Starfsemi og skipulag

Mennta- og menningarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar og fer með umsýslu alþjóðlegra áætlana og innlendra sjóða sem veita styrki til íslensks mennta-og menningarsamfélags, auk þess sem það rekur upplýsingaveitur um tækifæri til náms og starfa erlendis. Það sinnir auk þess upplýsingaþjónustu og stuðningi við stefnumótun í mennta- og menningarmálum.

Skógarfoss að ofan

Breytt alþjóðastarf með nýrri tækni

Ýmsar áskoranir tengdar heimsfaraldrinum settu mark sitt á starfsemi sviðsins á fyrsta ársfjórðungi, einkum í tengslum við rekstur alþjóðlegra samstarfsáætlana og verkefna, sem starfsfólk sviðsins tókst á við með framúrskarandi dugnaði. Segja má að alþjóðasamstarf hafi breyst til frambúðar með aukinni notkun tækni til að halda fundi og viðburði, auk þess sem ferðaskipulag verður með öðrum hætti, sem leiða mun til sparnaðar og minni umhverfisáhrifa vegna ferðalaga. Talsverð vinna fór í að koma starfsemi samstarfsáætlana og verkefna á réttan kjöl, ljúka verkefnum sem höfðu verið framlengd vegna faraldursins og endurskipuleggja kynningarstarf á nýjum tækifærum í alþjóðastarfi.

Ungt fólk í Evrópu í fókus á árinu

Nýrri kynslóð Evrópuáætlana var hleypt af stokkunum á árinu 2021 og því var árið 2022 annað starfsár þeirra. Hægt var að greina ákveðin áhrif faraldursins á umsóknafjölda Erasmus+ og European Solidarity Corps framan af árinu, en á síðari hluta árs var ljóst að umsækjendur voru að taka við sér. Faraldurinn hafði líka haft áhrif á rekstur verkefna, sem höfðu fengið ákveðinn sveigjanleika til að ljúka því sem lagt var upp með og fór talsverð vinna í stuðning við verkefnastjóra. Á árinu opnaðist í fyrsta sinn fyrir starfsmannaskipti innan íþróttageirans og verður áhugavert að fylgjast með viðtökum íslenskra íþróttafélaga. Kynningarmálin fóru líka á fullt á síðari hluta ársins og mikill hugur er í starfsfólki Landskrifstofu að kynna ný tækifæri og styrki fyrir breiðum markhópi Erasmus+ og European Solidarity Corps.

Árið 2022 var tileinkað ungu fólki í Evrópu, undir heitinu European Year of Youth og leiddi mennta- og menningarsvið samstarf allra helstu áætlana ESB sem Rannís hefur umsjón með til að vekja athygli á tækifærum fyrir ungt fólk; Erasmus+, European Solidarity Corps, Creative Europe og Horizon Europe, auk stoðverkefna Erasmus+ og upplýsingaveitna fyrir ungt fólk sem Rannís hefur umsjón með. Þannig var ekki aðeins vakin athygli á tækifærum í námi, þjálfun og æskulýðsstarfi, heldur var menningarstarf ungs fólks einnig í fókus og vakin athygli á ungu vísindafólki með skipulagi fyrsta „vísindaslamms“ sem haldið hefur verið hér á landi í tengslum við Vísindavöku Rannís.

Hápunktur Evrópuárs unga fólksins var svo hressileg sumarhátíð sem haldin var í Laugardalslauginni þann 18. ágúst, bæði á sundlaugarbakkanum og ofan í lauginni sjálfri. Aðalmarkmið hátíðarinnar var að vekja athygli á tækifærum sem standa ungu fólki til boða innan samstarfsáætlana sem Rannís hefur umsjón með. Þar steig ungt listafólk á stokk, fulltrúar samstarfsverkefna tóku þátt og boðið var upp á sundballett og fleira skemmtilegt ásamt ís, poppi og kandíflossi eins og tilheyrir á sumarhátíðum.

Vöxtur skapandi greina

Menningar- og kvikmyndageirinn sló ekki slöku við á árinu og var góður gangur í umsóknum í Creative Europe, einkum í MEDIA hluta áætlunarinnar, þannig að ljóst er að íslenskt kvikmyndagerðarfólk sat ekki auðum höndum í faraldrinum. Þar mátti sjá frábærar hugmyndir að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum verða að veruleika með styrk úr áætluninni. Á árinu varð líka vöxtur í menningarhluta Creative Europe og verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun á næsta ári.

