof í eigin nafni en 16 umsóknir bárust frá skólum fyrir hönd kennara. Nefndin úthlutaði alls 39 stöðugildum til 41 einstaklings, 37 heilum orlofum og fjórum hálfum; 3.332 stöðugildi fóru til kennara með einstaklingsumsóknir og 7 stöðugildum var úthlutað til kennara í gegnum skólaumsóknir. 27 konur fengu námsorlof að þessu sinni og 14 karlar. Meðalaldur orlofsþega var 55,5 ár og meðalstarfssaldur þeirra var 24,3 ár. 

 • Árið 2021 barst 331 umsókn um Nordplus styrki og hlutu 256 þeirra brautargengi. Vegna Covid-19 voru þetta mun færri umsóknir en undanfarin ár. Úthlutunarhlutfall umsókna var 77% sem er frekar hátt. Úthlutunarhlutfall fjármagns var 55% sem er einnig frekar hátt. Alls var úhlutað tæplega 8,6 milljónum evra til 2.254 skóla, stofnana, samtaka og fyrirtækja á öllum Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Íslenskar stofnanir stýrðu 19 af þeim verkefnum sem fengu styrk. Því til viðbótar voru  126 umsóknir með íslenskri þátttöku. Ísland hefur umsjón með tungumálahluta Nordplus (Nordplus Sprog) áætlunarinnar. Í þann hluta bárust 22 umsóknir sem er nokkuð gott miðað við aðstæður.

 • Nýsköpunarsjóður námsmanna er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla í sumarvinnu við rannsókna- og þróunarverkefni. Alls bárust 642 umsóknir fyrir 950 háskólanema fyrir umsóknarfrest 15. febrúar 2021. Sótt var um laun í 2.788 mannmánuði eða rúmlega 836 m.kr. Sjóðurinn úthlutaði um 311 m.kr. sem samsvarar 1.037 mannmánuðum til 351 nemanda í 206 verkefnum.

  Í lok sumars skila nemar inn lokaskýrslu fyrir verkefnið. Í spurningakönnun sem var lögð fyrir nema í lokaskýrslu kom í ljós að í 35% verkefna hafa nemar fengið atvinnutækifæri í framhaldi verkefnisins.

 • Markmið sjóðsins er að veita styrki til eflingar rannsóknum á korta- og landfræðisögu Íslands og íslenskri bókfræði og stuðla að útgáfu rita um þau efni. Alls bárust 10 umsóknir í sjóðinn á árinu. Úthlutað var rúmlega 2 m.kr. í styrki.

 • Rannsóknasjóður bauð upp á fjórar styrktegundir: verkefnisstyrki, öndvegisstyrki, nýdoktorsstyrki og doktorsnemastyrki og höfðu umsækjendur val á milli sjö fagráða. 

  Framlag ríkisins til Rannsóknasjóðs á fjárlögum var 3.722 m.kr. og hefur aldrei verið hærra.

  Alls bárust 402 umsóknir í Rannsóknasjóð að þessu sinni, heldur fleiri en undangengið ár og stóðust 402 forkröfur. Alls hlutu 82 verkefni styrk eða 20,4% umsókna. Sótt var um 5.982 m.kr. og voru 1.334 m.kr. veittar eða 22,3% umbeðinnar upphæðar. Þessar tölur endurspegla styrkupphæð 1. árs styrktra verkefna. 

  Alls barst 31 umsókn um öndvegisstyrk og voru 9 verkefni styrkt. Í flokkinn verkefnisstyrkir bárust 194 umsóknir og voru 38 verkefni styrkt. Innsendar umsóknir fyrir nýdoktorsstyrki voru 75 og voru veittir 17 styrkir. Innsendar umsóknir fyrir doktorsnemastyrki voru 102 og hlutu 18 doktorsnemar styrk.  

