Ávarp forstöðumanns

Breytingar og tækifærin sem í þeim felast

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, nýr forstöðumaður Rannís, fer yfir árið 2022 sem var ár breytinga hjá stofnuninni og í ytra umhverfi en fól jafnframt í sér ný tækifæri sem nýtt verða á næstu árum.

Ágúst Hjörtur Inþórsson, forstöðumaður Rannís fyrir framan vegg með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

Forstöðumannsskipti

Undirritaður tók við starfi forstöðumanns Rannís 1. apríl 2022 þegar Hallgrímur Jónasson lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hallgrímur var forstöðumaður Rannís í 14 ár og leiddi stofnunina á miklum umbreytingatíma. Á starfstíma hans þróaðist Rannís úr því að sjá um sjö innlenda sjóði og tvær alþjóðlegar áætlanir yfir í að annast rúmlega 30 sjóði og nærri tíu alþjóðlegar samstarfsáætlanir. Starfsmannafjöldinn þrefaldaðist á tímabilinu og þjónusta stofnunarinnar við þekkingarsamfélagið var stóraukin. Rannís hefur á þessum árum verið falin enn fleiri verkefni sem er til marks um það traust sem stofnunin nýtur meðal viðskiptavina og stjórnvalda. Hallgrímur Jónasson átti mjög stóran þátt í að byggja upp það traust og leiða uppbyggingarferlið. Starfsfólk Rannís þakkar honum kærlega fyrir samstarfið.

„Mikil sóknarfæri eru til staðar í alþjóðlegu samstarfi og raunhæft er að setja það markmið að tvöfalda fjárhagslegt umfang þátttöku Íslands á næstu sjö árum.“

Framtíðarsýn nýs forstöðumanns

Meðal fyrstu verka undirritaðs í starfi nýs forstöðumanns var að hitta starfsfólk stofnunarinnar á fundi og ræða um sýn mína á starfsemi Rannís til næstu ára. Framtíðarsýnin felur meðal annars í sér þá trú að Rannís muni halda áfram að vaxa, sem alhliða þjónustumiðstöð við þróun þekkingarsamfélagsins á Íslandi, vegna þess að mikilvægi málaflokksins hefur aukist og Ísland tekur nú þátt í fleiri samstarfsáætlunum ESB en áður. Mikil sóknarfæri eru til staðar í alþjóðlegu samstarfi og raunhæft er að setja það markmið að tvöfalda fjárhagslegt umfang þátttöku Íslands á næstu sjö árum.

Þá þarf Rannís að taka virkari þátt í viðbrögðum stjórnvalda við samfélagslegum áskorunum þar sem áhersla er lögð á umhverfismál, stafræna þróun og heilbrigðismál. Meiri áherslu þarf að leggja á markáætlanir sem takast á við skilgreindar áskoranir en gæta þarf þess að það verði ekki á kostnað opinna samkeppnissjóða.

Fjárhagslegur rekstur Rannís hefur verið í góðu jafnvægi síðustu ár og eiginfjárstaða traust. Sértekjuhlutfall er og verður mjög hátt enda felast fjölmörg sóknarfæri fyrir stofnunina í alþjóðlegu samstarfi. Sóknarfærin eru slík að megin áskorunin verður að velja réttu tækifærin til að tryggja samlegð nýrra verkefna með kjarnaverkefnum stofnunarinnar.

Fagmennska í umsýslu og framúrskarandi þjónusta við þann mikla fjölda fólks sem stofnunin á í samskiptum við þarf að vera leiðarljós þannig að Rannís sé til fyrirmyndar meðal íslenskra stofnana.

Rannís þarf að vera leiðandi stofnun þegar kemur að stafrænni og skilvirkri stjórnsýslu sem nýtir bestu lausnir sem eru í boði á hverjum tíma. Lögð verður áhersla á að öll umsýsla stofnunarinnar verði fyllilega stafræn á næstu tveimur árum.

Öflugur mannauður og góður starfsandi er ein af lykilstoðunum í starfsemi stofnunarinnar og áfram verða nýtt fjölmörg tækifæri til að gera Rannís að eftirsóttum vinnustað.

"Heppnaðist Vísindavakan feikilega vel og sóttu hana yfir 6.000 manns."

