Alþjóðlegt samstarf

Evrópskt og norrænt samstarf

Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar er mjög umfangsmikið í starfsemi Rannís og mikilvægur þáttur í daglegu starfi.

Appelsínugulur viti við ströndina

Evrópskt og norrænt samstarf er veigamesti þátturinn og hefur hlutverk Rannís þróast í þá átt að vera helsti þjónustuaðilinn á Íslandi við formlegt alþjóðlegt samstarf á málefnasviðum stofnunarinnar.

Árið 2022 komst alþjóðlegt samstarf nokkurn veginn í jafnvægi eftir heimsfaraldurinn, en ljóst er að hann hefur haft áhrif á skipulag þess til framtíðar. Bylting varð í notkun tækni til fundarhalda sem mun leiða til enn meiri sveigjanleika varðandi þátttöku í alþjóðastarfi og tilheyrandi sparnaðar í ferðakostnaði. Allt árið fór mikil vinna í að koma gangi samstarfsáætlana og verkefna á réttan kjöl, ljúka verkefnum sem höfðu verið framlengd vegna faraldursins og endurskipuleggja kynningarstarf á nýjum tækifærum í alþjóðastarfi, einkum í ljósi þess að ný kynslóð Evrópuáætlana hófst í miðjum faraldri..

Fáni Evrópusambandsins á fánastöng

Evrópskar samstarfsáætlanir

Rannís hefur umsjón með sjö helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samningsins:

  • Horizon Europe, rannsóknir og nýsköpun
  • Erasmus+, menntun, æskulýðsmál og íþróttir
  • European Solidarity Corps, sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni ungs fólks
  • Creative Europe, menning og kvikmyndir
  • Digital Europe, stafræn tækni
  • LIFE, umhverfismál og loftslagsbreytingar
  • Uppbyggingarsjóður EES, rannsóknir og nýsköpun, menntun og menning
  • Horizon Europe er stærsta alþjóðlega samstarfsáætlunin sem Ísland tekur þátt í og jafnframt stærsta rannsókna- og nýsköpunaráætlun heims, með um 95 milljarða evra til úthlutunar á tímabilinu 2021-2027. Markmið áætlunarinnar er að Evrópa verði leiðandi afl í rannsóknum og nýsköpun á heimsvísu, og styrkir áætlunin allt frá grunnrannsóknum til tækniþróunar og áhersla er lögð á að fjárfesting í vísindum og nýsköpun skili sér til samfélagsþróunar og betri lífsskilyrða í Evrópu. Hlutverk Rannís í Horizon Europe er að vera tengiliður áætlunarinnar við íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag með því að reka starf landstengla sem miðla upplýsingum, veita aðstoð og þjónustu við umsóknarferlið, halda námskeið og fleira. Rannís heldur úti öflugri fréttaveitu á horizoneurope.is og á samfélagsmiðlum þar sem helstu fréttum og upplýsingum um Horizon Europe frá framkvæmdastjórn ESB er miðlað áfram til Íslendinga. Einnig veittu landstenglar Rannís töluverða einstaklingsmiðaða ráðgjöf til mögulegra umsækjenda á árinu og héldu kynningar í stofnunum og fyrirtækjum. Rannís heldur jafnframt utan um stjórnarnefndarstarf Horizon Europe í umboði ráðuneytis, og funduðu stjórnarnefndir og landstengiliðir reglulega á árinu.

    Samstarf landstengla Horizon Europe 

    Rannís tekur virkan þátt í evrópskum samstarfsnetum landstengla ýmissa undiráætlana Horizon Europe, en verkefnin miða að því að styðja við og styrkja samstarf landstengla, fræða þá um áætlunina og bæta færni þeirra svo þeir geti veitt umsækjendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum betri þjónustu. Samstarfsaðilarnir eru systurstofnanir í öllum þátttökulöndum Horizon Europe, en stofnanirnar skiptast á að leiða samstarfið. Á árinu 2022 var Rannís með virka þátttöku í um 11 samstarfsnetum landstengla og sinnir þar margvíslegum verkum.

  • Starfsemi Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) tók á sig hefðbundnari mynd á árinu eftir óvenjulegt tímabil heimsfaraldurs. Sérstök áhersla var lögð á heimsóknir út á land, sem gáfu starfsfólki tækifæri til að kynna evrópska styrki og eiga samtöl við fólk sem kemur að mennta- og æskulýðsmálum í sinni heimabyggð. Hér má nefna heimsóknir til Akureyrar, Egilsstaða, Húsavíkur og Grundarfjarðar, en á síðastnefnda staðnum fór fram kynning á pólsku til viðbótar við þá íslensku. Á öllum stöðunum var afar vel tekið á móti starfsfólki Landskrifstofunnar og mæting góð. Þar að auki fóru fram um tuttugu kynningarfundir í tengslum við umsóknarfresti áætlananna á árinu, ýmist í Reykjavík eða á netinu.

    Árið var helgað ungu fólki í Evrópu (European Year of Youth) og var markhópurinn einnig í brennidepli hér á landi sem og um alla álfuna. Sérstök vefsíða tileinkuð Evrópuári unga fólksins var sett í loftið í apríl og fylgt eftir með herferð á samfélagsmiðlum. Ýmsir viðburðir settu sitt mark á árið, svo sem yfirtaka ungra Íslendinga í Brussel á Instagram, viðburðarstyrkir sem runnu til 18 grasrótarsamtaka á sviði æskulýðsmála, auglýsingar á strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins, „Vísinda-Slamm“ í Stúdentakjallaranum í tengslum við Vísindavöku Rannís og sumarveisla í Laugardalslaug. Lokaviðburður Evrópuársins var svo kynningarpartý, sem haldið var í Stúdentakjallanaum 5. desember, en sá dagur er tileinkaður sjálfboðaliðum í Evrrópu.

    Innrás Rússa í Úkraínu setti sitt mark á framkvæmd samstarfsáætlananna og Evrópusambandið lagði mikla áherslu á að þær þyrftu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja við fólk á flótta. Landskrifstofan setti upp sérstaka undirsíðu um áhrif stríðsins á Erasmus+ og ESC innan við viku eftir innrásina sem gerði umsækjendum og styrkhöfum kleift að bregðast við stöðunni, sér í lagi þeim sem starfa með aðilum í Rússlandi eða Úkraínu eða stefndu á slíkt samstarf. Nýjar reglur í áætlununum gera íslenskum verkefnisstjórum kleift að veita fólki á flótta frá Úkraínu styrki á sveigjanlegri hátt en áður. Einnig hefur verið tilkynnt um sérstakt forgangsatriði í samstarfsverkefnum sem gengur út á að styðja við þennan hóp, enda er það stórt og mikilvægt verkefni að tryggja að evrópskt mennta- og æskulýðssamfélag sé í stakk búið til að mæta þörfum þess mikla fjölda sem nú flýr stríð og átök.

