Alþjóðlegt samstarf

Evrópskt og norrænt samstarf

Alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar er mjög umfangsmikið í starfsemi Rannís og mikilvægur þáttur í daglegu starfi.

Gervigreindarmynd sem sýnir líkan af jörðinni í miðu íslensku landslagi

Evrópskt og norrænt samstarf vegur þar mest og Rannís hefur það hlutverk að vera helsti þjónustuaðilinn við formlegt alþjóðlegt samstarf á málefnasviðum stofnunarinnar á Íslandi. Mikil og djúp þekking á rekstri og þjónustu við alþjóðasamstarf á málefnasviðum Rannís hefur þannig byggst upp jafnt og þétt til góðs fyrir íslenskt þekkingarsamfélag almennt. Fjöldi umsókna um styrki úr sjóðum flestra samstarfsáætlana jókst frá fyrri árum og ljóst þykir að alþjóðasamstarf hefur náð góðu flugi eftir takmarkanir heimsfaraldursins.

Hápunktur ársins 2024 í alþjóðasamstarfi var 30 ára afmæli EES-samningsins. Rannís hélt utan um hátíðahöld af því tilefni og skipulagði þrjá viðburði í góðu samstarfi við Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi. Þann 8. maí var boðað til hálfsdags málþings um EES samninginn með áherslu á tækifærin sem hafa opnast íslenskum aðilum í evrópsku samstarfi. Helstu hagsmunaaðilum og stefnumótendum í evrópsku samstarfi milli Íslands og ESB var boðið til málþingsins. Síðar sama dag var blásið til uppskeruhátíðar Evrópusamstarfs í Kolaportinu í Reykjavík. Þar gátu forvitnir gestir kynnt sér verkefni, sem unnin hafa verið með styrkjum úr samstarfsáætlunum ESB auk þess sem fulltrúar evrópskra sendiráða á Íslandi kynntu ýmsa þætti í menningu landa sinna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnaði viðburðinn. Í september lagði svo Evrópurútan upp í hringferð um landið með allar samstarfsáætlanir sem Rannís hefur umsjón með, í farteskinu. Ellefu bæir um allt land voru heimsóttir þar sem íbúum var boðið til samtals og athygli vakin á árangri af Evrópuverkefnum í heimabyggð og tækifærum til framtíðar í alþjóðasamstarfi.

Gervigreindarmynd sem sýnir íslenskt landslag með vatni og hólmum sem líkjast korti af Evrópu.

Evrópskar samstarfsáætlanir

Rannís hefur umsjón með sjö helstu samstarfsáætlunum Evrópusambandsins sem Ísland tekur þátt í á grundvelli EES-samningsins:

  • Horizon Europe, rannsóknir og nýsköpun
  • Erasmus+, menntun, æskulýðsmál og íþróttir
  • European Solidarity Corps, sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni ungs fólks
  • Creative Europe, menning og kvikmyndir
  • Digital Europe, stafræn tækni
  • LIFE, umhverfismál og loftslagsbreytingar
  • Uppbyggingarsjóður EES, rannsóknir og nýsköpun, menntun og menning
  • Horizon Europe er stærsta alþjóðlega samstarfsáætlunin sem Ísland tekur þátt í og jafnframt stærsta rannsókna- og nýsköpunaráætlun heims með um 95 milljarða evra til úthlutunar á tímabilinu 2021–2027. Markmið áætlunarinnar er að Evrópa verði leiðandi afl í rannsóknum og nýsköpun á heimsvísu og styrkir áætlunin allt frá grunnrannsóknum til tækniþróunar. Áhersla er lögð á að fjárfesting í vísindum og nýsköpun skili sér til samfélagsþróunar og betri lífsskilyrða í Evrópu.

    Hlutverk Rannís í Horizon Europe er að vera tengiliður áætlunarinnar við íslenskt vísinda- og nýsköpunarsamfélag með því að reka starf landstengla sem miðla upplýsingum, veita aðstoð og þjónustu við umsóknarferlið, halda námskeið og fleira. Rannís heldur úti fréttaveitu á horizoneurope.is og á samfélagsmiðlum þar sem helstu fréttum og upplýsingum um Horizon Europe frá framkvæmdastjórn ESB er miðlað áfram til Íslendinga. Einnig veittu landstenglar Rannís einstaklingsmiðaða ráðgjöf í töluverðum mæli til mögulegra umsækjenda á árinu og héldu kynningar í stofnunum og fyrirtækjum. Sömuleiðis hafa bæði rafrænir og staðbundnir kynningarfundir um tiltekna þætti áætlunarinnar verið haldnir auk námskeiða í umsóknarskrifum og fleira. Rannís heldur jafnframt utan um stjórnarnefndarstarf Horizon Europe í umboði ráðuneytis og funduðu stjórnarnefndir og landstengiliðir reglulega á árinu.

    Einn af meginviðburðum ársins var málþing sem bar yfirskriftina „Þetta byrjar allt á góðri hugmynd!“ þar sem fjallað var um ávinning íslenskra þátttakenda í evrópskum rannsókna- og nýsköpunaráætlunum.

    Í starfi áætlunarinnar var megináhersla lögð á að samþætta þjónustu landstengla eftirfarandi áætlana og verkefna sem Rannís hefur umsjón með: Horizon Europe, LIFE, Digital Europe, Uppbyggingarsjóðinn og þjónustu EEN og EDIH. Markmiðið er að veita viðskiptavinum betri alhliða ráðgjöf varðandi tækifæri á sviði rannsókna og nýsköpunar.

    Samstarf landstengla Horizon Europe 

    Rannís tekur virkan þátt í evrópskum samstarfsnetum landstengla ýmissa undiráætlana Horizon Europe en verkefnin miða að því að styðja og styrkja samstarf landstengla, fræða þá um áætlunina og bæta færni þeirra svo þeir geti veitt umsækjendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum betri þjónustu. Samstarfsaðilarnir eru systurstofnanir í öllum þátttökulöndum Horizon Europe en stofnanirnar skiptast á að leiða samstarfið. Á árinu 2024 var Rannís með virka þátttöku í um 12 samstarfsnetum landstengla og sinnir þar margvíslegum verkum.

  • Erasmus+ er styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál og er starfsemi hennar í höndum Landskrifstofu sem hýst er af Rannís. Undir Landskrifstofuna fellur einnig European Solidarity Corps (ESC) – sérstök áætlun fyrir ungt fólk sem styrkir sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni.

    Árið 2024 markaði fjórða ár núverandi tímabils Erasmus+ og ESC, 2021–2027, og er það þar með hálfnað. Við þessi tímamót fór fram svokallað miðmat sem felur meðal annars í sér að þátttökuríki gera úttekt á framkvæmdinni og gefa út skýrslu með niðurstöðunum. Mennta- og barnamálaráðuneytið fól KPMG að vinna þessa úttekt hér á landi og safna upplýsingum gegnum rýnihópa, djúpviðtöl og kannanir. Meðal helstu niðurstaðna voru mikil og jákvæð áhrif sem áætlanirnar hafa haft. Erasmus+ hefur leitt til alþjóðlegra áhrifa á stefnumótun menntunar og æskulýðsmála hér á landi og aukið tækifæri til símenntunar og starfsþróunar. Þá hefur ESC aukið alþjóðavitund og evrópska samvitund. Helsta gagnrýni svarenda beindist að tölvu- og upplýsingakerfi áætlananna og umsóknarferlinu almennt sem getur verið hindrun fyrir þátttöku, sérstaklega hjá óvönum umsækjendum. Þeir þurfa því mikinn stuðning og eru Landskrifstofa Erasmus+ og ESC á Íslandi talin hafa staðið sig vel í þeim efnum með faglegri, lausnamiðaðri og persónulegri þjónustu.

    Umsóknarárið einkenndist af krafti, gleði og sóknarhug um allt land. Fjármagn til áætlananna fer vaxandi með hverju ári og að þessu sinni hafði Landskrifstofa til úthlutunar rúmlega tíu milljónir evra í menntahluta Erasmus+, þrjár milljónir evra í æskulýðshluta Erasmus+ og tæplega 800.000 evra í ESC. Á fyrstu mánuðum ársins voru 14 kynningarviðburðir skipulagðir til að koma tækifærunum á framfæri og styðja umsækjendur í ferlinu, ýmist með vefstofu, í Reykjavík eða á landsbyggðinni. Einnig voru vefstofur skipulagðar á haustmánuðum sem og aðventukaffi í Borgartúni í desember. Þá skipuðu mennta- og æskulýðsmál veigamikinn sess í hátíðahöldum vegna 30 ára afmælis samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en hann gerir Íslandi kleift að taka þátt í áætlunum á vegum Evrópusambandsins. Þann 8. maí fór fram málþing um ávinning og áskoranir í Evrópusamstarfi sem var skipulagt af Rannís, stjórnvöldum og Sendinefnd ESB á Íslandi. Síðar sama dag fengu gestir á uppskeruhátíð í Kolaportinu tækifæri til að spjalla við styrkhafa og kynna sér þann árangur og metnað sem einkennir Erasmus+ og ESC verkefni. Í september hélt starfsfólk Landskrifstofu í hringferð um landið ásamt vinnufélögum í Rannís sem hafa umsjón með öðrum evrópskum áætlunum. Evrópurútan var liður í að fagna 30 ára EES-afmælinu og um leið koma á framfæri þeim miklum áhrifum sem evrópskir styrkir hafa skilað íslensku samfélagi til sjávar og sveita. Ferðalagið gaf starfsfólki Landskrifstofu dýrmætt tækifæri til að eiga samtal við fólk í heimabyggð og öðlast þannig betri skilning á aðstæðum og áskorunum á hverjum stað fyrir sig.

