Starfsemi og skipulag

Greiningar- og hugbúnaðarsvið

Greiningar- og hugbúnaðarsvið Rannís gengur þvert á fagsviðin og styður við starfsemi þeirra. Rafræn umsýsla í starfi Rannís hefur aukist mikið á undanförnum árum og er fyrirséð að svo verði áfram með aukinni áherslu á aðgengi að gögnum og miðlun upplýsinga um starf Rannís, innsendar umsóknir og úthlutanir sjóða.

Gluggar í Hörpu

Gagnatorg Rannís opnaði á árinu

Hlutverk sviðsins er þróun, rekstur og umsjón með umsókna-, mats- og umsýslukerfum Rannís auk utanumhalds og framsetningar á tölfræðilegum gögnum sem vinna má úr umsóknum og úthlutunum. Sviðið sér auk þess um nýsmíði á öðrum þeim kerfum sem starfsfólk Rannís þarfnast til umsýslu umsókna og til að styðja sem best við störf sjóðsstjóra Rannís. Auknum umsvifum Rannís og kröfum samfélagsins hefur verið mætt með aukinni áherslu á upplýsingatækni. Allar umsóknir eru rafrænar, öll fagráðs- og matsvinna rafræn svo og umsýsla sjóðsstjóra og stjórna. Áhersla er lögð á að allar upplýsingar fari í gegnum „Mínar síður“ Rannís og stefnt er á að öll helstu samskipti tengd líftíma umsóknar, frá stofnun umsóknarinnar til loka samnings með tilheyrandi skýrslum, fari þar í gegn. Stefnt er að því að allir samningar (og skýrslur þar sem það á við) verði undirritaðir með rafrænum hætti og er Rannís í samstarfi með Taktikal um rafrænar undirritanir. Á árinu hélt áfram forritunarvinna við Gagnatorg Rannís. Gagnatorgið var opnað með pompi og prakt af ráðherra, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þann 29. mars. Úthlutanasíða Rannís, þar sem nálgast má opinberar upplýsingar um úthlutanir frá sjóðum í umsjón Rannís, var endurnýjuð samhliða vinnu við Gagnatorgið og má finna úthlutanir allt aftur til ársins 1988 á síðunni. Stefna Rannís til 2025 kveður á um að efla upplýsingakerfið og vera þar í fremstu röð og gerum við ráð fyrir að meginmarkmiðum hennar verði náð innan eins til tveggja ára, en í raun lýkur því starfi aldrei.

Alls störfuðu sjö einstaklingar á sviðinu í lok árs: sviðsstjóri, fimm við hugbúnaðargerð og einn við greiningarvinnu, auk tæknilegs ráðgjafa sem vinnur bæði við hugbúnaðargerð og greiningarþátt sviðsins. Einn af mikilvægustu kostum allra þessara einstaklinga er geta til að laga sig að fjölbreyttum verkefnum og að geta gripið og unnið faglega öll þau verkefni sem þarf að vinna innan sviðsins, óháð því hvort þau tilheyri hugbúnaðarþróun eða greiningarvinnu. Vonandi ber okkur gæfa til að halda þessum öfluga hópi saman og að létta á álagi starfsfólks Rannís með frekari þróun gagna- og upplýsingakerfis.

Það sem má helst nefna:

  • Gagnatorg Rannís var opnað formlega af ráðherra þann 29. mars
  • Heildarfjöldi umsókna í umsóknarkerfi Rannís var tæplega 7.000
  • Alls störfuðu sjö einstaklingar á sviðinu í lok árs
  • Rúmlega 1.000 matsmenn og stjórnarmenn unnu í fagráðskerfinu
  • Nýsköpunarsjóður námsmanna fyrstur til að senda út rafræna samninga með nýju samningakerfi

Umsókna-, fagráðs- og upplýsingakerfi Rannís  

Þessi kerfi gegna margþættu hlutverki og má að mörgu leyti líta á þau sem hryggjarstykkið í starfsemi innlendra sjóða á vegum Rannís. Í fyrsta lagi taka umsóknakerfin við öllum umsóknum og öðrum rafrænum gögnum sem tengjast framgangi umsókna. Fagráðs- og matskerfin halda utan um vinnu matsmanna, sem allir eru utan Rannís, og loks er upplýsingum veitt þaðan til stjórnvalda og almennings um styrki og starfsemi sjóða í vörslu Rannís eftir því sem við á. Notendur kerfanna skipta þúsundum. Heildarfjöldi umsókna um styrki á árinu 2022 var tæplega 7.000. Auk allra þeirra þúsunda umsækjenda sem notfærðu sér kerfin var fjöldi matsmanna og stjórnarmanna, sem eru rúmlega þúsund talsins, bæði innlendir og erlendir aðilar. Haldið var áfram með endurforritun á umsóknakerfum sjóða og kerfin uppfærð til að vera í takti við tímann og bæta upplifun umsækjenda. Á árinu voru endurskrifuð umsóknakerfi fyrir Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna, Markáætlun: Máltækni, Loftslagssjóð, Sprotasjóð, Atvinnuleikhópa, Listamannalaun, Sviðslistasjóð, Íslenskukennslu fyrir útlendinga og Námsorlof framhaldsskólakennara. Fyrir Tækniþróunarsjóð voru endurgerð eftirfarandi umsóknakerfi: Vöxtur, Sprettur, Markaðsstyrkur, Hagnýt rannsóknarverkefni, Fræ og Einkaleyfisstyrkir. Auk þess var gerð sú nýbreytni að Fyrirtækjastyrk – Sprota var skipt upp í tvö þrep og umsóknakerfi forritað fyrir bæði þrepin.

Haldið var áfram með innleiðingu fagráðs- og matskerfa fyrir sjóði Rannís og voru kerfi þróuð og tekin í notkun hjá matsnefndum fyrir Sprotasjóð og Tækniþróunarsjóð: Einkaleyfisstyrkir.

Á árinu hélt áfram forritunarvinna við nýtt samningakerfi Rannís auk skýrslukerfis og greiðslukerfis sem mun síðar tengjast Samningakerfi Fjársýslunnar. Þessi kerfi voru tekin í notkun í smáum skrefum á árinu og var Nýsköpunarsjóður námsmanna sá fyrsti sem sendi út samninga úr nýju kerfi. Samningakerfi fyrir fleiri sjóði eru á lokametrunum og verða mörg þeirra innleidd árið 2023.