    Kynningarefni. Ung kona situr í skólastofu, texti á mynd: Evrópuár Unga fólksins, þín sýn, þín rödd

    Mynd: Dæmi um kynningarefni á vef og samfélagsmiðlum fyrir Evrópuár unga fólksins

  • Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styrkja evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt, og eru í umsjón framkvæmda­stjórnar­ ESB.

    DiscoverEU

    Fyrir nokkrum árum fengu tvö þýsk ungmenni frábæra hugmynd eftir að hafa ferðast um Evrópu með lestarpassa. Þau töldu að það gæti aukið umburðarlyndi ef fleira ungt fólk hefði tækifæri til að kynnast betur þvert á landamæri, tungumál og menningu. Út frá þessari hugmynd fæddist frumkvæðisverkefnið DiscoverEU.

    DiscoverEU leit dagsins ljós árið 2018 og yfir 100.000 18 ára ungmenni tóku þátt í allra fyrsta útdrætti happdrættisins. 15.000 ungmenni fengu 30 daga lestarpassa sem þau gátu notað nánast ótakmarkað á evrópskum lestarleiðum. Fyrir mörg var þetta fyrsta ferðalagið til útlanda án fullorðinna og mörg sögðu frá því að hafa eignast nýja vini, orðið betri í tungumálum og aukið sjálfstraust sitt. Það kostar ekkert að taka þátt í happdrættinu sem fer fram tvisvar á ári en ferðalangar fá afsláttarkort fyrir gististaði sem þeir þurfa að bóka sjálfir. Árið 2022 var DiscoverEU fært undir Erasmus+ áætlunina og því gefst ungmennum á Íslandi einnig tækifæri til að taka þátt í happdrættinu. Þau sem vinna fá tækifæri til að skoða heimsálfuna á umhverfisvænan hátt og þar sem við erum búsett á eyju fá þátttakendur frá Íslandi einnig flugmiðann til og frá meginlandinu.

    Sérstakur umsóknarfrestur er einu sinni á ári fyrir þau sem telja sig þurfa auka stuðning til að geta tekið þátt. Inngildingarátakið DiscoverEU Inclusion Action veitir möguleika á að sækja um fjármagn fyrir þessum auka stuðningi, sem gæti m.a. falið í sér kostnað vegna fylgdarmanneskju, flutning á búnaði eða öðrum kostnaði fyrir þau sem að öðrum kosti gætu ekki tekið þátt. Hægt er að sækja um DiscoverEU Inclusion Action fyrir einstaklinga eða allt að fimm manna hópa (auk fylgdarfólks).

    EPALE - samstarf í fullorðinsfræðslu

    EPALE er evrópsk vefgátt á sviði fullorðinsfræðslu fyrir kennara, leiðbeinendur, stefnumótunaraðila og annað fagfólk, um formlega eða óformlega fræðslu fullorðinna nemenda, 18 ára og eldri. EPALE styður við framkvæmd Erasmus+ áætlunarinnar.

    Hægt er að velja íslenskt viðmót á EPALE vefnum og setja inn efni, blogga og eiga samskipti á íslensku. Þar eru ákveðin þemu tekin fyrir árlega og árið 2022 var deilt fjölbreyttu efni m.a. um lærdómssamfélög, ungt fólk, færni, sköpun og menningu svo nokkuð sé nefnt.

    Hægt er að fylgjast með þróun kennsluhátta í fullorðinsfræðslu á EPALE, finna samstarfsaðila í Evrópuverkefni og tækifæri til starfsþróunar starfsfólks í fullorðinsfræðslu, s.s. námskeið og ráðstefnur. Með EPALE er hægt að fylgjast með fréttum, taka þátt í umræðum og deila reynslu sem nýtist fagfólki í fullorðinsfræðslu um alla Evrópu. Fréttabréf á íslensku birtist reglulega á EPALE vefnum og margvíslegar fréttir eru einnig birtar á Facebook-síðunni EPALE Ísland. Norrænt samstarf hefur verið farsælt innan EPALE og þar standa Norðurlöndin saman að því að vekja athygli á efni um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum.

    Sjö konur standa í fundarherbergi fyrir myndatöku

    Mynd: Facebook síða Epale Ísland, „Sérfræðingar EPALE og ambassadorar styðja faglega við íslenska vefinn með þátttöku þar og ábendingum um efni. Sérfræðingarnir hittast auk þess tvisvar á ári og fara yfir helstu nýjungar á vefnum, ræða EPALE þemu, skoða námskeið sem eru í boði á netinu og margt fleira. Í þetta sinn var m.a. fylgst með EPALE samfélagsráðstefnunni í beinu streymi.“

    eTwinning - rafrænt skólasamstarf

    Evrópska samstarfsnetið eTwinning tengir nemendur og kennara víðs vegar um Evrópu saman í rafrænt samstarf. Verkefnin eru af ýmsum toga og styður landskrifstofa eTwinning á Íslandi við íslenska kennara og nemendur í starfinu.

    Á árinu rann eTwinning saman við námsgagnavefinn School Education Gateway í European School Education Platform. Samruninn hefur ekki gengið áfallalaust og þá helst á kostnað eTwinning. Engu að síður hlutu 11 verkefni stimpilinn gæðaverkefni eTwinning árið 2022. Síðastliðin ár hafa þrettán íslenskir skólar hlotið nafnbótina „eTwinning-skóli“, sem veitt er til tveggja ára. Vegna samrunans var viðurkenning fryst af miðlægri stjórn eTwinning og fer aftur af stað árið 2023. Á árlegu eTwinning-ráðstefnunni sem haldin var rafrænt í október, voru 500 þátttakendur og mættu tveir kennarar fyrir Íslands hönd ásamt starfsmönnum Landskrifstofu Erasmus+. Þá sendi íslenska eTwininng landskrifstofan kennara og sendiherra sína á ráðstefnur í Helsinki, Esbjerg og Brugge á árinu.

    Eurodesk - upplýsingaveita fyrir ungt fólk

    Hlutverk Eurodesk er að styðja við Erasmus+ áætlunina með því að gera upplýsingar um þau tækifæri sem felast í Erasmus+ og European Solidarity Corps áætlununum aðgengilegar fyrir ungt fólk og þau sem vinna með þeim. Eurodesk vekur athygli á möguleikum til náms, starfsþjálfunar og sjálfboðaliðastarfa ásamt því að veita ungu fólki hlutlausar og ókeypis upplýsingar. Eurodesk starfar víðsvegar um Evrópu og getur Eurodesk samstarfsnetið, sem tengist yfir 1.600 staðbundnum æskulýðsmiðstöðvum í 36 Evrópulöndum, verið gífurlega verðmætt tól til að finna samstarfsaðila fyrir íslensk Erasmus+ og European Solidarity Corps verkefni.