    Fjölbreyttar umsóknir bárust í alla verkefnaflokka á árinu og sýndu þær fram á ólíkar leiðir til að vinna með meginforgangsatriði áætlananna: Inngildingu, sjálfbærni, stafræna þróun og virka lýðræðislega þátttöku. Um leið endurspegluðu þær mikilvæg markmið eins og mannréttindi, frelsi og jafnrétti Meðal styrktra verkefna um nám og þjálfun var fyrsta verkefnið í Inngildingarátaki DiscoverEU hér á landi, en því er ætlað gera fólki með ákveðnar hindranir mögulegt að fara í lestarferðalag um Evrópu sem það gæti ekki gert án stuðnings. Þetta á til dæmis við um fötluð ungmenni, ungt fólk með líkamlega eða andlega heilsufarsörðugleika eða fólk með fjárhagslega erfitt bakland. Alls hlutu 159 styrkumsóknir í Erasmus+ brautargengi á árinu sem og 17 umsóknir um sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni í ESC.

    Starfi Landskrifstofu er síður en svo lokið þegar styrkjum hefur verið úthlutað og samningar undirritaðir. Þá tekur við stuðningur við styrkhafa á verkefnistímabilinu og eftirlit með því að verkefnin séu framkvæmd eins og reglur Evrópusambandsins gera ráð fyrir. Fjölmargar leiðir eru í boði fyrir fólk sem kemur að mennta- og æskulýðsvettvanginum hér á landi til að efla þekkingu sína og tengslanet og verða þannig betur í stakk búið til að taka þátt í alþjóðastarfi og evrópskum verkefnum. Tengslaráðstefnur erlendis eru ein leið til þess en auk þess býður Landskrifstofa upp á ýmsar innlendar vinnustofur. Sem dæmi má nefna vel sótta vinnustofu um inngildingu í Erasmus+ sem fram fór í Reykjavík og í streymi þann 29. ágúst og bauð upp á erindi, kynningu á verkefnum, hópaspjall og ráðgjöf. Samtök sem vinna með sjálfboðaliðum fá sérstaka þjálfun í þeim efnum en árlega koma hingað til lands um 100 sjálfboðaliðar sem láta gott af sér leiða með fjölbreyttum hætti í þágu íslensks samfélags. Landskrifstofa notaði tækifærið á jólalegum viðburði á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans þann 5. nóvember, sem var skipulagður í samstarfi við Sendinefnd ESB á Íslandi, og þakkaði þeim hjartanlega fyrir framlagið.

    Að lokum má nefna að Landskrifstofa Erasmus+ hefur nú umsjón með nýjum samstarfsvettvangi íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum (e. European Universities alliances). Honum er ætlað að efla samtal háskóla og stjórnvalda um háskólanetin og koma ávinningi þátttökunnar á framfæri. Í árslok voru fjórir af sjö íslenskum háskólum þátttakendur í evrópskum háskólanetum sem er gríðarlega góður árangur á Evrópuvísu. Þátttakan er mikilvægur liður í því að dýpka samstarf við aðra háskóla í Evrópu þvert á fagsvið og til framtíðar.

    Mynd: Erasmus+ og ESC umsóknir og styrkir 2024

  • Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styrkja evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt, og eru í umsjón framkvæmda­stjórnar­ ESB.

    DiscoverEU

    Frá árinu 2022 hafa hátt í 300 íslensk ungmenni unnið ferðalag með Erasmus+ átakinu DiscoverEU. DiscoverEU er happdrætti þar sem vinningar eru lestarpassar sem gilda í allt að 30 daga og hægt er að nota nær ótakmarkað á evrópskum lestarleiðum. Happdrættið er fyrir ungt fólk á 18. ári sem fá þannig tækifæri til að kynnast menningu og þjóðum Evrópu. Íbúar á eyjum fá einnig flugmiða til og frá meginlandinu og því er ferðakostnaður til og frá Íslandi innifalinn fyrir íslensk ungmenni. Það kostar ekkert að taka þátt í happdrættinu sem fer fram tvisvar á ári en ferðalangar sem eru dregnir út fá afsláttarkort fyrir gististaði sem þau þurfa að bóka sjálf.

    Fyrir mörg íslensk ungmenni var þetta í fyrsta skipti sem þau ferðuðust til útlanda á eigin vegum. Mörg töluðu um að hafa upplifað aukið sjálfstæði og meiri víðsýni eftir ferðalagið auk þess að hafa kynnst fólki víðsvegar að úr álfunni og séð marga staði utan alfaraleiða.

    Landskrifstofa Erasmus+ skipulagði einnig viðburð fyrir evrópska ferðalanga sem voru hér á landi á vegum DiscoverEU í júní. Þau fengu leiðsögn um Gullna hringinn frá ungri íslenskri konu sem hefur sjálf farið í nám erlendis. Að Gullna hringnum loknum hitti hópurinn sjálfboðaliða, sem eru á landinu á vegum European Solidarity Corps, og fengu að kynnast störfum þeirra. Í lokin var svo boðið upp á íslenska sumarstemningu með útigrilli og leikjum.

    Sérstakur umsóknarfrestur er einu sinni á ári fyrir þau sem telja sig þurfa aukastuðning til að geta tekið þátt. Inngildingarátakið DiscoverEU Inclusion Action veitir möguleika á því að sækja um fjármagn fyrir þessum aukastuðningi, sem gæti m.a. falið í sér kostnað vegna fylgdarmanneskju, flutning á búnaði, eða annan kostnað fyrir þau sem að öðrum kosti gætu ekki tekið þátt. Hægt er að sækja um DiscoverEU Inclusion Action fyrir einstaklinga eða hópa, allt að fimm saman (auk fylgdarfólks).

    EPALE - samstarf í fullorðinsfræðslu

    EPALE er evrópskur vefur fyrir kennara, leiðbeinendur, stefnumótunaraðila og annað fagfólk á sviði fullorðinsfræðslu, um formlega eða óformlega fræðslu nemenda, 18 ára og eldri.

    Helstu áhersluatriði EPALE árið 2024 voru aukin áhersla fullorðinsfræðslu í stafrænni þróun, aukin þekking á sjálfbærni og að fullorðinsfræðsla gegni lykilhlutverki í að minnka félagslegan ójöfnuð og berjast gegn fátækt. Fullorðinsfræðsla getur gegnt lykilhlutverki í að valdefla og auka seiglu nemenda til að takast á við samfélagslegar breytingar á jákvæðan máta.

    Hægt er að velja íslenskt viðmót á EPALE vefnum og setja inn efni, blogga og eiga samskipti á íslensku. Þar er hægt að fylgjast með þróun kennsluhátta í fullorðinsfræðslu á Íslandi og í Evrópu, finna samstarfsaðila í Evrópuverkefni og tækifæri til starfsþróunar starfsfólks í fullorðinsfræðslu, s.s. námskeið og ráðstefnur.

    Fréttabréf á íslensku birtist reglulega á EPALE vefnum og margvíslegar fréttir eru einnig birtar á Facebook-síðunni EPALE Ísland. Norrænt samstarf hefur verið farsælt innan EPALE og þar standa Norðurlöndin saman að því að vekja athygli á efni um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum.

    eTwinning - rafrænt skólasamstarf

    Evrópska samstarfsnetið eTwinning býður upp á rafrænt samstarf sem tengir saman kennara og nemendur víðs vegar úr Evrópu auk annarra ríkja sem eiga aðild að netinu. Verkefnin eru af ýmsum toga og styður landskrifstofa eTwinning á Íslandi íslenska kennara og nemendur í verkefnavinnunni. eTwinning er hluti af European School Education Platform en á því vefsvæði má finna rafræn námskeið fyrir skólastarfsfólk auk alls kyns tækifæra til starfsþróunar.

    Á árinu sendi íslenska eTwinning landskrifstofan kennara og sendiherra sína á ráðstefnur á Grikklandi, Möltu, Finnlandi, Svíþjóð, Belgíu, Eistlandi, Bosníu og Hersegovínu og Ungverjalandi. Sjö eTwinning sendiherrar eru staðsettir víðs vegar um landið og sjá um að kynna starfið. Fulltrúar Íslands héldu árlega ráðstefnu norrænna eTwinning sendiherra dagana 5.–7. nóvember í Reykjavík. Þar tóku 37 norrænir sendiherrar og annað norrænt starfsfólk eTwinning þátt, þar af sex íslenskir sendiherrar.