  Af 470 skráðum verkefnisstjórum í umsóknum voru 252 karlar (53,6%) og 218 konur (46,4%). Fleiri en einn verkefnisstjóri getur verið skráður á sama verkefni. Alls eru 54 karlar verkefnisstjórar í styrktum verkefnum (55,7%) og 43 konur (44,3%). Árangurshlutfall karla er 21,4% og árangurshlutfall kvenna 19,7%. Af 621 skráðum meðumsækjanda voru 356 karlar (57,3%) og 265 konur (42,7%). Alls eru 56 karlar (49,6%) og 57 konur (50,4%) meðumsækjendur í styrktum verkefnum. Árangurshlutfall karla er 15,7% en árangurshlutfall kvenna 21,5%. 

 • Venju samkvæmt var boðið upp á tvær tegundir umsókna til Samstarfsnefndar um endurmenntun framhaldsskólakennara á árinu, annars vegar fyrir sumarnámskeið og hins vegar fyrir gestafyrirlesara og ráðstefnustyrki. Sótt var um styrki fyrir 24 sumarnámskeið á árinu en ein umsókn var dregin til baka. Sótt var um námskeið fyrir alls 694 kennara en í lok árs höfðu 599 kennarar sótt sumarnámskeiðin. Af námskeiðum sem fram fóru voru 11 hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og 9 hjá öðrum stofnunum. Heildarupphæð styrkja til sumarnámskeiða að loknum uppgjörum nam rétt rúmlega 18 m.kr. á árinu. 60 umsóknir bárust um gestafyrirlesara- og ráðstefnustyrki á árinu frá 24 faggreinafélögum og 12 skólum. Var sótt um styrki fyrir hönd 90 einstaklinga, 30 gestafyrirlesara og 60 ráðstefnuþátttakenda fyrir alls 17,4 m.kr. og fengu allar umsóknir úthlutun.

 • Á árinu 2016 var lögfest frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem eru ráðnir til starfa hér á landi vegna sérþekkingar sinnar og reynslu. Markmið laganna er að gera fyrirtækjum auðveldara að fá til sín sérfræðinga til að ekki þurfi að fara með viðkomandi starfsemi úr landi. Skilyrði er meðal annars að viðkomandi búi yfir þekkingu eða reynslu sem ekki er fyrir hendi hér á landi eða einungis í litlum mæli. Rannís rekur umsóknarkerfi fyrir nefnd sem afgreiðir umsóknirnar og tilkynnir ríkisskattstjóra niðurstöðuna. Alls bárust á árinu 2021 196 umsóknir; 180 umsóknir hafa verið afgreiddar, 81% voru samþykktar og 19% hafnað. Flestar umsóknir koma frá fyrirtækjum, 111 umsóknir eða 62%, 27 frá háskólum eða 15% og 31 eða 17% komu frá stofnunum, sjúkrahúsum eða sjálfseignarstofnunum. Karlar eru 63% umsækjenda, 37% umsækjendur eru konur, 37% umsækjenda eru með doktorspróf og 42% með meistarapróf. Umsækjendur koma frá 41 landi, flestir eru Íslendingar sem hafa verið starfandi erlendis eða 68, en sem dæmi má nefna að 40 voru frá löndum innan ESB, 9 frá Norðurlöndunum, 33 frá Indlandi, 8 frá Kanada, 9 frá Bretlandi, 10 frá Bandaríkjunum og 4 frá Kína. 

 • Á árinu 2021 voru áfram í gildi bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem komu til vegna Covid-19 í maí 2020. Bráðabirgðaákvæðin fólu í sér að nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur að rannsókna- og þróunarverkefnum og hlotið hafa staðfestingu Rannís, eiga rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2020 og 2021 (til endurgreiðslu 2021 og 2022) sem nemur 35% af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en 25% í tilviki stórra fyrirtækja. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti er eftir breytinguna samtals 1.100.000.000 kr. hjá hverju fyrirtæki, þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsókna- eða þróunarvinnu.

  Á árinu 2021 bárust 327 umsóknir um staðfestingu vegna framhaldsverkefna frá fyrra ári og 257 gildar umsóknir um staðfestingu nýrra verkefna á árinu 2021. Alls bárust því 584 gildar umsóknir um staðfestingu rannsókna- og þróunarverkefna á árinu 2021, samanborið við 552 á árinu 2020, sem jafngildir um 5,8% fjölgun umsókna frá fyrra ári. Rannís hefur áætlað að endurgreiðsla vegna þessara verkefna á árinu 2022 verði um 11,7 milljarðar króna.