    Eurodesk á Íslandi skipuleggur ýmsa viðburði í samstarfi við landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, m.a. kynningar þar sem framhaldsskólar víðsvegar á landinu eru heimsóttir ásamt því að halda hugmyndasmiðjur fyrir æskulýðstarfsfólk. Árið 2022 eignaðist Eurodesk á Íslandi í fyrsta sinn fulltrúa í framkvæmdaráði Eurodesk þegar verkefnastýra Eurodesk Iceland var kosin í ráðið til tveggja ára.

    Euroguidance - evrópsk miðstöð náms- og starfsráðgjafar

    Euroguidance hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessu samhengi er náms- og starfsráðgjöf séð sem tæki til að auka möguleika fólks til að læra og vinna í öðrum löndum Evrópu. Euroguidance hélt upp á 30 ára afmæli sitt í ár og vakti athygli á því með sérútgáfu af mánaðarlegu fréttabréfi sínu auk margvíslegra viðburða víðsvegar um Evrópu. Í lok nóvember var fyrsta alþjóðlega ráðstefna Euroguidance haldin í Prag í Tékklandi, en auk þess var möguleiki á að taka þátt í gegnum vefinn, og nýttu átta íslenskir náms- og starfsráðgjafar sér þann möguleika. Félag náms- og starfsráðgjafa fékk stuðning við að halda sinn árlega dag náms- og starfsráðgjafa sem í ár var heil ráðstefna haldin á Akureyri. Netnámskeið fyrir náms- og starfsráðgjafa á vegum Euroguidance á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum var haldið einu sinni á vorönn og aftur á haustönn og sýndu íslenskir náms- og starfsráðgjafar því mikinn áhuga og færri komust að en vildu.

    30 ára afmælismerki Euroguidance

    Europass - rafræn hæfnismappa

    Europass er rafræn menntunar- og hæfnismappa sem er fyrst og fremst ætlað að aðstoða fólk við að sækja nám eða störf erlendis í lengri eða skemmri tíma. Um mitt ár voru tvö ár síðan hin nýja Europass vefgátt var opnuð og vakin var athygli á því með sérstakri markaðsherferð um alla Evrópu. Nú hafa yfir 4,4 milljónir aðganga verið stofnaðir á Europass vefsíðunni og þeim fer ört fjölgandi með um 2 milljónum heimsókna á mánuði að meðaltali. Árið 2022 voru að meðaltali 20 Europass aðgangar stofnaðir á Íslandi mánaðarlega, og síðan var heimsótt 500 sinnum í mánuði af íslenskum notendum. Europass verkefnið stóð að margvíslegum kynningum á árinu með það að markmiði að ná út til ungs fólks og þeirra sem standa utan við vinnumarkaðinn. Til að leggja sitt af mörkum og mæta aukinni þörf vegna stríðsins í Úkraínu bættist úkraínska við sem tungumál í Europass og er hún því nú fáanleg á 30 tungumálum. Europass vefsíðan og sú þjónusta sem þar er boðið upp á er auk þess í stöðugri þróun með auknum möguleikum, t.d. geta einstaklingar nú leitað að sérhæfðum náms- og starfstækifærum í Evrópu út frá sinni hæfni og kunnáttu.

    Evrópsk samvinna um raunfærnimat á háskólastigi

    Í apríl hóf göngu sína nýtt stefnumótandi Erasmus+ verkefni sem ætlað er að styðja stjórnvöld á Evrópska háskólasvæðinu við að ná markmiðum Bologna ferlisins. Það ber heitið INterconnection/INnovation/INclusion (3-IN-AT-PLUS) og er stýrt frá Austurríki en Rannís hefur verið falið að hafa umsjón með verkefninu fyrir Íslands hönd í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og ENIC/NARIC á Íslandi.

    Þátttaka Íslands snýr að raunfærnimati á háskólastigi, sem gengur út á að greina og viðurkenna færnina sem fólk ávinnur sér með óformlegum hætti, til dæmis með reynslu á vinnumarkaði. Ef sú færni fellur að lærdómsviðmiðum háskólanáms getur raunfærnimat leitt til þess að hún sé metin til ECTS eininga. Þannig er nemandanum ekki gert að læra sama hlutinn tvisvar.

    Innleiðing raunfærnimats í íslenskum háskólum er enn skammt á veg komin og mikilvægt er að tryggja gæði, sameiginlegan skilning og samræmda nálgun þegar háskólar eru að þróa ferla sína. Þátttaka Íslands í 3-IN-AT-PLUS færir fólki sem starfar við raunfærnimat á háskólastigi hér á landi aukin tækifæri til að tengjast evrópsku samstarfsfólki og deila reynslu, góðum aðferðum og áskorunum með þeim. Settir verða á laggirnar vinnuhópar í löndunum sem taka þátt – Austurríki, Svíþjóð, Írlandi, Íslandi, Króatíu og Þýskalandi – sem munu tengjast hver öðrum og vinna saman.

    Landstengiliður um fullorðinsfræðslu

    Landstengiliður um fullorðinsfræðslu (European Agenda for Adult Learning) er samstarf fyrir alla þá sem koma að stefnumótun í menntun fullorðinna, ráðuneyti og aðra hagaðila. Verkefnið er hluti af samráði um menntun fullorðinna sem miðar að því að auka aðgengi þeirra að menntun. Stærsti markhópurinn á Íslandi er fólk með litla formlega menntun sem getur ef til vill stytt sér leið í námi með raunfærnimati. Þá er fólki sem stendur höllum fæti, t.d. vegna fötlunar eða lítillar kunnáttu í íslensku veitt sérstök athygli.

    Starfsmenntahópur Erasmus+ (National VET Teams)

    Starfsmenntahópur Erasmus+ er sérstakt verkefni innan Erasmus+ áætlunarinnar sem hefur það að markmiði að efla alþjóðastarf í starfsmenntun og þátttöku í Erasmus+ verkefnum. Hópurinn veitir alþjóðafulltrúum, helstu starfsmenntaskólum landsins ásamt öðrum sem bjóða upp á starfsnám stuðning þar sem áhersla er lögð á jafningjafræðslu og að deila reynslu og þekkingu. Fulltrúar starfsmenntahópsins eru þrír og koma úr röðum styrkþega Erasmus+.

    Árið 2022 stóð starfsmenntahópurinn fyrir landsfundi alþjóðafulltrúa sem stýra Erasmus+ náms- og þjálfunarverkefnum. Á fundinum var lögð áhersla á framkvæmd slíkra verkefna. Einstaklingar með mikla reynslu í náms- og þjálfunarverkefnum deildu reynslu sinni og gáfu góð ráð varðandi stjórnun og framkvæmd. Rannsókn sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands gerði fyrir Rannís var kynnt en þar var upplifun Erasmus+ nema í starfsþjálfun skoðuð. Niðurstöður hennar voru almennt mjög jákvæðar og sýna að Erasmus+ starfsþjálfun er frábært tækifæri fyrir nemendur og nýútskrifaða sem eru að læra verknám í framhaldsskólum.