    Gæðamerki eTwinning (NQL) var veitt en alls hlutu sex íslenskir kennarar þá viðurkenningu. Fimm verkefni íslenskra þátttakenda hlutu evrópsku gæðaverðlaun eTwinning (EQL). Stóru-Vogaskóli fékk einnig viðurkenningu fyrir besta eTwinning verkefni ársins 2024.

    Árlega eTwinning-ráðstefnan var haldin í Brussel og einnig rafrænt. 500 þátttakendur fóru til Brussel og tóku þátt í ráðstefnunni þar. Tveir þeirra þriggja kennara sem tóku þátt voru sendiherrar eTwinning og fulltrúar eTwinning á Íslandi. Starfsfólk skrifstofunnar fór í fjölda skólaheimsókna og eiga skólar víðs vegar um landið kost á því að biðja um slíka kynningu.

    Eurodesk - upplýsingaveita fyrir ungt fólk

    Eurodesk er opinbert stoðverkefni Erasmus+ og European Solidarity Corps áætlana Evrópusambandsins og hefur það hlutverk að veita ungu fólki ókeypis, hlutlausar upplýsingar og ráðgjöf um þau tækifæri sem felast í áætlununum. Þannig gerir Eurodesk upplýsingar um tækifæri til skiptináms, starfsnáms, sjálfboðaliðastarfs, ungmennaskipta og fleira aðgengilegar fyrir ungt fólk og þau sem vinna með þeim.

    Eurodesk er með 38 landskrifstofur í 36 löndum auk þess sem staðbundnir Eurodesk tengiliðir við ungt fólk, t.d. æskulýðssamtök, bókasöfn og skólar, eru orðnir fleiri en 1.600 talsins. Tengslanet Eurodesk hefur reynst gífurlega verðmætt tæki til að finna samstarfsaðila fyrir íslensk Evrópuverkefni.

    Árið 2024 hefur Eurodesk aðstoðað íslensk ungmenni við að finna sjálfboðaliðaverkefni og samstarfsaðila til að sækja um ungmennaskiptaverkefni. Fyrsti samningurinn við staðbundinn tengilið Eurodesk á Íslandi var undirritaður árið 2024 en ungmennahúsið Hitt Húsið er nú orðinn opinber samstarfsaðili Eurodesk. Eurodesk veitir Hinu Húsinu stuðning svo starfsfólk þess geti frætt ungt fólk um tækifæri í Evrópu.

    Eurodesk á Íslandi skipuleggur ýmsa viðburði í samstarfi við landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, m.a. kynningar þar sem framhaldsskólar víðsvegar á landinu eru heimsóttir ásamt því að halda hugmyndasmiðjur fyrir starfsfólk æskulýðsfélaga. Í ár tók Eurodesk þátt í starfsdögum Samfés og hélt þar vinnustofu um inngildingu í æskulýðsstarfi.

    Verkefnastýra Eurodesk á Íslandi er einnig í framkvæmdaráði Eurodesk og tekur þátt í fundum ráðsins, skipulagningu netsins og samskiptum við framkvæmdastjórn Evrópu fyrir hönd annarra þátttökuríkja.

    Euroguidance - evrópsk miðstöð náms- og starfsráðgjafar

    Euroguidance hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessu samhengi er litið á náms- og starfsráðgjöf sem tæki til að auka möguleika fólks til að læra og vinna í öðrum löndum Evrópu.

    Á árinu kom Euroguidance á Íslandi í samstarfi við Euroguidance á hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum ásamt Norrænu ráðherranefndinni að uppsetningu á samstarfsneti milli menntagátta á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Vinnufundur var haldinn í Bergen í ágúst, þar sem fulltrúar allra menntagátta þessara landa mættu til að hefja samstarf og samráð. Þetta hefur líka styrkt samstarf Euroguidance miðstöðvanna og haustið 2024 hófst samstarf um að halda rafræn örnámskeið. Haldið var námskeið um starfsþróun í ljósi félagslegs réttlætis þann 16. október og um notkun gervigreindar fyrir náms- og starfsráðgjafa þann 6. nóvember.

    Euroguidance tók þátt í margvíslegu samstarfi við önnur Evrópuverkefni á árinu og tók þátt í málþingi og uppskeruhátíð Evrópusamstarfs þann 8. maí. Fulltrúi frá verkefninu ferðaðist með í Evrópurútunni sem hélt samtals ellefu kynningar fyrir 190 manns hringinn í kringum landið. Einnig var haldinn fundur þann 16. október um örviðurkenningar í fullorðinsfræðslu í samstarfi við EPALE, EQF, ReferNet og EAAL fyrir náms- og starfsráðgjafa.

    Félag náms- og starfsráðgjafa er mikilvægur samstarfsaðili fyrir Evrópumiðstöðina á Íslandi. Euroguidance styrkir árlega ráðstefnu sem fer fram í kringum Dag náms- og starfsráðgjafar sem að þessu sinni bar heitið Vöxtur og vellíðan.

    Alþjóðlegt samstarf er stór hluti af starfi Euroguidance og Ísland tekur þátt í að halda úti heimasíðunni www.euroguidance.eu. Tímaritið Insight Magazine kemur út tvisvar á ári auk þess sem fréttabréf með fréttum sem varða náms- og starfsráðgjafa og alþjóðasamstarf er sent út átta sinnum á ári á vegum samstarfsnetsins.

    Europass - rafræn hæfnismappa

    Europass er rafræn menntunar- og hæfnismappa sem er fyrst og fremst ætlað að aðstoða fólk við að sækja nám eða störf erlendis í lengri eða skemmri tíma. Rúmlega 6,4 milljónir aðganga hafa verið stofnaðir á Europass vefsíðunni síðan hún var uppfærð árið 2020 og þeim fer ört fjölgandi með um tveimur milljónum heimsókna á mánuði að meðaltali. . Árið 2024 voru samtals 247 íslenskir aðgangar stofnaðir en vefsíðan var að meðaltali heimsótt af 6088 íslenskum notendum á árinu. Europass verkefnið stóð að margvíslegum kynningum á árinu með það að markmiði að ná til ungs fólks og þeirra sem standa utan við vinnumarkaðinn.

    Þjónustan kynnt á framhaldsskólakynningum Erasmus+, á Alþjóðadögum Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík en samtals voru þetta 34 kynningar fyrir 1.828 manns. Europass tók einnig þátt í Evrópusamvinna í 30 ár – 30 ára afmæli EES samningsins sem fól í sér málþing, uppskeruhátíð í Kolaportinu, sem var opin almenningi, og kynningarröð um land allt á Evrópurútu þar sem Europass var kynnt á 11 stöðum á landinu fyrir samtals 190 manns.

    Europass vefsíðan og sú þjónusta sem þar er boðið upp á eru auk þess í stöðugri þróun með auknum möguleikum, t.d. geta einstaklingar nú leitað að sérhæfðum náms- og starfstækifærum í Evrópu út frá sinni hæfni og kunnáttu.

    Evrópsk samvinna um raunfærnimat á háskólastigi

    Rannís styður íslenska háskóla í innleiðingu raunfærnimats á háskólastigi í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og ENIC/NARIC á Íslandi. Með raunfærnimati er hægt að greina og viðurkenna færnina sem fólk ávinnur sér með óformlegum hætti, til dæmis með reynslu á vinnumarkaði. Ef sú færni fellur að lærdómsviðmiðum háskólanáms getur raunfærnimat leitt til þess að hún sé metin til ECTS eininga.

    Eitt af hlutverkum Rannís á þessum vettvangi er að hafa umsjón með íslensku tengslaneti um raunfærnimat á háskólastigi sem var formlega sett á fót í mars 2023. Meðlimir þess eru frá ólíkum fagsviðum og háskólastofnunum hér á landi en koma allir að mati á raunfærni á einn eða annan hátt. Rannís kom að skipulagningu vinnustofu fyrir tengslanetið í janúar 2024 og var hún liður í Evrópska hæfniárinu. Á vinnustofunni gafst tækifæri til að fara yfir áherslur stjórnvalda og lagalegt umhverfi fyrir raunfærnimat til styttingar háskólanáms auk þess sem að þátttakendur deildu sinni reynslu af innleiðingu á raunfærnimati. Þátttakendur voru á einu máli um að raunfærnimat hefði mikinn ávinning í för með sér fyrir einstaklinga, háskóla og samfélagið. Þátttaka þeirra sem hafa reynslu af vinnumarkaði í háskólanámi eykur fjölbreytileika í nemendahópnum og bætir við nýrri sýn á greinina. Merkja má áherslubreytingu í umræðunni um raunfærnimat og nú má greina félagslegt réttlæti í forgangi, það er rétt einstaklinga til að fá þekkingu sína og reynslu viðurkennda sem og inngildingaráhersluna: Öll eru velkomin í háskólanám.

