Starfsemi og skipulag

Mennta- og menningarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar og fer með umsýslu alþjóðlegra áætlana og innlendra sjóða sem veita styrki til íslensks mennta-og menningarsamfélags, auk þess sem það rekur upplýsingaveitur um tækifæri til náms og starfa erlendis. Það sinnir auk þess upplýsingaþjónustu og stuðningi við stefnumótun í mennta- og menningarmálum.

Nýtt tímabil samstarfsáætlana ESB

Nýtt tímabil samstarfsáætlana ESB, bætt skilvirkni í umsýslu innlendra sjóða og áframhaldandi áskoranir í tengslum við Covid-19 faraldurinn, eru þau atriði sem helst einkenndu starfsárið á mennta- og menningarsviði Rannís. Skipulagsbreytingar sem gerðar voru laust fyrir áramót gengu vel á sviðinu og þótt faraldurinn hafi vissulega haft mikil áhrif, má segja að öflugri teymisvinna og ákveðin reynsla þegar kemur að fjarvinnu og fjarfundum, séu að vissu leyti jákvæð áhrif Covid tímans á vinnumenningu sviðsins. Starfsfólk var fljótt að tileinka sér nýtt vinnulag og tæknikunnáttu til að hægt væri að halda uppi góðri þjónustu og bæta skilvirkni í nýjum veruleika, jafnframt því að sýna sveigjanleika í þeim aðstæðum sem sköpuðust, hvort sem um var að ræða seinkun á innleiðingu nýrra áætlana, áskoranir vegna faraldursins eða viðbrögð við eldgosi.

Ný kynslóð evrópskra samstarfsáætlana tók við á árinu til næstu sjö ára (2021-2027) og fór mikil vinna í undirbúning þeirra, en mennta- og menningarsvið hefur umsjón með þremur samstarfsáætlunum ESB; Erasmus+ á sviði menntunar, æskulýðsmála og íþrótta, European Solidarity Corps fyrir sjálfboða- og samfélagsverkefni ungs fólks og Creative Europe á sviði menningar og kvikmyndagerðar. Undirbúningur hafði dregist nokkuð þar sem samþykkt fjárlaga ESB frestaðist ítrekað og því seinkaði innleiðingu áætlananna um alla Evrópu. Samhliða því að læra nýjar reglur og kynna ný tækifæri, þurfti starfsfólk að veita aukna þjónustu vegna breyttra forsendna í alþjóðasamstarfi vegna faraldursins, auk þess sem eldgos á Reykjanesi varð þess valdandi að sýna þurfti enn meiri sveigjanleika og getu til að bregðast hratt við. Eftir að hafa frestað opnunarhátíð nýrra áætlana vegna samkomutakmarkana, var hún loks haldin 15. apríl í streymi frá Borgarleikhúsinu og þar tók þátt starfsfólk sviðsins sem er í forsvari fyrir samstarfsáætlanirnar, ásamt styrkþegum sem mættu til að segja frá góðum árangri.

Nordplus

Ágætlega gekk í rekstri Nordplus, menntaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar, þótt norrænt samstarf hafi ekki farið varhluta af áhrifum Covid-19 faraldursins. Mennta- og menningarsvið Rannís fer nú með yfirumsjón með Nordplus fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna auk þess að fara með umsýslu tungumálaáætlunarinnar, sem er ein af fimm undiráætlunum Nordplus. Þar þurfti áfram að bregðast við áskorunum í rekstri verkefna og leita leiða til að veita sem mestan sveigjanleika til að hægt væri að nýta styrki og ljúka verkefnum farsællega. Umsóknum fækkaði töluvert milli ára, en 331 umsókn barst innan reglubundins umsóknarfrests Nordplus, samanborið við 500 umsóknir árið áður, sem er 34% fækkun, sem skýrist fyrst og fremst af áhrifum faraldursins. Mest var fækkunin í skóla- og háskólahlutum áætlunarinnar á meðan fullorðinsfræðsla, norræn tungumál og þverfaglegt samstarf héldu sínum hlut nokkuð vel.

Í kjölfar kosninga á haustmánuðum var mennta- og menningarmálaráðuneytinu skipt upp, þannig að málaflokkar sviðsins falla nú undir fjögur ráðuneyti.

Tveir nýir innlendir sjóðir og fjögur ráðuneyti

Þegar kemur að innlendum verkefnum mennta- og menningarsviðs, bættust tveir sjóðir við á árinu, Bókasafnasjóður í upphafi árs og Sprotasjóður í árslok, þannig að sviðið hefur nú umsjón með fjórtán innlendum sjóðum á sviði menntunar, menningar, æskulýðsmála og íþrótta. Teymi innlendra sjóða vann ötullega að því að straumlínulaga enn frekar alla ferla í kringum umsýslu sjóðanna með það að markmiði að bæta skilvirkni og þjónustu gagnvart umsækjendum, sjóðsstjórnum og ráðuneyti.

Í kjölfar kosninga á haustmánuðum var mennta- og menningarmálaráðuneytinu skipt upp, þannig að málaflokkar sviðsins falla nú undir fjögur ráðuneyti. Nýtt skipulag er vissulega áskorun og er mikilvægt að leita leiða til að tryggja áframhaldandi samlegð og góða þjónustu í hvívetna og nýta nýjar hugmyndir til góða í starfi mennta- og menningarsviðs.

Framundan eru ný tækifæri til alþjóðasamstarfs undir nýrri kynslóð samstarfsáætlana ESB, auk þess sem mikil sóknarfæri eru í norrænu samstarfi innan málaflokka sviðsins. Einnig verður spennandi að fylgjast með hvernig hægt er að auka skilvirkni í umsýslu innlendra sjóða með góðum hugmyndum frábærs starfsfólks, sem hefur hæfileika og vilja til að bæta þjónustu við viðskiptavini með nýsköpun í starfi.

Það sem má helst nefna:

  • Ný kynslóð evrópskra samstarfsáætlana tók við á árinu til næstu sjö ára (2021-2027)
  • Opnunarhátíð nýrra áætlana var haldin 15. apríl í streymi frá Borgarleikhúsinu
  • Mennta- og menningarsvið Rannís fer með yfirumsjón með Nordplus fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna
  • Sviðið hefur umsjón með 14 innlendum sjóðum
  • Rúmlega 1.000 matsmanna og stjórnarmanna unnu í fagráðskerfinu