  • Creative Europe, kvikmynda- og menningaráætlun ESB, styrkir skapandi greinar og eflir menningarlega fjölbreytni á sviði kvikmynda, lista og menningar. Hún skiptist í tvo hluta, annars vegar MEDIA sem veitir styrki til kvikmynda og margmiðlunar og hins vegar menningarhluta, þar sem hægt er að sækja um styrki til margvíslegs samstarfs á sviði evrópskrar menningar og menningararfleifðar.

    Creative Europe – MEDIA

    Íslenskt kvikmyndagerðarfólk stóð sig með mikilli prýði á árunum 2021 og 2022. Fyrri hluti ársins 2021 fór í undirbúning að nýrri áætlun, en ný kynslóð Creative Europe mun gilda 2021-2027, eins og aðrar samstarfsáætlanir ESB sem Rannís hefur umsjón með.

    Á árinu 2021 voru sendar inn ellefu umsóknir með íslenskri þátttöku og fengu fimm þeirra úthlutun, sem tilkynnt var um á árinu 2022.

    Árið 2022 voru sendar inn sjö umsóknir með íslenskri þátttöku og hlutu tvær þeirra styrk.

    Samtals hlaut íslenskt kvikmyndagerðarfólk 1.154 þúsund evrur í styrki úr MEDIA hluta Creative Europe á árinu, eða tæpar 180 m.kr..

    Styrkirnir voru til þróunar á átta íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum, auk þess sem einn framleiðslustyrkur barst til framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF fékk styrki fyrir bæði árin 2021 og 2022 og einn styrkur barst til dreifingaraðila til að mæta kostnaði við sýningu á evrópskum kvikmyndum hér á landi.

    Hæsta styrkinn á árinu fékk framleiðslufyrirtækið Polarama, 500 þúsund evrur, til framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar sem heitir „Home is where the heart is“.

    Á seinni hluta ársins 2022 bárust fjórar umsóknir til MEDIA og voru niðurstöður kynntar í febrúar 2023.

    Creative Europe – Menning

    Nítján íslenskir aðilar tóku þátt í Creative Europe umsóknum um menningarsamstarf á árinu, fimm umsóknir voru sendar inn með íslenskum stjórnendum og fjórtán lista- og menningarstofnanir/fyrirtæki tóku þátt í umsóknum um verkefni sem leidd eru af evrópskum samstarfsaðilum. Tvær umsóknir fengu jákvæða niðurstöðu og hlutu styrki. Baskasetrið á Djúpavík fékk 200.000 evrur fyrir samstarfsverkefni með Spánverjum og Frökkum sem miðar að því að miðla sameiginlegum baskneskum menningararfi landanna þriggja til almennings. Reykjavíkurborg tekur þátt í hinu verkefninu sem er samstarfsnetið The European Music Business Task Force og fær verkefnið tæpar 22.000 evrur í sinn hlut.

  • LIFE fjármagnar verkefni sem takast á við umhverfismál og loftslagsbreytingar og skiptist áætlunin í fjögur áherslusvið: loftslagsbreytingar, náttúru og líffræðilega fjölbreytni, hringrásarhagkerfið og orkuskipti. Með þátttöku Íslands í LIFE áætluninni gefst aðilum hér á landi kostur á að sækja um styrki til umhverfisverkefna og veitir Rannís margvíslegan stuðning til þeirra sem hyggjast sækja um. Sem dæmi má nefna:

    • Kynningar á áætluninni
    • Fundir með mögulegum umsækjendum og umsækjendum til að kynna áætlunina og veita ráðgjöf
    • Fræðsla um gerð umsókna
    • Miðlun og upplýsingagjöf
    • Skimun eftir tækifærum til sóknar í sjóði

    Auk þess situr fulltrúi Rannís í stjórnarnefnd áætlunarinnar og tekur þátt í Net4LIFE, sem er samstarfsnet landstengiliða LIFE víðsvegar í Evrópu. Skrifað var undir einn styrksamning á Íslandi vegna umsóknar í LIFE árið 2022, og á árinu var fulltrúum eins verkefnis til viðbótar boðið til viðræðna um undirritun samnings.

    Life logo
  • Digital Europe áætlunin (DEP) er fjármögnunaráætlun ESB sem leggur áherslu á að koma stafrænni tækni til fyrirtækja, borgara og opinberra aðila. Áætlunin veitir stefnumótandi fjármögnun til verkefna á fimm lykilsviðum: ofurtölvum, gervigreind, netöryggi, stafrænni færni og nýtingu stafrænna lausna. Áætlað umfang DEP á tímabilinu 2021 – 2027 er um 7,5 milljarðar evra. Beinist áætlunin helst að fyrirtækjum, menntastofnunum og opinberum aðilum til uppbyggingar á stafrænum innviðum og til uppbyggingar á sameiginlegum stafrænum innviðum innan ESB. Einnig geta þátttökuríki fengið fjármagn til innleiðingar á reglugerðum og tilskipunum ESB á sviði stafrænnar tækni og er þá yfirleitt ekki gerð krafa um samstarf milli ríkja. Í DEP felast því t.d. tækifæri til fjármögnunar fyrir opinbera aðila í stafrænni vegferð.

    Árið 2022 var fyrsta heila starfsár áætlunarinnar og hefur töluverð reynsla og þekking byggst upp hjá Rannís á þessum stutta tíma. Verkefni Rannís hafa m.a. falist í því að fylgjast með framvindu áætlunarinnar, miðla þekkingu á málefnum hennar, tryggja samlegðaráhrif milli DEP og annarra Evrópuáætlana sem Rannís hefur umsýslu með, aðstoða við umsóknir og kynna áætlunina fyrir hagsmunaaðilum á opinberum vettvangi. Fyrstu umsóknarfrestir DEP voru á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2022. Nokkrir íslenskir aðilar hafa þegar hlotið styrk úr áætluninni, meðal annars samstarfsverkefni um stofnun Miðstöðvar stafrænnar nýsköpunar (EDIH-IS) á Íslandi sem hlaut 300 milljóna króna styrk til reksturs miðstöðvarinnar yfir þriggja ára tímabil, með möguleika á fjögurra ára framhaldi. Á árinu hófst einnig undirbúningur að a.m.k. fjórum umsóknum til DEP með þátttöku íslenskra aðila, bæði hjá einkafyrirtækjum og opinberum aðilum, sem skilað verður inn í upphafi árs 2023. Vænta má niðurstaðna þeirrar vinnu síðar á því ári.

  • Rannís fer með hlutverk þjónustuskrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES á málefnasviðum stofnunarinnar. Markmið Uppbyggingarsjóðs EES eru einkum tvö, annars vegar að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og hins vegar að styrkja tengsl á milli framlagaríkjanna þriggja, Íslands, Liechtenstein og Noregs, og styrkþegaríkjanna sem eru 15 talsins. Sjóðnum er því ætlað að styðja við samfélagslega innviði þeirra fimmtán ESB-ríkja sem lakar standa í efnahagslegu tilliti og greiðir Ísland til sjóðsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ásamt hinum tveimur EES-ríkjunum sem standa utan Evrópusambandsins.