    Auk vinnustofunnar skipulagði Rannís veffund með tengslanetinu í október 2024, hélt áfram að hýsa samstarfsvettvang á Teams og tók virkan þátt í evrópsku tengslaneti um raunfærnimat. Því er ætlað að leiða saman tengslanet í Austurríki, Svíþjóð, Írlandi, Króatíu og Þýskalandi og gefa þannig tækifæri til samtals og innblásturs þvert á landamæri.

    Landstengiliður um fullorðinsfræðslu

    EAAL er samstarfsvettvangur allra þeirra sem koma að stefnumótun fyrir menntun fullorðinna, ráðuneyti og aðra hagaðila. Verkefnið er hluti af samráði sem miðar að því að auka aðgengi fullorðina að menntun. Stærsti markhópurinn á Íslandi er fólk með litla formlega menntun sem getur ef til vill stytt sér leið í námi með raunfærnimati. Þá er fólki sem stendur höllum fæti, t.d. vegna fötlunar eða lítillar íslenskukunnáttu, veitt sérstök athygli.

    Á árinu var vinnu við endurskoðun laga undir forystu Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis haldið áfram en vegna stjórnarskipta hefur verkefninu verið frestað

    Starfsmenntahópur Erasmus+ (National VET Teams)

    Starfsmenntahópur Erasmus+ er sérstakt verkefni innan Erasmus+ áætlunarinnar sem hefur það að markmiði að efla alþjóðastarf í starfsmenntun og þátttöku í Erasmus+ verkefnum. Hópurinn veitir alþjóðafulltrúum í starfsmenntaskólum landsins, ásamt öðrum sem bjóða upp á starfsnám, stuðning þar sem áhersla er lögð á jafningjafræðslu og að deila reynslu og þekkingu. Fulltrúar starfsmenntahópsins eru þrír og koma úr röðum styrkþega Erasmus+. Árið 2024 stóð starfsmenntahópurinn fyrir tveimur mikilvægum verkefnum er snúa að markhópnum, skipulagningu viðburða og gerð könnunar ásamt því að ljúka kynningarátaki sem hófst árið 2023.

    Í ár sá Starfsmenntateymið um að skipuleggja vinnustofu fyrir alþjóðafulltrúa í starfsmenntaskólum landsins. Efni vinnusmiðjunnar var bæði efnislegt og praktískt og gert til þess að styðja vinnu alþjóðafulltrúa í að skipuleggja Erasmus+ námsferðir fyrir nemendur og starfsfólk. Inngilding og námsferðir til fjarlægari landa var innihald vinnusmiðjunnar ásamt því að kenna á Erasmus+ umsýslukerfið og kynna nýjungar í kerfinu.

    Starfsmenntateymið gerði könnun meðal alþjóðafulltrúa í starfsmenntastofnunum í samstarfi við rannsóknafyrirtækið Maskínu. Aðalmarkmiðið með könnuninni var að skilja betur hvernig raunveruleg staða er og hvernig mætti mögulega bæta hana, bæði með hagsmuni þátttakenda áætlunarinnar í huga sem og skólanna og alþjóðafulltrúanna sjálfra . Á undanförnum árum hefur umfang Erasmus+ áætlunarinnar aukist verulega og þar með tækifæri nemenda og starfsfólks í starfsmenntun til að fara í námsferðir til Evrópu í lengri og skemmri tíma. Mikilvægi og umfang starfs alþjóðafulltrúa hefur því aukist verulega með auknum verkefnum sem snúa að skipulagi námsferða. Staða og stuðningur við alþjóðafulltrúa í starfsmenntaskólum og stofnunum virðist vera mismunandi á marga vegu. Niðurstaða könnunarinnar verður væntanleg í byrjun árs 2025.

    Afraksturinn af kynningarátakinu sem starfsmenntateymið skipulagði 2023 ásamt iðnnemum landsins var hönnun veggspjalda með QR-kóða sem leiðir áhugasama inn á rétta upplýsingasíðu um Erasmus+ námsferðir. Síðan heitir Tækifæri fyrir öll sem stunda iðnnám. Ungur hönnuður bjó til þrenns konar veggspjöld eftir forskrift iðnnemanna sem var síðan dreift til allra starfsmenntaskóla landsins sem eru með Erasmus aðild.

  • Creative Europe, kvikmynda- og menningaráætlun ESB, styrkir og eflir menningarlega fjölbreytni í Evrópu. Áætlunin skiptist í þrjár meginstoðir:

    1. MEDIA kvikmynda- og margmiðlunarverkefni,
    2. Menningu, verkefni á sviði menningar og skapandi greina
    3. Þveráætlanir, samvinna þvert á skapandi greinar.

    Á þessu ári fengu íslenskir þátttakendur samtals 3,1 milljónir evra í styrki í gegnum Creative Europe, 1,5 milljónir evra til menningarverkefna og 1,6 milljónir evra til MEDIA kvikmynda og tölvuleikja, eða samtals um 449 m.kr. (145 milljónir evra).

    MEDIA 2024

    Nítján umsóknir voru sendar inn í mismunandi sjóði og er búið að birta niðurstöður um helmings þeirra. Af átta umsóknum í sjónvarpssjóðinn fengu þrjár úthlutun, 500.000 evrur hver. Umsækjandi fékk styrk til sýndarveruleikaverkefnis upp á 56.000 evrur og kvikmyndahátíð fékk 45.000 evrur. Samtals fær MEDIA 1,6 milljónir evra. Fyrirtækin eru:

    • Saga Film, sjónvarpsþáttaröðin Tákn, 500.000 evrur.
    • Glassriver, sjónvarpsþáttaröðin Flóðið, 500.000 evrur.
    • Sameinuðu íslensku kvikmyndaveldin, þáttaröðin Reykjavík Fusion, 500.000 evrur.
    • RIFF kvikmyndahátíð, 45.000 evrur.
    • Huldufugl, framleiðslustyrkur, 56.000 evrur.

    Menning 2024
    Þrjár samstarfsumsóknir með íslenskri verkstjórn voru sendar inn í samstarfsverkefnissjóð og fékk verkefni Einkofa menningarfyrirtækisins hæsta styrk til þessa, eða eina milljón evra. Fjórir íslenskir þátttakendur í samstarfsverkefnum hlutu styrki en umsækjendur voru 21.

    Samtals eru styrkupphæðir til þessara fimm verkefna 1.488.000 evrur eða 225 m.kr.

    Culture Moves Europe áætlunin styrkti tvo íslenska listamenn til ferða/náms og ein listasmiðja fékk styrk til að taka á móti evrópskum listamönnum.

    Evrópsku bókmenntaverðlaunin European Union prize for Literature veitti Maríu Elísabetu Bragadóttur rithöfundi viðurkenningu á árinu.

  • LIFE fjármagnar verkefni sem snúa að umhverfismálum og loftslagsbreytingum og skiptist áætlunin í fjögur áherslusvið: Mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga; hrein orkuskipti; náttúru og líffræðilega fjölbreytni; og hringrásarhagkerfi og lífsgæði. Með þátttöku Íslands í LIFE áætluninni gefst ólíkum aðilum hér á landi kostur á að sækja um styrki til umhverfis- og loftslagsverkefna og veitir Rannís margvíslegan stuðning til þeirra sem hyggjast sækja um. Sem dæmi má nefna:

    • Kynningar á áætluninni víðs vegar um landið
    • Fundir með umsækjendum og mögulegum umsækjendum til að kynna áætlunina og veita ráðgjöf
    • Fræðsla og ráðgjöf um umsóknaskrif
    • Miðlun og upplýsingagjöf
    • Skimun eftir tækifærum til sóknar í sjóði

    Skrifað var undir tvo styrktarsamninga vegna umsókna sem bárust árið 2023 upp á samtals 23,8 milljónir evra, eða u.þ.b. 3,5 milljarða íslenskra króna. Þar á meðal er verkefnið LIFE-ICEWATER, undir stjórn Umhverfis- og orkustofnunar. Verkefnið er samstarf 23 aðila um innleiðingu á vatnaáætlun Íslands og er meðal stærstu Evrópustyrkja sem veittir hafa verið til íslenskra verkefna.

    Alls hafa sjö verkefni með 32 íslenskum þátttakendum hlotið styrki upp á tæpar 31 milljónir evra, eða u.þ.b. 4,5 milljarða íslenskra króna, frá því að Ísland varð aðili að áætluninni árið 2021. Niðurstöður vegna umsóknarársins 2024 eru væntanlegar á fyrsta ársfjórðungi 2025.

    Samstarf landstengla LIFE

    Rannís tekur virkan þátt í evrópskum samstarfsnetum landstengla ýmissa undiráætlana, þar á meðal Net4LIFE, samstarfsneti landstengla LIFE. Verkefnið miðar að því að styðja og styrkja samstarf landstengla, fræða þá um áætlunina og bæta færni þeirra svo þeir geti veitt umsækjendum, hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum betri þjónustu. Samstarfsaðilarnir eru systurstofnanir í sjö þátttökulöndum LIFE og mun Rannís formlega taka við stjórn verkefnisins árið 2025.

