Ávarp forstöðumanns

Afgerandi starf fyrir samfélagið  

Hallgrímur Jónasson forstöðumaður fer yfir árið 2021 en það ár einkenndist af miklum breytingum og fjölmörgum áskorunum í starfsemi stofnunarinnar.

Fjölbreytt verkefni og margvíslegar áskoranir

Nú sjáum við loksins fyrir endann á Covid-19 faraldrinum sem við höfum þurft að glíma við síðastliðin tvö ár. Rannís hefur notast við fjögurra stiga viðbragðsáætlun gegn Covid-19 til að bregðast við breyttum áherslum. Þessi tími hefur verið lærdómsríkur fyrir stofnunina, mikið reynt á innra skipulag og verkferla og ekki síst rafræna þætti í starfinu. Í byrjun árs 2021 var vinnuvikan stytt úr 40 stundum í 36 stundir undir yfirskriftinni Betri vinnutími innan Rannís, fyrstu níu mánuðina til reynslu. Samfara styttingu vinnuvikunnar var ráðist í ýmsar breytingar s.s. straumlínustjórnun og var niðurstaðan eftir níu mánuði að festa styttri vinnuviku í sessi. Breytingarnar gera kröfur til starfsmanna um sveigjanleika, frumkvæði, vilja til breytinga og ábyrgð, sem þeir hafa sýnt í ríkum mæli.

Innan Rannís var unnið að margs konar hagræðingarverkefnum til að auka vinnuhagræði og bæta gæði, einfalda og létta vinnu, enda gerð krafa um sömu afköst og áður. Microsoft 365 hefur hjálpað til við að auka afköst. Á árinu var unnið að uppbyggingu Jafnlaunakerfis Rannís og var allri vinnu lokið á árinu 2021, en endanleg úttekt fór fram í byrjun árs 2022. Jafnlaunakerfið hefur fengið vottun.

Rannís var falin umsýsla með fjórum nýjum sjóðum á árinu, Menntarannsóknasjóði, Doktorsnemasjóði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Bókasafnasjóði og Sprotasjóði, en fyrir var Rannís með í umsýslu um 26 innlenda sjóði. Sjóðir á sviði rannsókna og nýsköpunar voru að upphæð tæplega 9 milljarðar króna, á sviði menntamála tæplega 3 milljarðar og á sviði menningar og æskulýðsmála 1,2 milljarðar. Samtals voru því til úthlutunar tæpir 13 milljarðar króna. Að auki eru svokallaðir réttindasjóðir að upphæð um 12 milljarðar.

Á árinu var gefinn út fyrsti vegvísirinn um rannsóknarinnviði, en um var að ræða samvinnuverkefni stjórnar Innviðasjóðs, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Á vegvísi eru tilgreindir viðamiklir innviðir og innviðakjarnar sem uppfylla kröfur um að styðja við gæði í rannsóknum á Íslandi. Með vegvísinum hefur stjórn Innviðasjóðs tækifæri til að styðja við talsvert viðameiri verkefni en almennt hefur verið gert, en framlag til sjóðsins hefur aukist á undanförnum árum. 80% verkefna sem fengu stuðning eru á vegvísi.

Í byrjun árs 2021 var vinnuvikan stytt úr 40 stundum í 36 stundir undir yfirskriftinni Betri vinnutími innan Rannís.

Alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf er lykilþáttur í starfi Rannís, fyrirferðarmest er norrænt samstarf og verkefni innan Evrópusambandsins, en jafnframt er áhersla á samstarf t.d. við Bandaríkin, Asíu auk norðurslóðasamstarfs. Í upphafi árs 2021 hófst nýtt tímabil samstarfsáætlana ESB, en þessar áætlanir hafa fest sig í sessi meðal hagaðila hér á landi og skipta þá miklu máli. Þessar áætlanir eru Horizon Europe (rannsóknir og nýsköpun), Erasmus+ (menntun, æskulýðsmál og íþróttir) og Creative Europe (menning og kvikmyndagerð).

Rannís tók við rekstri Enterprise Europe Network, sem er mjög öflugt viðskiptatengsla- og tækniyfirfærslunet, sem leggur áherslu á að þjónusta lítil og meðalstór fyrirtæki auk háskóla og stofnana til að styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu sína. Rannís hefur jafnframt verið falin umsjón með tveimur áætlunum ESB sem Ísland tekur þátt í frá og með 2021, Digital Europe (notkun stafrænnar tækni) og LIFE áætluninni (umhverfis- og loftslagsbreytingar).