    Heildarfjármagn Uppbyggingarsjóðsins 2014-2021 er alls 1,5 milljarðar evra, en verkefnin geta varað til ársins 2024 og er meginhluta fjármagnsins, eða um 98% sjóðsins, úthlutað með opnum köllum. Rannís hefur umsjón með fjórum samstarfsáætlunum á fjórum mismunandi sviðum, það er á sviði rannsókna í Rúmeníu, nýsköpunar í Portúgal, menntunar í Póllandi og á sviði menningar í Tékklandi.

    Þátttaka íslenskra aðila í verkefnum sem hafa verið styrkt af sjóðnum hefur verið töluverð, þá sérstaklega á sviði menningar- og menntaáætlana, og ýmsir nýir möguleikar hafa opnast fyrir íslenska aðila t.a.m. á sviði nýsköpunar og rannsókna. Úthlutunum í samstafsáætlunum Rannís er að mestu lokið á núverandi sjóðstímabili og nú standa yfir fjölmörg verkefni. Í menntaáætluninni í Póllandi eru 59 íslenskir samstarfsaðilar í 101 verkefni. Í nýsköpunaráætluninni í Portúgal, með áherslu á bláan hagvöxt, eru sjö íslenskir samstarfsaðilar í sex verkefnum, í rannsóknaáætluninni í Rúmeníu er einn íslenskur samstarfsaðili í einu verkefni og í menningaráætluninni í Tékklandi eru 24 íslenskir samstarfsaðilar í 22 verkefnum. Á árinu stóð Rannís fyrir, og tók þátt í, fjölda kynningarfunda, tengslamyndunarviðburða og samstarfsnefndarfunda á fagsviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningarmála, auk þess að veita leiðsögn til íslenskra þátttökuaðila í Uppbyggingarsjóði EES.

  • Þátttaka í COST (European Cooperation in the field of Science and Technology) hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Tilgangur COST verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum og greiða verkefnin fyrir kostnað vegna funda og ráðstefnuhalds, en ekki kostnað við rannsóknarverkefnin sjálf.

    Alls er 41 þjóðríki þátttakandi í COST samstarfinu í gegnum beina samninga. Einnig tekur Ísraelsríki þátt sem samstarfsland (Cooperating Member) og Suður-Afríka hefur aukaaðild (Partner Member). Í júní var opnað fyrir þátttöku í 70 nýjum COST verkefnum en þau hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda í stærri rannsóknarverkefnum innan rannsókna- og nýsköpunaráætlunar. Þátttaka Íslands Í COST verkefnum hefur farið vaxandi og á Ísland nú fulltrúa í 45% COST verkefna, sem er aukning um rúmlega 10% frá árinu 2018. Tölur fyrir þátttöku Íslands árið 2022 eru ekki frágengnar, en sem dæmi má nefna að Ísland tók þátt í 130 COST verkefnum með einum eða öðrum hætti árið 2021.

  • Rannís hefur umsjón með þátttöku Íslands í Euraxess, sem hefur það hlutverk að styðja við markmið Evrópska rannsóknasvæðisins um að styrkja flæði vísindaþekkingar innan álfunnar, t.a.m. með því að auðvelda vísindafólki að flytjast búferlum á milli landa og að styðja við framaþróun vísindafólks. Rannís starfar markvisst með öllum opinberu háskólunum við að byggja upp móttökuumhverfi erlends vísindafólks á Íslandi. Rannís hélt í samstarfi við Miðstöð framhaldsnáms við HÍ auk HA og LBHI námskeið fyrir leiðbeinendur doktorsnema í háskólum sem mikil eftirspurn er eftir.

  • Enterprise Europe Network er samstarfsnet fyrir fyrirtæki sem hefur það markmið að styðja metnaðarfull fyrirtæki í nýsköpun og alþjóðlegum vexti. Rannís er þjónustuaðili Enterprise Europe Network á Íslandi og veitir gjaldfrjálsa þjónustu til fyrirtækja í sókn á nýja markaði og leit að erlendum samstarfsaðilum.

    Enterprise Europe Network er styrkt af Evrópusambandinu og nær til 600 samstarfsaðila í yfir 65 löndum. Árangrinum er náð með því að nýta tengslin innan þessa öfluga netverks þar sem sérfræðingar þess þekkja viðskiptaumhverfið á staðnum og nýta sitt tengslanet.

    Viðburðir og kynningar sem Enterprise Europe Network kom að:

    Fyrirtækjastefnumót á Íslensku sjávarútvegssýningunni Icefish 2022

    Enterprise Europe Network á Íslandi í samstarfi við World Fishing and Aquaculture stóð fyrir fyrirtækjastefnumóti á Icefish ráðstefnunni 2022 í Smáranum Kópavogi fyrir þátttakendur hennar til að hittast og eiga viðskiptafundi. Hver fundur var einungis 20 mínútur svo hægt væri að ná fram skilvirkni og árangri. Fyrirtækjastefnumótið var á staðnum. Þátttakan var góð þrátt fyrir að sýningin væri helmingi minni en árið 2017. Mótið var haldið 8. júní 2022.

    Loftslagsmót

    Stefnumót fyrirtækja um nýsköpun og lausnir á sviði umhverfis- og loftslagsmála var haldið þann 4. maí 2022 í Gullteig á Grand Hótel. 117 manns mættu á loftslagsmótið bæði á fyrirlestra sem og til að eiga örfundi með öðrum þátttakendum á mótinu. Viðburðurinn var haldinn af Grænvangi, Rannís og Enterprise Europe Network í samstarfi við Festu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

    Fyrirtækjaheimsókn á vegum rúmenska Enterprise Europe Network netverksins

    Tókum á móti rúmenskum fyrirtækjum og kynntum fyrir þeim íslenskt viðskiptaumhverfi og menningu.

    Viking days

    Í ágúst hélt norræna Enterprise Europe Network netverkið ársfund sinn í Reykjavík og tók á móti 50 norrænum kollegum frá öllum Norðurlöndunum.

    Aðrir viðburðir Enterprise Europe Network

    Að auki kynnti Enterprise Europe Network þjónustu sína fyrir íslenskum frumkvöðlum á Nýsköpunarviku, Hringiðu, UTmessunni og í Dafna.

  • Eurostars er fjármögnunaráætlun innan EUREKA sem er sérstaklega ætluð til að auka rannsókna- og þróunarsamstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en Ísland hefur verið aðili að EUREKA samstarfinu frá árinu 1986. Í dag standa 37 lönd að áætluninni ásamt Evrópusambandinu. Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári og er lögð áhersla á að verkefnin séu tiltölulega nálægt markaði. Tækniþróunarsjóður sér um að fjármagna íslenska þátttöku í samþykktum verkefnum, en árið 2022 fengu sex ný verkefni með íslenskri aðild stuðning, auk þess sem 11 framhaldsverkefni voru í gangi með íslenskum þátttakendum.