  Í árslok 2021 var búið að staðfesta 313 framhaldsverkefni og 105 ný verkefni. Af umsóknum um framhaldsverkefni voru 13 enn í fyrirspurnarferli en boðuð var höfnun á einni umsókn án þess að athugasemdir hefðu borist frá umsækjanda. Af umsóknum um ný verkefni hafði 31 fengið boð um höfnun, en 121 var í fyrirspurnarferli. Af þeim höfðu borist svör varðandi 89 verkefni, en 32 höfðu frest til 18. janúar til að svara. Þá höfðu 14 beiðnir borist um enduropnun af þeim 31 umsóknum sem fengið höfðu boð um höfnun.

  Rannís áætlaði fyrir fjárlagagerð ársins 2021 að heildarendurgreiðslan yrði um 10,2 milljarðar kr. vegna umsókna á árinu 2020, sem var nær tvöföldun frá fyrra ári. Endanleg tala samkvæmt álagningarskrá fyrirtækja sem lá fyrir í byrjun nóvember 2021 var um 10,4 milljarðar króna, sem er vel innan þeirra skekkjumarka ( +/- 10%) sem reikna verður með á þessari áætlun, þegar haft er í huga að hvorki endanleg niðurstaða um staðfestingu verkefna, né raunkostnaður verkefna liggur fyrir þegar áætlun fyrir fjárlög næsta árs er gerð. Það getur líka haft áhrif á endurgreiðsluna ef verkefni er með aðra opinbera styrki, t.d. frá Tækniþróunarsjóði.

  Tölur í yfirlitsmyndinni yfir umfang sjóða miðast við umsóknir fyrra árs (2020) sem voru til greiðslu árið 2021.

  Á myndinni hér að neðan má sjá yfirlit yfir spá úr fjárlögum hvers árs í samanburði við endanlegar greiðslur ríkissjóðs vegna skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefna á tímabilinu 2011 til 2022.

 • Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna styrkir eingöngu ritun fræðarita á íslensku, einn opinberra sjóða á Íslandi. Alls bárust 68 umsóknir í sjóðinn. Sótt var um starfslaun til 486 mánaða eða um 199 m.kr. Til úthlutunar voru um 53 m.kr. og veittir voru 19 styrkir úr sjóðnum. Um 28% umsókna voru styrkt.

 • Í lok árs 2018 voru samþykkt lög með það að markmiði að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2019 og verða endurskoðuð í lok árs 2023. Framlag ríkisins til stuðnings við útgáfu bóka á íslensku 2021 var 392 m.kr. Með þessu er ríkissjóður að taka að sér að endurgreiða 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði sem fellur til vegna útgáfu bóka á íslensku. Bókaútgefendur hafa níu mánuði frá útgáfu bókar til að senda inn umsókn. Árið 2021 voru afgreiddar 732 umsóknir og nam endurgreiðslan alls um 374 m.kr.

 • Sviðslistasjóður tók til starfa um mitt ár 2020 með nýjum lögum um sviðslistir og mennta- og menningarmálaráðherra skipaði samhliða því sviðslistaráð til þriggja ára.

  Styrkir til atvinnuleikhópa haldast í hendur við úthlutun listamannalauna, ein umsókn gildir í báða sjóði og eru umsóknarfrestir miðaðir við sömu dagsetningu, 1. október, og samræmda úthlutun beggja sjóða í janúar. Sömu einstaklingar sitja í úthlutunarnefnd Listamannalauna og í úthlutunarnefnd Sviðslistasjóðs. Fjárveiting til atvinnuleikhópa var 137 milljónir á fjárlögum 2021. Umsóknarfrestur rann út 1. október 2020, alls bárust 143 umsóknir frá atvinnusviðslistahópum og sótt var um ríflega 738 milljónir króna.