Norrænt og tvíhliða samstarf

Árið 2022 var síðasta starfsár yfirstandandi tímabils Nordplus áætlunarinnar og má segja að stór hluti tímabilsins hafi orðið fyrir áhrifum af heimsfaraldrinum, en auk þess að hafa umsjón með undiráætlun Nordplus um norræn tungumál rekur Rannís sem stendur einnig aðalskrifstofu áætlunarinnar. Fjöldi umsókna var minni en í venjulegu árferði og var lögð talsverð vinna í að styðja við verkefnastjóra til að hægt væri að ljúka verkefnum sem höfðu orðið fyrir áhrifum af faraldrinum. Á síðari hluta árs hófst undirbúningur að næsta tímabili Nordplus (2023-2027) og þann 9. nóvember var nýrri áætlun hleypt af stokkunum með opnunarráðstefnu í Norræna húsinu. Í tengslum við nýja áætlun hittust fulltrúar Erasmus+ á Norðurlöndunum og Nordplus til að ræða mögulega samlegð áætlananna. Þar kemur mennta- og menningarsvið Rannís sterkt inn með reynslu af því að reka landskrifstofur fyrir báðar áætlanirnar og tók starfsfólk sviðsins ríkan þátt í því samtali.

Af öðrum verkefnum er helst að telja að norrænt verkefni, Menntun til sjálfbærni, fór á flug á árinu, en Rannís var falið að hafa umsjón með menntahluta sérstaks átaksverkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbærni, þar sem kennaramenntun er sett í fókus. Norrænum sérfræðingahópi verkefnisins var komið á fót og var fyrsti fundurinn haldinn á Íslandi. Vinna við nýjan vef Upplýsingaveitu um nám erlendis, FaraBara.is, hófst á árinu og verður hann settur í loftið á nýju ári.

Loks er ánægjulegt að segja frá því, að styrkjum til náms í Bretlandi var úthlutað í fyrsta sinn úr tvíhliða samstarfi Íslands og Bretlands undir heitinu UK-Iceland Explorer Fund, þar sem íslenskir nemar geta sótt um styrk til framhaldsnáms eða starfsþjálfunar í Bretlandi.

Innlendir sjóðir: „Sérstök áhersla var lögð á samræmingarvinnu í skipulagi og notkun umsókna- og umsýslukerfis Rannís.“

Innlendir sjóðir og þjónusta við viðskiptavini

Teymi innlendra sjóða á mennta- og menningarsviði hélt áfram vinnu við að straumlínulaga vinnulag og ferla í umsýslu sjóðanna. Sérstök áhersla var lögð á samræmingarvinnu í skipulagi og notkun umsókna- og umsýslukerfis Rannís og lagði starfsfólk teymisins sig fram um að skilja enn betur þarfir umsækjenda með það fyrir augum að bæta þjónustu við viðskiptavini Rannís. Nokkur breyting varð á umsýslu innlendra sjóða á málefnasviðum sviðsins þegar mennta- og menningarráðuneytinu var skipt upp. Áfram er mjög góð samvinna við nýtt mennta- og barnamálaráðuneyti en einnig var unnið þétt með menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna hugsanlegra breytinga á umsýslu menningarsjóða sem tengjast stofnun nýrra menningarmiðstöðva. Einnig var gott samstarf við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og var fulltrúum sviðsins m.a. boðið að tilnefna fulltrúa Rannís til setu í vinnuhópi um endurskoðun löggjafar um framhaldsfræðslu.

Góðan árangur í starfi mennta- og menningarsviðs, þrátt fyrir áskoranir undanfarinna ára og ýmsar breytingar, er fyrst og fremst að þakka frábæru starfsfólki sviðsins sem með dugnaði og skilvirkni hefur verið óþreytandi í að koma með nýjar hugmyndir og leggja til bætt verklag, jafnt í alþjóðastarfi sem umsýslu innlendra sjóða. Samheldni og gott andrúmsloft einkenndi starfsemina á árinu og er óhætt að fullyrða að framundan séu spennandi tímar við að kynna tækifæri og samstarf á sviði menntamála, menningar, æskulýðsmála og íþrótta.

Það sem má helst nefna:

  • Alþjóðastarf breytt til frambúðar með tilkomu nýrrar tækni sem leiðir til sparnaðar og minni umhverfisáhrifa
  • Árið 2022 var tileinkað ungu fólki í Evrópu, undir heitinu European Year of Youth
  • Mennta- og menningarsvið Rannís fer með yfirumsjón með Nordplus fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna
  • Sviðið hefur umsjón með 14 innlendum sjóðum
  • Rúmlega 1.000 matsmanna og stjórnarmanna unnu í fagráðskerfinu