  • Rannís hefur umsjón með veitingu Evrópumerkisins í tungumálum (European Language Label) í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið, en á árinu var verkefnið formlega fellt undir vinnuáætlun Erasmus+. Evrópumerkið er viðurkenning fyrir nýsköpun á sviði tungumálanáms og tungumálakennslu og er henni ætlað að beina athygli að frumlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi evrópskra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt, nýtist sem flestum. Geta verkefni á þessu sviði sóst eftir Evrópumerkinu, sem telst vera gæðastimpill á verkefnið. Hér á landi er bæði unnt að sækja um Evrópumerkið fyrir verkefni sem unnið er að innan opinbera skólakerfisins og utan þess, s.s. í námsflokkum, málaskólum, endurmenntunarstofnunum og hjá fræðslusamtökum. Auglýst er eftir umsóknum um Evrópumerkið á vordögum annað hvert ár og fer afhending viðurkenningarinnar fram á haustdögum. Evrópumerkið í tungumálum var ekki veitt árið 2022.

  • Miðstöð evrópskra tungumála er stofnun á vegum Evrópuráðsins sem rekin er í Graz í Austurríki. Hlutverk hennar er að efla og styðja við nám og kennslu í evrópskum tungumálum og sér Rannís um að koma tækifærum á vegum miðstöðvarinnar á framfæri, í góðu samstarfi við Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Starfsemi tungumálamiðstöðvarinnar felst m.a. í skipulagningu námskeiða og vinnustofa í Graz og víðar.

    Einnig er á vegum stofnunarinnar unnið að margvíslegum þróunar- og rannsóknarverkefnum á sviði tungumálanáms og tungumálakennslu. Aðildarlönd geta almennt sent einn þátttakanda á hvert námskeið eða vinnustofu sér að kostnaðarlausu. Yfirstandandi tímabil samstarfsins (2020-2023) er tileinkað nýsköpun í tungumálakennslu, breyttu samhengi og framþróun færni. Boðið er upp á fjölmargar vinnustofur og verkefni á tímabilinu og hafa fimm tungumálakennarar og sérfræðingar í evrópskum tungumálum þegar tekið þátt í vinnustofum fyrir hönd Íslands á tímabilinu.

    ....

  • Markmiðið með sóknarstyrkjum er að auðvelda íslenskum aðilum að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum með því að styrkja undirbúning umsókna. Fjármagnið kemur úr Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði, en á árinu 2021 ákváðu stjórnir þessara sjóða að auka framlag sitt verulega og hækkaði ráðstöfunarfé sóknarstyrkja úr 20 í 50 milljónir króna. Þessi hækkun var staðfest fyrir árið 2022.

    Vegna þessarar aukningar var hægt að koma betur til móts við þarfir þeirra aðila sem sækja um í alþjóðlega sjóði og voru 107 af 143 umsóknum styrktar. Skiptust styrkirnir með svipuðum hætti og fyrri ár. Þannig fengu háskólar rúman helming upphæðarinnar, rannsóknastofnanir um þriðjung og fyrirtæki um fimmtung.

  • Samstarf íslenskra rannsóknasjóða í svokölluðum samfjármögnunarverkefnum (ERA-NET og Partnerships) gerir íslenskum fyrirtækjum og stofnunum kleift að taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum á völdum sviðum. Rannís tekur þátt í nokkrum slíkum verkefnum sem styrkja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hvert ERA-net og Partnership hefur eigin áherslusvið, þátttökureglur og umsóknarfresti.

    Samfjármögnunarverkefnin sem Rannís tók þátt í og voru með úthlutanir á árinu eru: : 

    • CHANSE er evrópskt samfjármögnunarverkefni sem er helgað samvinnu á sviði hug- og félagsvísinda, með áherslu á rannsóknir á samfélagsbreytingum og menningarþróun. Rannsóknasjóður styrkir þátttöku Íslands. Alls bárust 336 umsóknir á fyrsta umsóknarfresti og var 90 boðið að senda inn á lokafresti í desember 2021. Ákveðið var að styrkja 26 verkefni, þ.á.m. eitt með þátttöku Háskóla Íslands og leiðir Annadís Rúdolfsdóttir, menntavísindasviði, hluta HÍ. Verkefnið fjallar um jafnrétti í stafrænu vinnuumhverfi.
    • BlueBioeconomy ERA-Net er fimm ára evrópskt samstarfsnet um lífhagkerfi sjávar. Verkefnið er samstarf 27 fjármögnunaraðila frá 16 löndum. Eitt verkefni var styrkt með íslenskri þátttöku á árinu 2022. Undirbúningur hófst við að skilgreina kall sem auglýst verður á árinu 2023.
    • Biodiversa+ er nýtt samfjármögnunarverkefni sem fór af stað 2020 undir Horizon Europe áætluninni. Eitt verkefni var styrkt með þátttöku Íslands á árinu 2022.
  • UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðurinn var settur á laggirnar í upphafi árs 2022 til að styðja við samstarf milli Bretlands og Íslands á sviði háskólamenntunar og þjálfunar. Sjóðnum er ætlað að koma til móts við þann kostnað sem hlýst vegna skólagjalda í tengslum við framhaldsnám í Bretlandi og veitir nemendum einnig tækifæri til að stunda launaða starfsþjálfun á vegum Geimferðastofnunar Bretlands. Rannís annast umsýslu sjóðsins í samstarfi við Geimferðastofnunina og breska sendiráðið í Reykjavík.

    Á vormánuðum úthlutaði Rannís UK-Iceland Explorer námsstyrkjum til fjögurra einstaklinga, sem sýndu með framúrskarandi umsóknum sínum og frammistöðu í viðtölum að áform þeirra um nám í Bretlandi féllu vel að markmiðum sjóðsins og væru líkleg til að hafa mikinn ávinning í för með sér, bæði persónulegan og samfélagslegan. Hvert þeirra hlaut styrk sem nemur 10.000 sterlingspundum. Til að fagna árangri þeirra hélt sendiherra Bretlands á Íslandi, Dr. Bryony Mathew, kveðjuhóf til heiðurs styrkhöfunum í sendiherrabústað sínum í ágúst.

    Þrír styrkþegar UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðsins með viðurkenningarskjöl sín ásamt  sendiherra Bretlands og fulltrúum Rannís

Norrænt samstarf

Norrænt samstarf á starfssviði Rannís á sér langa sögu og tekur stofnunin þátt í samstarfsnefndum á vegum Norræna ráðherraráðsins.