  Stjórnvöld juku framlag til sjóðsins um 37 milljónir vegna Covid-19. Sviðslistaráð veitti 132 milljónum til 30 atvinnusviðslistahópa/sviðsverka leikárið 2021/22. Sviðslistaráð gerði 20 milljóna króna samning við Gaflaraleikhúsið til tveggja ára með sambærilegu framlagi til leikhússins. Leikhópurinn dB fékk hæsta styrkinn fyrir sviðsverkið Eyja eða 11,2 milljónir.

 • Tónlistarsjóður starfar skv. lögum nr. 76/2004 og er hlutverk sjóðsins að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar sjóðnum þriggja manna tónlistarráð til þriggja ára í senn. Tónlistarráð gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um úthlutun styrkja úr Tónlistarsjóði.

  Fjárveiting til tónlistarsjóðs á fjárlögum 2021 var 110,2 milljónir króna og var aukaframlag ríkisstjórnar vegna Covid-19, 35 milljónir. Veittir voru styrkir að upphæð 99,6 milljónir til 162 verkefna, 116 verkefna á fyrra fresti og 46 verkefna á seinna fresti. Tveir umsóknarfrestir eru árlega í sjóðnum að hausti 1. nóvember og að vori 2. maí. Í allt bárust 366 umsóknir á árinu og sótt var um samtals 360 milljónir króna.

  Fyrri úthlutun í nóvember 2021:
  Alls bárust 248 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar og er það 56% aukning í umsóknum frá nóvember 2020. Sótt var um rúmlega 251 milljón króna. Styrkjum að upphæð 75 milljónir var úthlutað til 116 verkefna um allt land.
  Skiptast styrkveitingar þannig að 8 styrkir fara til tónlistarhátíða af ýmsum toga, 37 styrkveitingar til klassískra tónlistarverkefna, 30 til samtímatónlistar og raftónlistar, 15 til ýmiss konar rokk, hipphopp og poppverkefna, 16 til námskeiðahalds, kennslu og miðlunar af ýmsum toga, auk þess sem 6 verkefni á sviði þjóðlagatónlistar og 4 djassverkefni eru styrkt.

  Hæstu verkefnastyrki, að upphæð 1,2 milljónir króna, fengu Sinfóníuhljómsveit Suðurlands og Pera Óperukollektíf.

  Seinni úthlutun í maí 2021:
  Alls bárust 118 umsóknir frá mismunandi greinum tónlistar. Sótt var um rúmlega 109 milljónir króna. Tónlistarráð úthlutaði styrkjum til 46 verkefna, samtals 24,6 milljónum króna. Hæstu styrki fengu óperan Mærþöll, 1,5 milljónir króna og Múlinn jazzklúbbur, 1,2 milljónir króna. Styrkveitingar skiptast þannig að 25 styrkir fara til hátíða eða tónleikaraða af ýmsum toga, vítt og breitt um landið, 9 styrkir fara til stakra tónleikaverkefna, 5 styrkir í verkefni fyrir börn og ungmenni þ.m.t. skólatónleika, 3 styrkir eru veittir til markaðssetningar og eftirfylgni á hljómplötum og 4 styrkir fara í önnur verkefni. Af þessum styrkjum fara 32 í verkefni tengd sígildri- og samtímatónlist, 6 styrkir í popp- og rokktónlist, 6 styrkir í jasstónlist og 2 styrkir fara í blönduð tónlistarverkefni.

 • Tækniþróunarsjóður bauð upp á sjö styrktarflokka á árinu: styrki til hagnýtra rannsóknaverkefna, einkaleyfisstyrki, Fræ, Sprota, Vöxt, Sprett og markaðsstyrki. Sjóðurinn hafði 3.526 m.kr. til umráða samkvæmt fjárlögum sem er veruleg aukning frá fyrra ári sem var 2.288 m.kr. auk 700 m.kr. vegna aðgerða í þágu nýsköpunar vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins. Alls bárust sjóðnum 779 umsóknir í alla styrktarflokka og hlutu 146 verkefni styrk eða 19% umsókna. Árangurshlutfall styrktra verkefna af heildarfjölda umsókna hefur aukist verulega frá síðasta ári og fer úr 15% í 19%. Sótt var um 18.042 m.kr. og voru 3.172 m.kr. veittar eða tæplega 18% umbeðinnar upphæðar. Verkefni geta sótt um stuðning frá einu til þriggja ára í senn. Auk þess styrkir sjóðurinn íslenska þátttakendur í sex alþjóðlegum verkefnum þannig að heildarupphæðin er rúmlega 3,3 milljarða króna. Á árinu var gengið frá framhaldssamningi við 67 verkefni upp á rúmar 1.217 m.kr.