    Gult merki Loftslagsáætlunar ESB á bláum fleti
  • Digital Europe áætlunin (DEP) er fjármögnunaráætlun ESB sem leggur áherslu á að koma stafrænni tækni á framfæri við fyrirtæki, opinbera aðila og almenna borgara. Árið 2024 var þriðja heila starfsár áætlunarinnar og hefur hún strax tekið nokkrum breytingum á þeim tíma. Áætlunin veitir nú stefnumótandi fjármögnun til verkefna á sex lykilsviðum: Ofurtölvum, gervigreind, netöryggi, stafrænni færni, innleiðingu stafrænna lausna og hálfleiðurum (e. semiconductors).

    DEP er að sumu leyti ólík mörgum öðrum Evrópuáætlunum, til dæmis hvað varðar mótframlag. Á undanförnum þremur árum hefur tekist að auka þekkingu og skilning á því hvernig megi hámarka ávinning áætlunarinnar. Þar má til dæmis nefna mikilvægi þess að umsækjendur (sérstaklega í tilfelli opinberra stofnana) sæki um styrki vegna verkefna sem hafa skýrann ávinning, að verkefni séu með tryggt mótframlag og að verkefni séu innan sérsviðs og styðji markmið þeirra og/eða stefnu stjórnvalda.

    Á árinu var markvisst unnið að því að skoða ávinning DEP verkefna og byggja upp dýpri þekkingu á áætluninni meðal hagsmunaaðila. Einn nýr samningur var undirritaður á árinu. Verkefnið snéri að þátttöku Rannís í landstengiliðaneti DEP sem var stofnað haustið 2024 og er alfarið fjármagnað af áætluninni til tveggja ára. Þátttaka í þessu samstarfsneti er mikilvæg. Netið styður við aukn þekkingu á DEP, aukinni færni í að sækja um styrki fyrir verkefni sem styðja stefnumótandi aðgerðir stjórnvalda og tryggir þannig innviði sem styðja við nýsköpun og þróun hins opinbera og atvinnulífsins.

    Þó að hægst hafi á umsóknum á árinu þá er árangur íslenskra aðila vissulega góður. Frá upphafi áætlunarinnar nemur heildarupphæð styrkja sem runnið hafa til íslenskra aðila rúmlega tíu miljónum evra.

    Auk landstengiliðanets DEP tekur Rannís þátt í tveimur verkefnum sem eru að hluta til fjármögnuð af DEP: European Digital Innovation Hub (EDIH) og National Coordination Center (NCC). Þannig hefur Rannís haldið áfram að efla sérþekkingu á stafrænni tækni og greiningu tækifæra á því sviði í Evrópu. Þar ber sérstaklega að nefna að með liðsinni NCC var sérstakur netöryggisstyrkur (Eyvör) í umsjón Rannís settur á fót. Samtals úthlutaði Eyvör 97 m.kr. til 13 íslenskra fyrirtækja og stofnana á árinu til umbóta á sviði netöryggismála.

  • Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi, eða European Digital Innovation Hub (EDIH), er hluti af neti sem samanstendur af yfir 200 samskonar verkefnum um alla Evrópu. Verkefnið er að hluta til fjármagnað af Digital Europe áætlun ESB.

    Tilgangur EDIH er að byggja upp getu og færni til að nýta háþróaða tækni í lykilgeirum og flýta þannig fyrir stafrænni umbreytingu í Evrópu. Verkefnið styður á skilvirkan hátt við stafræna getu og færni og þar með umbreytingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og opinberra stofnana um allt Evrópusambandið.

    Staðbundin miðstöð sem þessi tryggir að lítil og meðalstór fyrirtæki og opinberar stofnanir njóti góðs af stafrænum vaxtartækifærum. Þetta framtak er hluti af víðtækari áætlunum ESB með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni Evrópu með stafrænni getu sem og að flýta fyrir stafrænni umbreytingu hagkerfa og samfélaga og ná góðum árangri á því sviði fyrir árið 2030.

    Starfsemi EDIH á Íslandi skiptist í fjögur meginsvið:

    - Þróun og prófun: Þar sem fyrirtæki fá tækifæri til að gera tilraunir með háþróaða tækni áður en þau leggja í stórar fjárfestingar á því sviði. Áherslan er á stafrænar umbreytingar á sviði gervigreindar, ofurtölva og tölvuöryggis.

    - Menntun og fræðsla: Þar sem byggð er upp geta og færni til nýtingar háþróaðrar tækni í gervigreind, nýtingu ofurtölva og bættu netöryggi fyrir bæði opinbera geirann og einkageirann.

    - Fjármögnun: Að veita alhliða stuðning við öflun fjármagns fyrir stafræn verkefni svo þau fái tækifæri til að vaxa.

    - Tengslanet: Samvinna og tengslanet milli nemenda, vísindafólks, frumkvöðla, fjárfesta og leiðtoga iðnaðarins stuðla að öflugu vistkerfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs, bæði hérlendis og erlendis.

    Í lok árs 2024 hafði EDIH-IS verið starfrækt í rúmlega 2 ár. Rannís hefur tekið virkan þátt í starfinu á liðnu ári og staðið fyrir fjölda viðburða í samstarfi við aðra aðila innan EDIH. Þar má m.a. nefna hádegisfundi um fjárfestingar í nýsköpun og um netárásir sem ógnir en húsfyllir var á báðum viðburðum. Einnig má nefna Hakkaþon um innbyggða fordóma í gervigreind, fagviðburði í tengslum við englafjárfestingar, vinnustofu um að koma viðskiptahugmynd til fjármögnunar o.fl. EDIH-IS hefur nýlega lagt meiri áherslu á að hvetja konur til dáða í tæknigeiranum og hóf samtal við EDIH annarra Norðurlanda um sameiginlega hvatningu í lok árs 2024.

    18 opinberar stofnanir og minni fyrirtæki á Íslandi eru að fara í gegnum svokallað stafrænt hæfnismat (e. Digital Maturity Assessment) hjá EDIH-IS til að meta núverandi ástand stafrænna málefna innan vinnustaðarins og finna tækifæri til vaxtar í þeim málaflokki.

  • Rannís fer með hlutverk þjónustuskrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES á málefnasviðum stofnunarinnar. Markmið Uppbyggingarsjóðs EES eru einkum tvö, annars vegar að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins, og hins vegar að styrkja tengsl á milli framlagaríkjanna þriggja, Íslands, Liechtenstein og Noregs, og styrkþegaríkjanna sem eru 15 talsins. Sjóðnum er því ætlað að styðja uppbyggingu samfélagslegra innviða þeirra 15 ESB-ríkja, sem lakar standa í efnahagslegu tilliti. Ísland leggur fjármagn til sjóðsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ásamt hinum tveimur EES-ríkjunum sem standa utan Evrópusambandsins.

    Heildarfjármagn Uppbyggingarsjóðsins 2014–2021 er alls 1,5 milljarðar evra. Verkefnin geta varað til ársins 2024 og er meginhluta fjármagnsins, eða um 98% sjóðsins, úthlutað með opnum köllum. Rannís hefur umsjón með fjórum samstarfsáætlunum á fjórum mismunandi sviðum, það er á sviði rannsókna í Rúmeníu, nýsköpunar í Portúgal, menntunar í Póllandi og á sviði menningar í Tékklandi. Auk þess að veitir Rannís íslenskum þátttakendum í Uppbyggingarsjóði EES leiðsögn varðandi þessi fagsvið í öllum viðtökuríkjum, þ.e. á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningarmála.

    Þátttaka íslenskra aðila í verkefnum, sem hafa verið styrkt af sjóðnum, hefur verið töluverð, þá sérstaklega á sviði menningar- og menntaáætlana, og ýmsir nýir möguleikar hafa opnast fyrir íslenska aðila, t.a.m. á sviði nýsköpunar og rannsókna. Úthlutunum í samstarfsáætlunum Rannís á núverandi sjóðstímabili er nú lokið og formlega lýkur áætluninni þann 30. apríl 2025. Í menntaáætluninni í Póllandi tóku 57 íslenskir samstarfsaðilar þátt í 104 verkefnum. Í nýsköpunaráætluninni í Portúgal, með áherslu á bláan hagvöxt, voru átta íslenskir samstarfsaðilar í átta verkefnum, í rannsókna- og menntaáætluninni í Rúmeníu voru 13 íslenskir samstarfsaðilar í 45 verkefnum og í menningaráætluninni í Tékklandi tóku 24 íslenskir samstarfsaðilar þátt í 22 verkefnum.

  • Tilgangur COST-verkefna er að byggja upp samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum og greiða kostnað vegna funda- og ráðstefnuhalds en ekki kostnað við rannsóknaverkefnin sjálf. COST-verkefni hafa oft leitt til áframhaldandi samstarfs á milli þátttakenda í stærri rannsóknaverkefnum innan rannsókna- og nýsköpunaráætlunar. Árangurshlutfall COST-verkefna í Horizon Europe er 39%.