  • Rannís rekur landskrifstofu norrænu menntaáætlunarinnar Nordplus, auk þess að hafa tímabundið umsjón með aðalskrifstofu Nordplus fyrir öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin.
  • Rannís sér um samfjármögnun nokkurra verkefna á vegum NordForsk sem hafa skilað góðum ávinningi fyrir íslenskt rannsóknasamfélag, auk þess að eiga gott samstarf við Nordic Innovation.
  • Rannís hefur verið falið að sjá um verkefnið Menntun til sjálfbærni sem er menntahluti framtíðarstefnu Norðurlandanna um að þau verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.
  • Jafnframt sér Rannís um styrkveitingar úr tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs undir heitinu Arctic Research and Studies, sem fjármagnað er af utanríkisráðuneytum ríkjanna og er ætlað að styðja við samstarf þjóðanna í rannsóknum á norðurslóðum.
  • Rannís rekur landskrifstofu fyrir norrænu menntaáætlunina Nordplus sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Áætlunin, sem skiptist í fimm undiráætlanir, veitir styrki á sviði menntamála til aðila á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum og hefur um 10 milljónir evra til úthlutunar á ári hverju. Auk þess að reka landskrifstofu áætlunarinnar, tók Rannís við yfirstjórn Nordplus árið 2019 og mun gegna því hlutverki til ársloka 2024.

    Í rekstri aðalskrifstofunnar felst samræming á starfi landskrifstofa á Norðurlöndunum fimm, sem skipta með sér verkum við undirbúning úthlutana, auk starfs sem unnið er af tengiliðum í Eystrasaltsríkjunum, Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum. Aðalskrifstofan sér einnig um samskipti við Norrænu ráðherranefndina og formennskuríkið á hverjum tíma. Stærsta verkefni ársins 2022 var að ljúka áætlun áranna 2018-2022 og á sama tíma undirbúa nýja fimm ára áætlun Nordplus 2023-2027. Yfirstjórn Nordplus stóð fyrir fundi allra tengiliða Nordplus á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem haldinn var í Jurmala í Lettlandi, en slíkur fundur hefur ekki verið haldinn síðan árið 2019. Nordplus Junior hélt stóra tengslaráðstefnu í Kaupmannahöfn fyrir leikskólastjórnendur og kennara með það að markmiði að auka þátttöku leikskólastigsins í áætluninni. Nokkrir íslenskir þátttakendur fóru út og tóku þátt. Nordplus stóð einnig að ráðstefnu í Bergen í sambandi við formennsku Noregs í Norrænu ráðherranefndinni þar sem rædd voru samlegðaráhrif Nordplus og Erasmus+.

    Auk þess að fara með yfirstjórn Nordplus hefur Rannís umsjón með tungumálahluta áætlunarinnar. Þar er árlega úthlutað styrkjum til ýmissa verkefna sem felast í gerð kennsluefnis, ráðstefnuhaldi og starfi sérfræðinganeta í norrænum tungumálum. Einnig sér Rannís um íslenska þátttöku í öðrum hlutum Nordplus, þar sem bæði nemendur og kennarar geta fengið styrki til heimsókna eða námsdvalar, samvinnuverkefna eða þátttöku í samstarfsnetum, sem öll miða að því að auka samskipti þjóðanna á sviði menntunar. Á hefðbundnu ári fara um 600–800 Íslendingar í náms- og þjálfunarferðir til annarra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og svipaður fjöldi kemur hingað til lands með stuðningi Nordplus. Þá er veittur stuðningur til þróunarverkefna á sviði menntunar á öllum stigum og til samstarfsneta sem vinna saman að brýnum verkefnum innan menntageirans. Árið 2022 fór að stóru leyti í að aðstoða verkefni við að endurskipuleggja verkefni sín og áætlanir eftir að öllum takmörkunum vegna Covid-19 hafði verið aflétt. Styrkþegar Nordplus hafa verið afar ánægðir með þann sveigjanleika sem Nordplus hefur getað sýnt. Mörg verkefni hafa verið framlengd og munu nú geta lokið markmiðum sínum og þeirri vinnu sem lagt var upp með. Það er ljóst að þau verkefni sem fengu úthlutaðan styrk 2020 og 2021 munu ekki öll klárast á tilsettum tíma, en þó má segja að Nordplus áætlunin sé komin á rétta braut.

  • Hlutverk NordForsk er að styðja við norrænt rannsóknasamstarf í gegnum samstarf stærstu fjármögnunaraðila rannsókna allra Norðurlandanna. Á vettvangi NordForsk eru skilgreindar samstarfsáætlanir á ákveðnum sviðum sem hafa það að markmiði að veita fé til sameiginlegra forgangsmála á sviði rannsókna. Á hverjum tíma eru í gangi nokkrar slíkar áætlanir á ólíkum fræðasviðum, og má þar nefna á sviði samfélagslegs öryggis, heilbrigðisvísinda og menntarannsókna.

    Eftirfarandi samstarfsáætlanir voru í gangi á árinu 2022:

    • Nordforsk - Societal Security Beyond Covid 19. Markmið áætlunarinnar að kanna afleiðingar af Covid-19 faraldrinum til lengri og skemmri tíma. Umsóknarfrestur var auglýstur á árinu.
    • Nordforsk - Future Working Life Research Programme. Vel starfhæft atvinnulíf er lykilatriði í þróun samfélagsins þar sem það skapar skilyrði fyrir hagvöxt og fjármögnun velferðarkerfa. Markmið áætlunarinnar er að efla þekkingu á vinnumarkaði framtíðarinnar. Umsóknarfrestur var auglýstur á árinu.
    • Nordforsk – Sustainable Agriculture and Climate Change. Loftslagsbreytingar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á landbúnað og fæðu- og fóðuröryggi. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknaverkefni á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að nýjungum í landbúnaði og aðlögun plantna að breyttum aðstæðum á svæðinu og svæðisbundinni próteinframleiðslu til manneldis og í dýrafóður.
    • NordForsk – Education for Tomorrow. Ísland hefur tekið þátt í Education for Tomorrow rannsóknaráætluninni frá 2013, en áætlunin er nú í öðrum fasa sem er frá 2017 til 2023. Heildarfjárhagsáætlun fyrir allt tímabilið 2013-2023 er um tveir milljarðar króna. Á árinu 2021 lauk fjórum verkefnum sem íslenskir aðilar taka þátt í, og í gangi er eitt stórt öndvegisnet með íslenskri þátttöku. Netið heitir Quality in Nordic Teaching og taka bæði Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands þátt í því. Á árinu var jafnframt samþykkt af Íslands hálfu að halda samstarfinu áfram eftir 2023.
    • Nordic Programme for Interdisciplinary Research. Markmið áætlunarinnar er að styðja við þverfaglegar rannsóknir sem rjúfa hefðbundin landamæri vísinda og fræða, og taka öll Norðurlöndin þátt með fjárframlagi í sameiginlegan sjóð. Rannís heldur utan um þátttöku Íslands sem er fjármögnuð af Rannsóknasjóði. Enginn umsóknarfrestur var árið 2022.
  • Rannís tekur þátt í þremur norrænum samstarfsnefndum á vegum rannsóknaráða Norðurlandanna, NOS-HS á sviði hug- og félagsvísinda, NOS-N í raunvísindum og náttúruvísindum og NOS-M sem er samstarfsnefnd í heilbrigðisvísindum.  

