Starfsemi og skipulag

Rannsókna- og nýsköpunarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar. Á ábyrgð sviðsins er rekstur stóru samkeppnissjóðanna ásamt rekstri minni sjóða er tengjast rannsóknum og nýsköpun, að taka við umsóknum og meta verkefni sem tengjast skattendugreiðslu rannsókna og þróunar og umsýsla fleiri sjóða.

Vöxtur og breytingar á árinu

Vöxtur og breytingar héldu áfram að setja mark sitt á starf rannsókna- og nýsköpunarsviðs á árinu 2022. Þar sem sviðsstjóri var skipaður forstöðumaður Rannís frá 1. apríl var auglýst eftir nýjum sviðsstjóra og tók Sigurður Óli Sigurðsson við því starfi 1. október. Hann gegndi áður starfi framkvæmdastjóra Gæðaráðs háskólanna. Starfsmönnum fjölgaði einnig á árinu vegna aukinna verkefna, sérstaklega í tengslum við alþjóðlegt samstarf.

Horizon Europe

Segja má að Horizon Europe hafi komist á verulegan skrið á árinu eftir hæga byrjun vegna heimsfaraldurs og tafa hjá Evrópusambandinu. Bárust margar ánægjulegar fréttir á árinu, m.a. að Reykjavíkurborg var valin til þátttöku í leiðangri ESB sem mun styðja við 100 snjallar og umhverfisvænar borgir.

Rannís tekur þátt í mörgum samstarfsverkefnum landstengiliða Horizon Europe og eflir það getu stofnunarinnar til að veita góðan stuðning við þátttakendur. Umtalsverð vinna fór í undirbúning að þátttöku Íslands í sk. Partnership þar sem um er að ræða samfjármögnun frá þeim ríkjum sem taka þátt í samstarfinu og Horizon Europe. Ísland hefur tilkynnt um þátttöku í 14 slíkum verkefnum og er fyrirséð að það mun kalla á aukna innlenda mótfjármögnun.

„Á vettvangi Digital Europe áætlunarinnar vann Rannís að umsókn sem send var inn og samþykkt á árinu um Miðstöð stafrænnar nýsköpunar sem hóf formlega starfsemi sína í ársbyrjun 2023.“

Góður gangur hjá Life og Digital Europe

Það má einnig segja að þær tvær nýju áætlanir sem Rannís var falið að sjá um hafi komist á skrið á árinu. Gengið var frá samningi við umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneyti um fjármögnun á starfi Rannís fyrir Life áætlunina sem styrkir verkefni sem takast á við umhverfis- og loftslagsbreytingar. Markhópur þeirrar áætlunar er auk opinberra stofnana m.a. sveitarfélög og frjáls félagasamtök sem eru nýir viðskiptavinir fyrir Rannís. Unnið var sérstaklega að því að efla samstarf við sveitarstjórnarstigið. Á vettvangi Digital Europe áætlunarinnar vann Rannís að umsókn sem send var inn og samþykkt á árinu um Miðstöð stafrænnar nýsköpunar sem hóf formlega starfsemi sína í ársbyrjun 2023. Miðstöðin er leidd af Auðnu-Tæknitorgi og koma fleiri aðilar þar að.

Tvíhliða rannsóknasamstarf við Grænland

Á árinu var gengið frá samstarfssamningi við Grænlenska rannsóknarráðið og í ágúst var haldin vel heppnuð vinnustofa í Nuuk þar sem saman komu íslenskir og grænlenskir vísindamenn til að skipuleggja frekara rannsóknasamstarf. Rannís lítur á þetta starf sem hluta af öflugri þátttöku í norðurslóðasamstarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda

Uppbyggingarsjóður EES

Uppbyggingarsjóður EFTA ríkjanna er að ljúka sjö ára tímabili og er það sameiginlegt mat Rannís og utanríkisráðuneytisins að vel hafi tekist til með framkvæmdina. Rannís sér um þá þætti sem snúa að rannsóknum og nýsköpun, menntun og menningu. Hefur tvíhliða samstarf styrkþegaríkjanna og Íslands aukist verulega frá síðasta tímabili.

„Fjárveitingar til burðarsjóðanna tveggja munu ekki lækka verulega árið 2024 eins og gert var ráð fyrir þegar hækkunin var kynnt sem tímabundin ráðstöfun vegna heimsfaraldurs COVID-19.“

Rannsókna- og nýsköpunarsjóðir HVIN

Úthlutanir burðarsjóðanna Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eru mældar í fjármagni sem er ráðstafað til nýrra verkefna. Í báðum sjóðum var árangurshlutfall rétt yfir 20% á árinu. Áður en kom til hækkunar á fjárveitingum til sjóðanna var árangurshlutfallið, t.d. árið 2020, talsvert undir 20%, sem þýðir að verulega góð verkefni voru ekki að fá stuðning.

Stóru fréttir ársins voru hins vegar þær að fjárveitingar til burðarsjóðanna tveggja munu ekki lækka verulega árið 2024 eins og gert var ráð fyrir þegar hækkunin var kynnt sem tímabundin ráðstöfun vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Tækniþróunarsjóður efldi og festi í sessi á árinu samstarf við Klak sem felur í sér að öllum fyrirtækjum sem fá Sprota eða Vaxtarstyrk stendur til boða námskeið sem er sérstaklega hannað fyrir slíkt verkefni. Jafnframt fá verkefnin aðgang að teymi mentora sem hefur verið eflt verulega með stuðningi Tækniþróunarsjóðs. Rannsóknasjóður fór í sambærilegt samstarf við Auðnu-Tæknitorg sem býður þeim sem hljóta verkefnastyrki úr Rannsóknasjóði á námskeið þar sem m.a. er farið yfir hagnýtingu rannsókna og verndun hugverka. Þetta samstarf við Klak og Auðnu-Tæknitorg er liður í að auka stuðning við styrkt verkefni þannig að þau séu líklegri til að ná þeim árangri sem að er stefnt.