    Alls er 41 þjóðríki með fulla aðild að COST-samstarfinu. Einnig tekur Ísraelsríki þátt sem samstarfsland (e. Cooperating Member) og Suður-Afríka hefur aukaaðild (e. Partner Member). Í heildina tóku 45.435 manns þátt í COST-verkefni með einum eða öðrum hætti á árinu 2024, annaðhvort með setu í stjórnarnefnd eða í vinnuhópi.

    Þann 23. apríl héldu Norðurlöndin að Færeyjum meðtöldum í fyrsta skipti sameiginlegan upplýsingafund á netinu um COST sem var vel sóttur. Alls skráðu sig ríflega 600 einstaklingar á fundinn. Í maí var opnun 60 nýrra COST-verkefna auglýst og hófust tilnefningar strax í byrjun júní.

    Á árinu 2023 (ekki eru til nýrri tölur) tók Ísland þátt í 42% verkefna en á árinu 2022 var samsvarandi tala 43%. Ísland átti 14 einstaklinga í leiðtogastöðu (e. leadership position) innan verkefna sem er það mesta sem verið hefur frá upphafi. 230 einstaklingar frá Íslandi tóku þátt í vinnuhópum COST-verkefna og var skiptingin jöfn meðal karla og kvenna. Þar af voru 45 ungir vísindamenn (e. young researchers).

    Á árinu 2024 var farið í átak í að skrá fleiri fulltrúa frá Íslandi í fagráð COST (e. Ad-Hoc Review Panel). Hlutverk þeirra er að fara yfir umsóknarferlið, bæði verkefni sem hljóta framgang innan áætlunarinnar og þau sem ekki komast áfram. Fram að árinu 2024 hafði Ísland ekki átt fulltrúa í fagráði en eru þeir núna 12 talsins frá mismunandi fræðasviðum.

  • Rannís hefur umsjón með þátttöku Íslands í Euraxess. Hlutverk stofnunarinnar er að styðja markmið evrópska rannsóknasvæðisins um að auka flæði vísindaþekkingar innan álfunnar, t.a.m. með því að auðvelda vísindafólki að flytja milli landa og styðja framaþróun þeirra. Rannís starfar markvisst með öllum opinberu háskólunum á Íslandi við að byggja upp móttökuumhverfi erlends vísindafólks hérlendis. Á árinu bættist Landbúnaðarháskóli Íslands við sem ein af þjónustumiðstöðvum Euraxess á Íslandi og eru þær núna orðnar þrjár ásamt Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

  • Enterprise Europe Network (EEN) er samstarfsnet sem nær til 3.000 sérfræðinga í fleiri en 40 löndum í öllum heimsálfum. Það er styrkt af Evrópusambandinu og er Rannís þjónustuaðili þess. Samstarfsnetið veitir gjaldfrjálsa þjónustu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem og háskóla og opinberra aðila sem eru í sókn á nýja markaði. Þjónustan er klæðskerasniðin hverju sinni og getur til dæmis verið aðstoð við að koma nýrri tækni, vöru eða þjónustu á framfæri erlendis. Einnig getur netverkið aðstoðað við leit að erlendum samstarfsaðilum, framleiðslu- eða dreifingaraðilum, svo eitthvað sé nefnt. Kjörorðin eru „aðstoð til árangurs“ og byggjast þau einkum á að nýta tengslin innan netverksins þar sem sérfræðingar hvers lands þekkja viðskiptaumhverfið á hverjum stað fyrir sig.

    Einn af mikilvægum þáttum starfseminnar er að taka þátt í viðburðum og kynningum með það að markmiði að styðja og styrkja fyrirtæki og til að auka sýnileika netverksins.

    Viðburðir sem Enterprise Europe Network tók þátt í 2024:

    • Í nýsköpunarvikunni í maí var EEN með viðburð í samstarfi við Tækniþróunarsjóð. Gestum var boðið að hlusta á erindi aðila úr nýsköpunargeiranum sem hafa spreytt sig á erlendum mörkuðum eða fengið annars konar stuðning frá Enterprise Europe Network.
    • Fyrirtækjastefnumót er vettvangur fyrir örfundi. Haldin voru tvö fyrirtækjastefnumót á alþjóðlegum ráðstefnum hér á landi, Jarðvarmaráðstefnunni, Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Hörpu í maí. 96 þátttakendur skráðu sig og áttu 84 fundi. Á Sjávarútvegssýningunni, IceFish 2024, skráðu 76 þátttakendur sig og áttu þeir 98 fundi.
    • Sérfræðingar EEN voru meðal leiðbeinenda í þjálfunarprógrammi fyrir frumkvöðla hjá Dafna. Prógrammið er ætlað styrkþegum sem fá stuðning úr styrktarflokkunum Sprota og Vexti. Það var haldið eftir vor- og haustúthlutun Tækniþróunarsjóðs.
    • Í september var tekið á móti sendinefnd frá Litáen í viðskiptaheimsókn. Fulltrúar fimm fyrirtækja voru með í för og endaði heimsókn þeirra á Sjávarútvegssýningunni.
    • Fulltrúar nokkurra klasa frá Rúmeníu komu einnig til landsins í september. Þeir voru á vegum verkefnis Uppbyggingarsjóðs EES. Í tilefni heimsóknarinnar stóðu EEN á Íslandi og í Rúmeníu að fyrirtækjastefnumóti. Markmiðið var að efla samstarf á milli landanna á sviði grænna lausna og sækja saman í evrópska styrki.
    • Í framhaldi heimsóknar Rúmena fóru fulltrúar EEN, EDIH-Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi, Tækniseturs, ásamt fulltrúum frá Noregi, til Rúmeníu í október. Markmiðið var að styrkja samstarf landanna við að styðja fyrirtæki og frumkvöðla við græn umskipti og sjálfbærni sem er knúin áfram af vísindum, tækni og nýsköpun.
  • Eurostars-3 (e. European Partnership on Innovative SMEs) er sameiginleg áætlun Evrópusambandsins og EUREKA. Hlutverk hennar er að auka rannsókna- og þróunarsamstarf lítilla og meðalstórra nýsköpunarfyrirtækja en Ísland hefur verið aðili að EUREKA samstarfinu frá árinu 1986. Í dag standa 37 lönd að áætluninni ásamt Evrópusambandinu. Auglýst er eftir umsóknum tvisvar á ári og er lögð áhersla á að verkefnin séu tiltölulega nálægt markaði. Tækniþróunarsjóður sér um að fjármagna íslenska þátttöku í samþykktum verkefnum. Árið 2024 voru 16 Eurostars verkefni með íslenskum þátttakendum í gangi og ný verkefni bættust ekki við.

  • Evrópumerkið er viðurkenning sem er veitt til tungumálakennara eða annarra sem koma að nýsköpun og tækniþróun í tungumálakennslu. Mennta- og barnamálaráðuneytið veitir viðurkenninguna í samstarfi við Rannís en verkefnin sækja um viðurkenninguna sem líta má á sem gæðastimpil á verkefnið þeirra.

    Á Íslandi er viðurkenningin veitt annað hvert ár og var því ekki veitt árið 2024. Evrópumerkið tók þátt í viðburði á Evrópska tungumáladeginum sem er haldinn hátíðlegur þann 26. september ár hvert að frumkvæði ECML. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við STÍL (Samtök tungumálakennara á Íslandi), Vigdísarstofnun, Tungumálamiðstöð HÍ, Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og Rannís. Í ár var þema dagsins Tungumál í þágu friðar og héldu Geir Sigurðsson prófessor í kínverskum fræðum, Ármann Halldórsson alþjóðafulltrúi hjá Verzlunarskóla Íslands og Sigríður Alma Guðmundsdóttir formaður Félags dönskukennara erindi. Viðburðinn sóttu 35 tungumálakennarar.

  • Miðstöð evrópskra tungumála (European Centre for Modern Languages) er stofnun á vegum Evrópuráðsins sem rekin er í Graz í Austurríki. Hlutverk hennar er að efla og styðja nám og kennslu í evrópskum tungumálum, m.a. með því að útfæra og kynna þau gögn sem Evrópuráðið hefur þróað á þessu sviði, svo sem Evrópska tungumálarammann (CEFR). Rannís sér um að koma tækifærum á vegum miðstöðvarinnar á framfæri í góðu samstarfi við Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Markhópurinn er fyrst og fremst kennarar og starfsfólk sem kemur að tungumálakennslu á öllum stigum og felst starfsemi tungumálamiðstöðvarinnar m.a. í skipulagningu námskeiða og vinnustofa í Graz og víðar. Einnig er á vegum stofnunarinnar unnið að margvíslegum þróunar- og rannsóknarverkefnum á sviði tungumálanáms og tungumálakennslu.

    Á árinu hófst ný vinnuáætlun fyrir tímabilið 2024–2027 sem verður tileinkað Tungumálakennslu sem grunni að lýðræði (Language Education at the Heart of Democracy). Miðstöð evrópskra tungumála hefur alltaf fylgst með nýjum áherslum í tungumálakennslu í aðildarlöndum hennar en einnig forgangsröðun Evrópuráðsins í menntamálum varðandi menntun án aðgreiningar og mannréttindi og lýðræði, þar sem þróun tungumálakunnáttu og menningarlegrar færni leikur lykilhlutverk. Boðið verður upp á fjölmargar vinnustofur og verkefni á tímabilinu og geta aðildarlönd almennt sent einn þátttakanda á hvert námskeið eða vinnustofu sér að kostnaðarlausu.

