Útgáfu- og kynningarmál

Miðlun upplýsinga 

Rafræn miðlun upplýsinga skipar stór hlutverk í samskipta- og kynningarstarfi Rannís. Einnig er gefið út talsvert af prentuðu kynningarefni til að kynna starfsemi Rannís, sjóði og áætlanir.

Vefur Rannís

Vefur Rannís er grunnstoðin í samskiptamálum stofnunarinnar. Á vefnum er hægt að nálgast upplýsingar um starfsemi Rannís, auglýsingar um umsóknarfresti, úthlutunarfréttir, viðburði og kynningar og einnig allar upplýsingar um sjóði í umsýslu Rannís. Vefurinn var opnaður þann 3. apríl 2014 og hefur að mestu leyti haldist óbreyttur frá opnun en fékk þó smá andlitslyftingu árið 2021.

Á vefsíðu Rannís geta notendur vefsins nálgast allar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar og þá þjónustu sem hún veitir. Áhersla er lögð á að leit sé skilvirk og styðji hratt og örugglega við notandann. Hægt er að kalla fram upplýsingar á einfaldan og öruggan hátt um alla sjóði og verkefni í umsýslu Rannís, næstu umsóknarfresti og þá viðburði sem eru á döfinni.  

Vefurinn er uppfærður daglega og á forsíðu eru reglulega settar inn nýjar fréttir og upplýsingar um verkefni, sjóði og umsóknarfresti. Vefurinn hentar til skoðunar í öllum tækjum, hvort sem um er að ræða tölvuskjá, spjaldtölvu eða snjallsíma. Vefurinn er því öflug gátt inn í starfsemi stofnunarinnar. 

Á enska vef Rannís, er hægt að nálgast helstu upplýsingar um starfsemi Rannís sem og verkefni og sjóði í umsýslu Rannís á ensku. Vefurinn er ekki bein speglun af íslenska vefnum, heldur er þetta ritstýrð útgáfa sem veitir aðeins lykilupplýsingar á ensku.

Á Rannís vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um verkefni og þjónustu í umsýslu Rannís.

Það sem má helst nefna:

  • Rannís vefurinn var heimsóttur um 260.000 sinnum á árinu, af rúmlega 113.000 gestum. Alls var flett í gegnum rúmlega 735.000 síður
  • Í janúar voru flestar heimsóknir á Rannís vefinn; rúmlega 38.000 heimsóknir
  • Síða Tækniþróunarsjóðs fær flestar heimsóknir af sjóðasíðunum. Fast á hæla hans kemur Nýsköpunarsjóður námsmanna og svo Starfslaun listamanna. Alls fá þessir þrír sjóðir samtals um 11% heimsókna á vefinn
  • Enski vefurinn fékk yfir 33.000 heimsóknir á árinu
  • Erasmus+ vefurinn var heimsóttur rúmlega 35.000 sinnum á árinu 2021 af rúmlega 20.000 gestum. Alls var flett í gegnum rúmlega 107.000 síður
  • Fréttalestur er stór hluti heimsókna á vefinn eða um 12%
  • Þær þrjár fréttir sem mest voru lesnar voru um úthlutun úr Rannsóknasjóði, vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs og frétt um úthlutun listamannalauna
  • Stærsti hluti þeirra sem heimsækja vefinn er á aldrinum 25-34 ára eða rúmlega 26%
  • Yfir 35% umferðar fer í gegnum snjallsíma

Vefsvæði tengd sérverkefnum

Rannís heldur einnig utan um nokkur vefsvæði er tengjast sérverkefnum í umsjón stofnunarinnar. Farabara,  er vefur sem veitir upplýsingar um námsmöguleika erlendis. Landsskrifstofa Erasmus+ heldur úti sér vefsvæði fyrir Erasmus+ áætlunina, en þar eru veittar upplýsingar um áætlunina og verkefni tengd henni (þ.á.m. European Solitarity Corps). Á vefsvæði Vísindavöku er hægt að nálgast allar upplýsingar og viðburði sem tengjast Vísindavöku á Íslandi. Rannís heldur utan um Eurodesk síðuna sem veitir ungu fólki upplýsingar um ýmis tækifæri sem þeim býðst á erlendri grundu. Ennfremur þjónustar starfsfólk Rannís íslenskan hluta fjölmargra alþjóðlegra vefsvæða er tengjast fjölmörgum verkefnum í umsýslu Rannís.

Á Erasmus+ vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um áætlunina og verkefni tengd henni.

Samfélagsmiðlar 

Samfélagsmiðlar voru nýttir í auknum mæli til þess að auka sýnileika, koma skilaboðum á framfæri, opna fyrir samskipti og styðja við virkni heimasíðunnar.

Facebook: Rannís heldur úti nokkrum Facebook síðum. Á Rannís síðuna er deilt fréttum af vef Rannís og helstu viðburðum á vegum stofnunarinnar. Einnig halda nokkur verkefni sem eru í umsýslu Rannís úti sér síðum, sbr. Erasmus+, Nýsköpunarsjóður námsmanna Tækniþróunarsjóður, Europass, Epale Ísland, Creative Europe Desk á Íslandi, Vísindavaka, eTwinning á Íslandi, og Eurodesk Ísland.

LinkedIn: Rannís er með LinkedIn síðu og deilir þar fréttum af vef Rannís og helstu viðburðum á vegum stofnunarinnar. Einnig eru Tækniþróunarsjóður og Enterprise Europe Network með sér síður á LinkedIn.