Öflug starfsemi að loknum heimsfaraldri

Ef horft er á einstök verkefni þá var árangur af starfi Rannís góður á árinu 2022 og stofnunin hélt áfram að eflast og þróast. Aldrei áður hafa byrjað jafn margir nýir starfsmenn á einu ári. Var það bæði vegna þess að starfsfólk lét af störfum, m.a. fóru þrír starfsmenn á eftirlaun, en einnig vegna nýrra verkefna.

Meðal hápunkta í starfsemi Rannís á árinu voru mjög stórar úthlutanir úr helstu burðarsjóðum rannsókna og nýsköpunar sem hafa aldrei verið jafn öflugir. Heildarfjöldi umsókna sem stofnunin tók á móti var tæplega 7.000 sem er nokkur fækkun frá því sem mest var í heimsfaraldrinum þegar fjármagn var aukið og aukaúthlutanir fóru fram. Það er til marks um að kominn sé á stöðugleiki eftir faraldurinn.

Góður árangur var í alþjóðlegu samstarfi sem hefur tekið við sér eftir heimsfaraldurinn og hæga byrjun á nýrri kynslóð áætlana sem hófust ekki af fullum krafti fyrr en á árinu 2022. Fólk er aftur farið að ferðast þótt það sé ennþá ekki í sama mæli og fyrir heimsfaraldur. Bæði í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og einnig innlendum verkefnum urðu ýmsar tafir, á meðan faraldurinn gekk yfir, þannig að óvenju mikið er um að verkefni hafi dregist á langinn. Mat á árangri af þátttöku Íslands í evrópskum samstarfsáætlunum fyrir tímabilið 2014-2020 var mjög jákvætt og verður mikil áskorun að gera jafn vel á núverandi tímabili.

Loks var Vísindavaka haldin aftur af fullum krafti eftir að hafa legið niðri um nokkurt skeið vegna fjárskorts og heimsfaraldurs. Heppnaðist Vísindavakan feikilega vel og sóttu hana yfir 6.000 manns. Rannís heldur sína Vísindavöku á laugardegi – á meðan flest Evrópuríkin halda hana á föstudagskvöldi. Þetta er gert til að auðvelda fjölskyldufólki að koma með börn sín á vökuna enda eru þau einn helsti markhópurinn og er ávallt boðið upp á margt áhugavert fyrir þau. Boðið var upp á sérstakan Rann-ís sem varð svo eftirsóttur að ítrekað þurfti að sækja aukabirgðir.

„Á vormánuðum var lokið við fyrsta áhrifamatið sem unnið hefur verið á Rannsóknasjóði og var það kynnt á Rannsóknaþingi í nóvember. “

Gögn og gaman

Gögn og gagnarýni voru í brennidepli á árinu. Í mars var Gagnatorg Rannís formlega opnað af ráðherra en þar er að finna yfirlit yfir úthlutanir flestra sjóða, sem Rannís hefur umsýslu með, allt frá árinu 2011. Samtals eru þar upplýsingar um nærri 20.000 verkefni sem hlotið hafa yfir 150 milljarða króna í styrki. Á vormánuðum var lokið við fyrsta áhrifamatið sem unnið hefur verið á Rannsóknasjóði og var það kynnt á Rannsóknaþingi í nóvember. Í desember var svo kynnt þriðja áhrifamatið á Tækniþróunarsjóði sem var unnið með sambærilegri aðferðafræði og síðasta mat til að tryggja betri samanburð yfir lengra tímabil. Bæði þessi áhrifamöt sýna skýrt fram á mikilvægi þessara sjóða fyrir sína markhópa og eru þau gott innlegg til undirbúnings nýrri langtímasýn stjórnvalda um rannsókna- og nýsköpunarmál sem vænta má á árinu 2023.

Aukið umfang og góðar framtíðarhorfur

Fjárhagslegt umfang þeirra sjóða og alþjóðlegu áætlana sem Rannís sýslar með hefur tvöfaldast á sl. fjórum árum og ábyrgð stofnunarinnar hefur því vaxið. Einhver hluti þeirrar aukningar sem varð í innlenda sjóði mun ganga til baka en meirihlutinn heldur sér samkvæmt gildandi fjármálaáætlun stjórnvalda. Gera má ráð fyrir aukningum í alþjóðlegu samstarfi þannig að heildarumfangið gæti haldið áfram að aukast á næstu árum. Það eru því góðar framtíðarhorfur í starfsumhverfi stofnunarinnar og mikill sóknarhugur í starfsfólki Rannís.