  • Markmiðið með sóknarstyrkjum er að auðvelda íslenskum aðilum að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum með því að styrkja undirbúning umsókna.

    Fjármagnið kemur úr Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði. Hvor sjóður leggur til 25 m.kr. og er heildarfjármagn til úthlutunar því 50 m.kr. Alls bárust 236 umsóknir um sóknarstyrki.

  • Samstarf íslenskra rannsóknasjóða í svokölluðum samfjármögnunarverkefnum (Partnerships) gerir íslenskum fyrirtækjum og stofnunum kleift að taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknaverkefnum á völdum sviðum. Rannís tekur þátt í nokkrum slíkum verkefnum sem styrkja rannsóknir, þróun og nýsköpun. Hvert ERA-net og Partnership hefur eigin áherslusvið, þátttökureglur og umsóknarfresti.

    Samfjármögnunarverkefnin sem Rannís tók þátt í og voru með úthlutanir á árinu eru:

    • Clean Energy Transitions Partnership (CETP)
    • Sustainable Blue Economy Partnership (SBEP)
    • Driving Urban transition (DUT)
    • Agroecology
  • Í lok sumars voru fjórir námsstyrkir veittir úr UK-Iceland Explorer námsstyrkjasjóðnum en í fyrra var þriðja úthlutunin úr sjóðnum. Styrkirnir eru veittir til íslenskra nemenda sem hefja nám á meistara- eða doktorsstigi í Bretlandi en hver styrkur nemur 10.000 pundum. Þá var veittur einn styrkur til starfsnáms í gegnum SPIN áætlunina til nemanda sem fékk námsstyrk úr UK-Iceland Explorer sjóðnum 2023 og hafði lokið námsgráðu sinni í Bretlandi.

    Geimferðastofnun Bretlands, UK Space Agency, veitir styrkina í samstarfi við Rannís, breska sendiráðið í Reykjavík og íslensk yfirvöld. Þótt geimtengdar áherslur séu í forgangi er sjóðurinn opinn nemendum á öllum námssviðum. Að þessu sinni bárust fjölbreyttar og vandaðar umsóknir frá nemendum sem m.a. stunduðu nám í alþjóðasamskiptum, eðlisfræði, hugbúnaðarverkfræði og stærðfræði.

    Ljósmynd af fjórum styrkþegum UK-Iceland Explorer námsstyrknum ásamt sendiherra Bretlands á Íslandi.

    Á myndinni má sjá styrkhafa 2024 taka við styrkjum við breska sendiherrabústaðinn ásamt Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands.

  • Rannís og breska vísinda-, nýsköpunar- og tækniráðuneytið, í samstarfi við breska sendiráðið í Reykjavík, breska vísinda- og nýsköpunarnetið og Norðurslóðaskrifstofu umhverfisrannsóknaráðs Bretlands, úthlutuðu vorið 2024 21 styrk til rannsóknasamstarfs íslenskra og breskra aðila upp á rúmlega 57 milljónir samanlagt.

    Styrkjunum er ætlað að styðja rannsóknavinnu, tengslamyndun og uppbyggingu rannsóknateyma, þ.m.t. að deila færni og tækni og þróa hagnýtar aðferðir sem sameina vísindi og hefðbundna/staðbundna þekkingu.

Gervigreindarmynd sem sýnir hengibrú í íslensku landslagi sem túlkun á tenginu íslands við Norðurlöndin

Norrænt samstarf

Norrænt samstarf á starfssviði Rannís á sér langa sögu og tekur stofnunin þátt í samstarfsnefndum á vegum Norræna ráðherraráðsins.

  • Rannís rekur landskrifstofu norrænu menntaáætlunarinnar Nordplus auk þess að hafa tímabundið umsjón með aðalskrifstofu Nordplus fyrir öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin til ársloka 2024.
  • Rannís sér um samfjármögnun nokkurra verkefna á vegum NordForsk, sem hafa skilað góðum ávinningi fyrir íslenskt rannsóknasamfélag, og verkefnin leiða auk þess til góðs samstarfs við Nordic Innovation.
  • Rannís hefur verið falið að sjá um verkefnið Menntun til sjálfbærni sem er menntahluti framtíðarstefnu Norðurlandanna um að þau verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.
  • Jafnframt sér Rannís um styrkveitingar úr sameiginlegum sjóði Íslands og Noregs sem heitir Arctic Research and Studies. Sjóðurinn er fjármagnaður af utanríkisráðuneytum ríkjanna tveggja og er honum ætlað að styrkja samstarf þjóðanna í rannsóknum á norðurslóðum.
  • Rannís er landskrifstofa Nordplus á Íslandi. Nordplus samanstendur af fimm undiráætlunum sem ná yfir öll svið menntunar. Markmið áætlunarinnar er m.a. að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.

    Árið 2024 bárust 544 umsóknir um Nordplus styrki fyrir aðalumsóknarfrest áætlunarinnar í febrúar og fjölgaði þeim um 9% milli ára. Ísland átti um 8% umsóknanna og gekk því almennt mjög vel. Þetta er metfjöldi umsókna sem borist hafa áætluninni síðan 2018. Samtals fengu 347 umsóknir styrki og var úthlutunarhlutfall umsókna um 64%. Hlutfallið milli umsótts fjármagns og því sem var úthlutað var 44%. Alls úthlutaði Nordplus rúmlega 12,6 milljónum evra til 2.291 styrkþega. Skólar, stofnanir, samtök og fyrirtæki á öllum Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og sjálfsstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum hlutu styrk. Það eru 16% færri styrkþegar en fengu úthlutun árið 2023.

    Ísland hefur umsjón með Nordplus norrænu tungumálaáætluninni. Í þann hluta bárust 32 umsóknir, eða einni færri en í fyrra, en árið 2023 bárust 55% fleiri umsóknir í áætlunina en árið áður og því jákvætt að sú tala hafi haldist nánast óbreytt milli ára.

    Hlutverk Rannís árið 2024 var fyrst og fremst að vera upplýsingaskrifstofa fyrir allar undiráætlanir Nordplus auk þess að hafa yfirumsjón með Nordplus norrænu tungumálaáætluninni. Þetta felur í sér að starfsfólk Rannís svarar spurningum um undiráætlanirnar og veitir ráðgjöf og kennslu í umsóknarferlinu auk þess sem það tekur þátt í matsferli á umsóknunum í samstarfi við landskrifstofur hinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

    Starfsfólk Rannís kynnti áætlunina á margvíslegum viðburðum yfir árið. Landskrifstofan hélt stóra rafræna ráðstefnu í samstarfi við skrifstofur hinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um verkefni með grænar áherslur 2021 og 2022 en hana sóttu tæplega 240 manns. Nordplus stóð einnig fyrir hliðarviðburði á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Reykjavík í lok október, og kynnti jafnframt starfsemi Nordplus fyrir gestum þingsins. Auk þess tók Nordplus þátt í Evrópurútunni en farið var í hringferð um landið og Nordplus kynnt fyrir 190 manns á ellefu stöðum víðs vegar um landið. Nordplus stendur einnig fyrir rafrænum kynningarfundum, bæði sameiginlegum, sem bera heitið Nordplus Café, en einnig íslenskum kynningarfundum þar sem áætlunin er kynnt og sagt frá því hvernig sækja megi um styrki til að stuðla að margvíslegri þróun á skólastarfi og menntun á Íslandi.

  • Hlutverk NordForsk er að styðja norrænt rannsóknasamstarf í gegnum samstarf stærstu fjármögnunaraðila rannsókna allra Norðurlandanna. Á vettvangi NordForsk eru samstarfsáætlanir skilgreindar á ákveðnum sviðum sem hafa það að markmiði að veita fé til sameiginlegra forgangsmála á sviði rannsókna. Á hverjum tíma er unnið að nokkrum slíkum áætlunum á ólíkum fræðasviðum og má þar nefna samfélagslegt öryggi, heilbrigðisvísindi og menntarannsóknir.

    Unnið var að eftirfarandi samstarfsáætlunum árið 2024:

    • Nordforsk – Sustainable Agriculture and Climate Change. Loftslagsbreytingar munu óhjákvæmilega hafa áhrif á landbúnað og fæðu- og fóðuröryggi. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknaverkefni á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem snúa að nýjungum í landbúnaði og aðlögun plantna að breyttum aðstæðum á svæðinu og svæðisbundinni prótínframleiðslu til manneldis og í dýrafóður. Umsóknarfestur var á árinu 2024 og er Landbúnaðarháskóli Íslands þátttakandi.
    • Nordic Programme for Interdisciplinary Research. Markmið áætlunarinnar er að styðja þverfaglegar rannsóknir, sem rjúfa hefðbundin landamæri vísinda og fræða, og taka öll Norðurlöndin þátt með fjárframlagi í sameiginlegan sjóð. Rannís heldur utan um þátttöku Íslands sem er fjármögnuð af Rannsóknasjóði. Árið 2024 var viðbótarfjármagni úthlutað til styrktra verkefna.
    • Green Transition. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknaverkefni á sviði grænna umskipta. Umsóknarfrestur var 27. ágúst 2024.