Twitter: Rannís heldur úti Twitter reikningi þar sem deilt er helstu fréttum og viðburðum. Nokkur verkefni í umsjón Rannís halda einnig úti sér Twitter reikningum, sbr. Erasmus+ menntun, Creative Europe, eTwinning, Nýsköpunarsjóður námsmanna, Vísindavaka, IASC, Tækniþróunarsjóður og Epale Ísland.

Instagram: Rannís er með prófíl á Instagram. Þrjú verkefni í umsjón Rannís eru einnig með sér Instagram prófil; Eurodesk Ísland, Erasmus+ og Vísindavaka.

Það sem má helst nefna:

  • Rannís heldur utan um 9 Twitter reikninga
  • Rannís heldur utan um 10 Facebook reikninga
  • Fylgjendur Rannís reikningsins á Facebook eru 3.227
  • Fylgjendur Erasmus+ reikningsins á Facebook eru 5.221
  • Alls sáu 130.283 manns færslur á Rannís reikningnum á Facebook árið 2021
  • Færslur á Facebook síðu Rannís voru samtals 283 á árinu 2021 eða rúmlega 5 færslur á viku

Myndbönd í kynningarstarfi

Rannís heldur úti Youtube rás þar sem birt eru ýmis myndbönd sem tengjast starfseminni. Erasmus+ verkefnið heldur úti sér Youtube rás þar sem kynntir eru þeir möguleikar sem standa til boða í áætluninni og tengdum verkefnum. Einnig má geta þess að fjölmörg myndbönd eru einnig aðgengileg á Facebook reikningum stofnunarinnar sem og á vef.

Rannís lét útbúa kynningarmyndbönd um Tækniþróunarsjóð, Enterprise Europe Network og skattfrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna auk þess sem gerð voru árangursmyndbönd um verkefni sem styrkt hafa verið af þessum sjóðum.

Landskrifstofa Erasmus+ og stoðverkefni áætlunarinnar létu útbúa nokkur myndbönd á árinu. Sum myndbandanna voru hönnuð af grafískum hönnuði og voru ætluð til að vekja athygli á áætlununum og stoðverkefnunum á upplýsandi hátt, en önnur styttri myndbönd voru einnig framleidd af starfsfólki Rannís fyrir samfélagsmiðlaauglýsingar.

Dæmi um kynningarmyndbönd:

Rafrænar útsendingar á póstlista 

Reglulega eru sendar út tilkynningar á póstlista Rannís. Á þá sem eru skráðir á póstlistann eru fyrst og fremst sendar út áminningar um áhugaverða viðburði en einnig upplýsingar um umsóknarfresti framundan sem og auglýsingar um tilnefningar til verðlauna og fleira.

Hægt er að skrá sig á póstlistann á vefsíðu Rannís og voru áskrifendur árið 2021 rúmlega 3.000. Við skráningu á póstlistann er hægt að velja um sjö ólíka markhópa eftir áhugasviðum áskrifenda.

Auðvelt er að skrá sig af póstlistanum og uppfæra upplýsingar til samræmis við persónuverndarlög.

Alls voru sendir út 30 markpóstar, í rúmlega 50.000 útsendingum, á póstlistann árið 2021 á mismunandi markhópa; boðsbréf á viðburði, áminningar um umsóknarfrestir, fréttabréf og fleira.

Skráning á póstlista Rannís

Sýnileiki í fjölmiðlum 

Starfsemi Rannís var vel sýnileg í fjölmiðlum árið 2021. Alls var fjallað um Rannís í rúmlega 700 fréttum/greinum. Þar af voru 339 í netmiðlum, 213 í prentmiðlum og 10 í sjónvarpi/útvarpi. Fréttir af Rannís fá talsvert góða útbreiðslu á samfélagsmiðlum. Vísað var í nafn Rannís um 339 sinnum á árinu og voru heildartengingar við Facebook rúmlega 55.000. Það sem helst vekur athygli fjölmiðla eru stórar úthlutanir til ákveðinna verkefna, svo sem úr Tækniþróunarsjóði, Rannsóknasjóði, Erasmus+, Barnamenningarsjóði Íslands, Jafnréttissjóði Íslands og til Listamannalauna. Í tengslum við það beinast þá sjónir fjölmiðla að framúrskarandi verkefnum sem unnið hafa styrki úr sjóðum sem heyra undir Rannís. Einnig vöktu athygli veiting viðurkenninga eins og Nýsköpunarverðlauna Íslands og Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Áhugavert er að fréttir sem sneru að Listamannalaunum fengu enn og aftur mesta athygli fjölmiðla á árinu.

Prentgripir, prentað kynningarefni og skýrslur

Eitthvað var gefið út af prentuðu kynningarefni og prentgripum fyrir viðburði og til að kynna sjóði og áætlanir. Prentaðir voru nokkrir bæklingar fyrir markhópa Erasmus+ áætlananna og stoðverkefna, annars vegar fyrir stofnanir á þremur sviðum (leik- og grunnskólar, framhaldsskólar og æskulýðsstarf) sem og bæklingar fyrir ungt fólk um tækifæri erlendis. Einnig voru reglulega birtar auglýsingar í blöðum þar sem vakin var athygli á viðburðum og auglýst eftir umsóknum í innlenda sjóði. Tvær skýrslur voru gefnar út í prentformi: Þátttaka Íslands í áætlunum ESB 2014-2020 og Ársskýrsla Rannís fyrir árið 2020.