Greiðsla Íslands til þessara áætlana var tæplega 3 milljarðar króna á árinu 2021. Teknar voru saman upplýsingar um gengi Íslands í fjórum áætlunum ESB á tímabilinu 2014-2020, Horizon 2020, Erasmus+, European Solidarity Corps og Creative Europe. Í ljós kom að miðað við höfðatölu renna mun hærri upphæðir til Íslands en annarra Evrópulanda úr öllum fjórum áætlununum, en það endurspeglar mikinn metnað og áhuga hér á landi fyrir samstarfi við aðrar þjóðir Evrópu. Framlög til Íslands eru því vel umfram þau framlög sem Ísland leggur til áætlananna, þótt árangurinn sé fyrst og fremst mældur í aðgengi að þekkingu, nýsköpun og reynslu.

Auknum umsvifum Rannís og auknum kröfum samfélagsins hefur verið mætt með stóraukinni áherslu á upplýsingatækni. Áhersla er á umsóknakerfið, fagráðs- og umsýslukerfi og uppbyggingu greiðslukerfis. Allar upplýsingar fara nú í gegnum „Mínar síður“ Rannís. Á árinu var mikil áhersla á uppbyggingu Gagnatorgs Rannís til að auka gagnsæi og opna fyrir aðgang að gögnum um úthlutanir, tölfræðilegum gögnum auk þess sem hægt er að sækja upplýsingar um verkefni sem hafa fengið stuðning. Formleg opnun Gagnatorgs er snemma árs 2022.

Sjö sjóðir voru í umsýslu Rannís fyrir rúmum áratug, en í dag eru þeir vel á fjórða tuginn.

Miklar breytingar og auknar kröfur

Rannís hefur á undanförnum árum gengið í gegnum miklar breytingar, fjöldi starfsfólks hefur þrefaldast á undanförnum rúmum áratug, stofnuninni hafa verið falin mörg viðbótarverkefni, stærsta skrefið var þegar Rannís var falin umsjón með Erasmus+ og Creative Europe áætlununum. Sjö sjóðir voru í umsýslu Rannís fyrir rúmum áratug, en í dag eru þeir vel á fjórða tuginn, auk þess sem stærstu sjóðirnir, Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður, hafa eflst mikið. Alþjóðasamstarf hefur jafnframt aukist mikið, enda forsenda öflugrar þekkingarstarfsemi og bættrar samkeppnisstöðu Íslands.

Stjórnvöld hafa gert auknar kröfur til Rannís á þessum tíma, aukið fé til samkeppnissjóða og réttindasjóða, lagt aukna áherslu á alþjóðlegt samstarf og sýn stjórnvalda á mikilvægi rannsókna, menntunar og menningar fyrir samfélagið er skarpari en áður. Tvöföldun á framlögum til málaflokka sem Rannís hefur haft umsjón með frá því fyrir upphaf Covid-19 faraldursins mun hafa mikil áhrif á þróun hugvits- og þekkingargreina hér á landi.

Tekist hefur á undanförnum árum að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs, ekki síst að styrkja greinar sem Rannís leggur áherslu á. Þáttur hugvitsgreina í útflutningstekjum landsins hefur vaxið mikið á undanförnum árum og er með réttu talað um fjórðu stoð atvinnulífsins. Það er mjög ánægjulegt að sjá auknar útflutningstekjur af hugverkaiðnaði, en hlutur þeirra var á síðasta ári um 16%. Öflugur stuðningur við þessar greinar á undanförnum árum, ekki síst á síðastliðnum tveimur árum, er vísbending um að hugverkaiðnaður muni skipta miklu í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, grein sem ekki er háð náttúrulegum takmörkunum í framtíðinni.

Óhætt er að fullyrða að á undanförnum árum hafi tekist að byggja upp heilsteypta stofnun með góðum starfsanda og nánu samstarfi starfsfólks Rannís. Tekist hefur að auka skilvirkni í umsýslu verkefna og að bæta þjónustu við viðskiptavini, eins og sjá má í niðurstöðum þjónustukannana.

Tvöföldun á framlögum til málaflokka sem Rannís hefur haft umsjón með frá því fyrir upphaf Covid-19 faraldursins mun hafa mikil áhrif á þróun hugvits- og þekkingargreina hér á landi.

Forstöðumaður kveður stofnunina árið 2022

Undirritaður kveður Rannís á árinu 2022, ég vil því þakka starfsfólki frábært samstarf og fyrir að vera tilbúið til að takast á við breytingar og ný verkefni með þeim góða árangri sem fyrir liggur, þar sem stjórnvöld fela stofnuninni sífellt fleiri verkefni. Starfsfólk Rannís hefur lagt mikið af mörkum og þýðing þess fyrir samkeppnisstöðu íslensks samfélags er mikil.

Takk fyrir.

Hallgrímur Jónasson,
forstöðumaður Rannís