    · Sustainable health and care systems for the elderly. Markmið áætlunarinnar er að styðja rannsóknir sem auka þekkingu á og skapa lausnir á sviði sjálfbærs heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu fyrir aldraða. Opnað var fyrir umsóknir í október 2024.

    · Sustainable developement in the Arctic. Markmið kallsins er að styðja rannsóknarsamstarf þátttökulanda á norðurslóðum með það að leiðarljósi að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Umsóknarfrestur var 28. nóvember 2024.

  • Rannís tekur þátt í þremur norrænum samstarfsnefndum á vegum rannsóknaráða Norðurlandanna, NOS-HS á sviði hug- og félagsvísinda, NOS-N í raunvísindum og náttúruvísindum og NOS-M sem er samstarfsnefnd í heilbrigðisvísindum.  

    NOS-HS er samstarfsvettvangur í hug- og félagsvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Ekki var auglýst eftir umsóknum 2024.

    NOS-N er samstarfsvettvangur á vegum fjármögnunaraðila rannsókna í raunvísindum og náttúruvísindum á Norðurlöndum. Haldnir voru tveir fundir á árinu.

    NOS-M er samstarfsvettvangur í heilbrigðisvísindum á vegum fjármögnunaraðila rannsókna á Norðurlöndunum. Haldinn var einn fundur á árinu. Ísland tók við formennsku NOS-M á árinu.

  • Áætlunin byggir á tvíhliða samstarfi milli Íslands og Noregs á sviði norðurslóðafræða sem hófst árið 2011 og hefur veitt styrki, annars vegar til stúdentaskipta í háskólum á öllum námsstigum, og hins vegar til samstarfs á milli stofnana, einkum í formi ferðastyrkja. Að auki er Nansen prófessorsstaða við Háskólann á Akureyri styrkt en sú fjármögnun fer ekki í gegnum Rannís. Samstarfssamningur um umsjón Rannís með sjóðnum var endurnýjaður fyrir tímabilið 2023–2026. Áhersla núverandi tímabils sjóðsins er á sóknarstyrki vegna undirbúningsvinnu við gerð umsókna í alþjóðlega samkeppnissjóði.

    Fyrsta úthlutun fyrir núgildandi tímabil fór fram í byrjun árs 2024 og voru fimm af tíu verkefnum sem sótt var um í gegnum áætlunina styrkt að upphæð samtals 17 m.kr.

    Í júní 2024 fór fram viðburður á High North Dialogue ráðstefnunni í Bodø þar sem samstarfsverkefni sjóðsins voru kynnt.

  • Verkefnið Menntun til sjálfbærni hefur frá árinu 2021 verið hluti af áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbært líferni (e. Sustainable Living) sem styður framtíðarsýn Norðurlandanna um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Markmið verkefnisins er innleiðing sjálfbærrar þróunar í menntun á öllum skólastigum, allt frá leikskóla til fullorðinsfræðslu, með sérstakri áherslu á hlutverk kennara og þekkingu þeirra. Verkefnastjórnun var í höndum Rannís og í verkefninu tók hópur norrænna sérfræðinga þátt. Meðal þátttakenda voru fulltrúar allra Norðurlanda og sjálfstjórnarsvæða, að Færeyjum undanskildum.

    Árið 2024 var lokaár verkefnisins þar sem unnið var að því að ljúka öllum sex verkefnum áætlunarinnar og taka saman niðurstöður. Sérfræðingahópurinn, undir forystu Ólafs Páls Jónssonar prófessors við Háskóla Íslands, lauk við netkönnun meðal kennara á Norðurlöndum sem hafði það að markmiði að kortleggja þarfir þeirra og greina árangursríkar aðferðir í kennslu á sjálfbærni. Niðurstöðurnar voru teknar saman í skýrslunni Sustainability Education in the Nordic Countries, þar sem fram komu tillögur og verkfæri til að styrkja sjálfbærnimenntun, sem og stefnumótandi ábendingar fyrir stjórnvöld og menntakerfið í heild sinni.

    Áhersla var lögð á að miðla niðurstöðum verkefnisins og tengja þær við stefnumótun í málefnaflokknum á Norðurlöndunum. Verkefnið var sýnilegt á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík þar sem haldinn var hliðarviðburður og verkefnið kynnt ásamt Nordplus, norrænu menntaáætluninni. Fulltrúar verkefnisins stóðu einnig að, ásamt fulltrúum hinna fimm verkefna áætlunarinnar, Sustainable Living Summit í Stokkhólmi, þar sem rúmlega 600 þátttakendur komu saman. Þar voru niðurstöður verkefnisins kynntar og pallborðsumræður um sjálfbærni og stafræn tól í kennslu fóru fram.

    Samstarf við NVL, norrænt tengslanet um nám fullorðinna, var einnig mikilvægur þáttur í verkefninu. NVL stóð fyrir vefnámskeiðum um sjálfbærni í fullorðinsfræðslu og gaf út stefnumótandi samantekt um sjálfbærni í námi fullorðinna á Norðurlöndunum. Henrika Nordin, verkefnastjóri NVL, kynnti niðurstöður þeirra á lokaviðburðinum í Stokkhólmi og lagði áherslu á mikilvægi þess að nýta fullorðinsfræðslu til að miðla sjálfbærnimenntun.

    Fulltrúar verkefnisins störfuðu einnig náið með Nordplus, norrænu menntaáætluninni, og tóku þátt í Grænni ráðstefnu til að stuðla að miðlun menntaverkefna um sjálfbærni enn frekar. Með þessu var tryggt að niðurstöður verkefnisins næðu til breiðari markhópa, þar á meðal óbeint til barna og ungmenna, og hefðu áhrif á menntaumhverfi Norðurlandanna.

    Á þessum fjórum árum hefur með verkefninu verið lagður grunnur að kerfislægum breytingum sem munu styðja Norðurlöndin í að ná markmiðum sínum í sjálfbærni og samfélagslegri þróun.

  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið stýrir samstarfinu fyrir hönd Íslands en Rannís sér um framkvæmd verkefnisins. Veittir eru styrkir til ferða- og dvalarkostnaðar fyrir vísindamenn til gagnkvæmra heimsókna og á árinu fóru fimm aðilar í slíkar heimsóknir til Frakklands. Umsóknarfrestur er annað hvert ár og verður næst auglýst eftir umsóknum 2025.

  • Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) hefur verið til húsa að Borgum á skólasvæði Háskólans á Akureyri frá árinu 2017 og er rekin samkvæmt samningi IASC og Rannís sem gildir til ársloka 2026. IASC er leiðandi alþjóðleg vísindastofnun á norðurslóðum með 24 þátttökulöndum. Hlutverk IASC er að hvetja til samstarfs og greiða fyrir samstarfi á öllum sviðum norðurslóðarannsókna, í öllum löndum sem stunda rannsóknir á norðurslóðum og á öllum svæðum norðurskautsins. IASC er áheyrnarfulltrúi í Norðurskautsráðinu.

    Helstu vísindastörf IASC eru unnin af fimm vinnuhópum þess: Atmosphere; Cryosphere; Marine; Social and Human; and Terrestrial. Á árinu 2024 veittu hóparnir m.a. undirbúningsstyrki til 20 alþjóðlegra verkefna og gáfu út skýrsluna IASC State of Arctic Science Report 2024. IASC Fellowship áætlunin styður þátttöku nýrra vísindamanna í starfi vinnuhópanna. Arctic Science Summit Week IASC ráðstefnan fór fram dagana 21.–29. mars 2024 í Edinborg.

    Frá 2022 til 2026 hefur IASC umsjón með 4thInternational Conference on Arctic Research Planning (ICARP IV) ferlinu. Á árinu 2024 unnu sjö ICARP IV teymi, með 170 vísindamenn, innfædda þekkingarhafa (e. indigenous knowledge holders) og kennara frá 26 löndum (þar á meðal Íslandi) innanborðs, sem munu vinna að þekkingareyðum, forgangsröðun og þarfagreiningu fyrir rannsóknir á norðurslóðum næsta áratuginn, auk þess að leita leiða til að mæta þessum þörfum og kanna möguleika á nýjum samstarfshópum og samstarfsverkefnum. Vinnuhóparnir héldu fund á Akureyri 21.–24. október 2024 með rúmlega 50 þátttakendum frá 13 löndum til undirbúnings ICARP IV ráðstefnunnar sem fram fer í Boulder, Colorado, 20. –28. mars 2025. Niðurstöður ICARP IV ferlisins munu leggja grunninn að þróun rannsóknarþema norðurslóða fyrir fimmta alþjóðlega heimskautaárið (e. 5th International Polar Year 2032–33).