    NOS-N er samstarfsvettvangur á vegum fjármögnunaraðila rannsókna í raunvísindum og náttúruvísindum á Norðurlöndum. Haldnir voru tveir fundir á árinu. Fyrri fundurinn var 4. maí og þar var fjallað um verkferla við skil á lokaskýrslum. Síðari fundurinn, sem var 100 ára afmælisfundur, átti að vera haldinn í Helsinki árið 2020 en var frestað vegna Covid-19. Loks var fundurinn haldinn á netinu 2.-3. desember 2021, og var þema hans markmið og verkefni NOS-N.

    NOS-M er samstarfsvettvangur í heilbrigðisvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Haldnir voru tveir fundir á árinu.

    NOS-HS NOS-HS er samstarfsvettvangur í hug- og félagsvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Á vormánuðum stóð rannsakendum í hug- og félagsvísindum og skyldum greinum til boða að sækja um styrki til að halda norrænar vinnustofur á árunum 2023-2024. Alls bárust 106 umsóknir og hlutu 33 styrk, þar af tvær leiddar af íslenskum aðilum. Í nóvember var sérstakur umsóknarfrestur um rannsóknaverkefni með áherslu á yngra vísindafólk. Alls bárust 157 umsóknir og er matsferli í gangi; áætlað er að niðurstaða liggi fyrir um mitt ár 2023.

  • Rannsóknasetrið (ROCS) var stofnað í apríl 2020 af Carlsbergsjóðnum í samvinnu við íslensk stjórnvöld og Rannís, í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands. Rannsóknasetrið er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. Carlsbergsjóðurinn leggur röskar 500 m.kr. til verkefnisins, eða 25 m.dkr., og íslenska ríkið 240 m.kr. ROCS mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands og verður því stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við danskt og íslenskt vísindafólk. Árið 2022 var gerður samningur milli Rannís og Háskóla Íslands að ráðstafa því fé sem út af stóð af framlagi Íslands til ROCS til þess að ráða einn nýdoktor við HÍ. Upphæðin var 28.252.000 kr.

  • Síðastliðnu tímabili Arctic Research and Studies lauk árið 2022 og alls var ellefu verkefnastyrkjum úthlutað að upphæð 38,8 m.kr.. Í október 2022 fóru fram viðburðir á Hringborði norðurslóða í tilefni 10 ára afmælis samkomulags um norðurslóðarannsóknasamstarf Íslands og Noregs með þátttöku norska krónprinsins, Hákonar Magnúsar, þar sem utanríkisráðuneyti ríkjanna beggja undirrituðu viljayfirlýsingu um áframhaldandi samstarf árin 2023-2026 á þessu sviði. Undirbúningur stendur nú yfir að nýju fjögurra ára tímabili fyrir Arctic Research and Studies áætlun sem heyra mun undir Rannís í samstarfi við HK-dir í Noregi.

  • Verkefnið Menntun til sjálfbærni heyrir undir Norrænu ráðherranefndina en Rannís leiðir verkefnið á Íslandi. Markmið verkefnisins er að þróa samstarfsnet sem mun samþætta sjálfbæra þróun við kennslu allra skólastiga. Markhópur verkefnisins eru kennarar á öllum skólastigum á Norðurlöndunum fimm (Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð) sem og á sjálfsstjórnarsvæðunum Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Stefnt er að því að sjálfbær þróun verði samofin öllu námi barna jafnt sem fullorðinna.

    Með verkefninu verður reynt að fá svör við eftirfarandi spurningum:

    1. Er hægt að vefa rauðan þráð frá leikskóla til fullorðinsfræðslu þar sem þekking um sjálfbæra þróun vex jafnt og þétt?
    2. Hvað þurfa kennarar og annað starfsfólk menntageirans að læra til þess að verða enn færari í að koma fróðleik um sjálfbæran lífsstíl á framfæri við nemendur?
    3. Á hvers konar kennslu- og uppeldisfræði er þörf til þess að ná utan um hinar flóknu spurningar sem vakna í hugum nemenda á ólíkum aldri og hvaða lausnir henta best?
    4. Hvaða hlutverki gegna menntastofnanir í nauðsynlegri hugarfarsbreytingu til þess að gera Norðurlöndin sjálfbær?
    5. Hvaða hindranir eru á veginum í átt að sjálfbærni?
    6. Hvernig er hægt að styrkja rödd barna og ungs fólks í þróun í átt að sjálfbærni?
    7. Hvaða möguleika býður samvinna við nærsamfélag og atvinnulíf upp á?
  • Jules Verne er samstarfsverkefni Frakklands og Íslands á sviði rannsókna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið stýrir samstarfinu fyrir hönd Íslands en Rannís sér um framkvæmdina. Tilgangurinn með samstarfinu er að virkja vísinda- og tæknisamstarf milli stofnana, skóla og rannsóknarhópa í báðum löndunum og að auðvelda samstarf við önnur slík samstarfsverkefni í Evrópu. Styrkir eru veittir til ferða- og dvalarkostnaðar fyrir vísindafólk. Fjármögnunin er samþykkt til tveggja ára í senn. Ekki var úhlutað á árinu 2022.

  • Árið 2022 var sjötta starfsár IASC í rannsóknarhúsinu að Borgum á Akureyri, samkvæmt samkomulagi á milli nefndarinnar og Rannís. Í ljósi þeirrar jákvæðu reynslu sem fengist hefur af starfsemi skrifstofu Norðurskautsvísindanefndarinnar ákvað Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, að framlengja starfsemi skrifstofunnar hjá Rannís á Akureyri um fimm ár frá upprunalegu samkomulagi, eða til loka árs 2026. Auk vísindastofnana í norðurskautsríkjunum átta eiga aðild að IASC vísinda- og rannsóknarstofnanir í Austurríki, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Japan, Hollandi, Indlandi, Póllandi, Portúgal, Kína, Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi.

    IASC stuðlar að samstarfi um vöktun og rannsóknir á norðurslóðum. Sem áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu gegnir nefndin einnig mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á breytingum í náttúrufari norðurslóða. Starfsemi IASC fer að miklu leyti fram í fimm vinnuhópum; um landræn kerfi, gufuhvolf, hafvísindi, mann- og félagsvísindi og freðhvolf. Þátttökuríkin útnefna að jafnaði tvo fulltrúa í hvern vinnuhóp. Þeir eru í senn fulltrúar innlendra vísinda- og rannsóknarstofnana gagnvart hinu alþjóðlega vísindasamfélagi, sem og talsmenn IASC og helstu tengiliðir við starfsemi vinnuhópanna. Hóparnir halda fundi, ásamt vísindaráði IASC, að vori ár hvert á vikulangri vísindaráðstefnu (Arctic Science Summit Week) sem fór fram í Tromsø í mars 2022, til að móta stefnu IASC.