  Sjóðurinn tekur þátt í Eurostars áætlun Evrópusambandsins og fengu tvö verkefni stuðning í þeirri áætlun á árinu. Sjóðurinn tekur þátt í Blue Bioeconomy ERA-Net, sem fjallar um lífhagkerfi sjávar og ferskvatns, þar sem auglýst var eftir umsóknum um rannsókna- og þróunarverkefni. Samið var við fjögur samstarfsverkefni með íslenskri aðild á árinu. Sjóðurinn tekur jafnframt þátt í ERA-Net Geothermica sem er evrópskt samstarfsnet á sviði jarðorku og M-ERA sem er á sviði efnistækni.

 • Fjárveiting til Vinnustaðanámssjóðs var 242,6 m.kr. á fjárlögum 2021. Rannís hélt áfram samstarfi við Iðuna fræðslusetur og Rafmennt um tiltekna þætti í framkvæmd styrkveitinganna. Samtals var sótt um styrki fyrir 1.222 nema í 25.545 vikur á árinu 2021. Ákveðið var að breyta verklagi frá árunum á undan þannig að vilyrði um upphæð á viku voru ekki gefin út heldur var styrkupphæð ákveðin eftir að umsækjendur höfðu skilað öllum gögnum til umsýsluaðila. Þar sem úthlutun styrkja fór fram úr fjárheimild árið á undan var heildarupphæðin nú 200 m.kr. Styrkupphæð fyrir hverja viku í vinnustaðanámi var því 9.877 kr. að þessu sinni.

 • Fjárveiting til Þróunarsjóðs námsgagna nam tæplega 55 m.kr. á árinu 2021 og var óbreytt frá árinu áður. Stjórn sjóðsins ákvað að skipta styrkumsóknunum í tvennt líkt og fyrri ár. Áfram var hægt að sækja um almennan þróunarstyrk fyrir allt að 2 m.kr. en einnig var hægt að sækja um þróunar- og útgáfustyrk fyrir allt að 4 m.kr. Ákveðið var að veita að hámarki tveimur umsóknum þennan hámarksstyrk, að skilyrðum settum. Sjóðnum bárust 110 umsóknir og námu samanlagðar fjárbeiðnir um 252,6 m.kr. 81 umsókn féll undir forgangsatriði ársins sem voru þrjú:

  1. Námsefni er styður við heilsueflingu nemenda, andlega jafnt sem líkamlega heilsu.
  2. Námsgögn er styðja við aðlögun og íslenskunám innflytjenda.
  3. Námsgögn sem miða að markvissri eflingu orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum námsgreinum.

  Sérstaklega er horft til frumkvöðlamenntunar og starfs-, iðn- og tæknináms. 29 umsóknir féllu undir önnur áhersluatriði. Styrkir voru veittir til 29 verkefna á árinu 2021 fyrir alls 52,4 m.kr. Meðalstyrkupphæð nam 1,8 m.kr.

 • Fjárveiting til Æskulýðssjóðs var 9,8 m.kr. á fjárlögum 2021. Einnig hefur sjóðsstjórnin heimild til að úthluta ósóttum styrkjum fyrri ára. Umsóknarfrestir voru tveir, 15. febrúar og 15. október. Alls bárust 47 umsóknir sem er 13 umsóknum fleiri en á síðasta ári. Upphæðin sem sótt var um var 41,2 miljónir sem var rúmlega 10 milljónum meira en árið 2020. Styrkt voru 12 verkefni að upphæð um 8,6 m.kr. sem er lækkun frá fyrra ári. Skýringin var að lítið var um ónýtta styrki frá fyrri árum og taka verður tillit til þess að rekstrarkostnaður sjóðsins er greiddur af fjárveitingunum. Meðalstyrkur var um 721.000 kr. á verkefni sem er svipað og árið áður.