Ávarp forstöðumanns

Gott ár í starfsemi Rannís

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, fer yfir árið 2024

Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís fyrir framan vegg með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna

Afmælisár

Árið 2024 var gott ár í starfsemi Rannís heilt yfir. Haldið var upp á 30 ára afmæli EES samningsins með margvíslegum hætti en Rannís hefur borið ábyrgð á rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB frá upphafi. Raunar má segja að Rannís sjálft hafi átt 30 ára afmæli þótt „Rannís“ skammstöfunin hafi ekki komið fram fyrr en 1995. Haldið var upp á 20 ára afmæli Tækniþróunarsjóðs sem hefur verið annar tveggja burðarsjóða Rannís á þeim tíma. Nokkur samdráttur varð í fjárveitingum til stærstu sjóða sem Rannís sér um en stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki hélt áfram að aukast. Þá gerðist það í fyrsta sinn að umsýsla með sjóði var færð frá Rannís og yfir til nýstofnaðrar Tónlistarmiðstöðvar sem mun samt nýta sér umsókna- og umsýslukerfi Rannís. Tveir nýir sjóðir bættust hins vegar við þá sem fyrir eru þannig ekki varð neinn samdráttur í rekstri. Alþjóðlegt samstarf gekk vel og sérstaklega skiluðu smærri áætlanir góðum árangri á þessu afmælisári.

„ Langstærsta einstaka úrræðið sem Rannís hefur umsjón með er stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki sem hefur aldrei verið meiri en árið 2024. “

Heildarumfang um 35 milljarðar króna

Heildarumfang allra sjóða og alþjóðlegra áætlana sem Rannís hefur umsýslu með var um 35 milljarðar króna á árinu 2024. Það er nokkur aukning frá árinu áður þrátt fyrir að fjárveitingar til nokkurra rannsókna- og nýsköpunarsjóða hafi lækkað. Langstærsta einstaka úrræðið sem Rannís hefur umsjón með er stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki sem hefur aldrei verið meiri en árið 2024. Rúmlega 16 milljarða stuðningur var veittur í formi skattfrádráttar og beinna útgreiðslna frá Skattinum og var sú aukning meiri en sem nam um 15% lækkun á fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs. Þá varð einnig aukning í styrkveitingum til íslenskra aðila úr erlendum áætlunum.

Áframhaldandi góður gangur í alþjóðlegu samstarfi

Alþjóðlegt samstarf, sem Rannís sér um, gekk áfram vel á árinu 2024. Ný kynslóð samstarfsáætlana Evrópusambandsins fór hægt af stað árið 2021 en frá árinu 2023 hafa áætlanirnar gengið mjög vel. Sérstaka athygli vakti mjög stór styrkur sem Umhverfisstofnun og fleiri íslenskir samstarfsaðilar hlutu úr LIFE umhverfis- og loftslagsáætlun ESB. Verkefnið er samstarf 23 aðila um innleiðingu á vatnaáætlun Íslands og er meðal stærstu Evrópustyrkja sem veittir hafa verið til íslenskra verkefna.

Þær áætlanir sem Rannís hefur lengi séð um gengu ekki síður vel. Mannaskipti og menntasamstarf af margvíslegu tagi eru komin á fullt aftur eftir heimsfaraldurinn og hefur Landskrifstofa Erasmus+ aldrei úthlutað eins miklu fjármagni. Þá var enn eitt metárið í Creative Europe og er sá árangur sem íslenskur sjónvarps- og kvikmyndaiðnaður hefur náð með ólíkindum. Ástæða þess að árið 2024 var enn árangursmeira en árið á undan – sem þó var líka metár – voru styrkir til menningarfyrirtækja en eitt þeirra hlaut hæsta styrk sem Creative Europe hefur veitt til íslensk verkefnis til þessa, eða eina milljón evra.

Alþjóðlegt samstarf snýst ekki bara um að afla styrkja heldur ekki síður að efla samstarf á málefnasviðum stofnunarinnar. Ánægjulegt er að segja frá því að vestnorrænu samstarfi við færeyska og grænlenska rannsóknaráðið, sem stofnað var til 2022 og 2023, var haldið áfram á árinu með árangursríkri vinnustofu í Færeyjum í lok ágúst og sameiginlegri málstofu á Hringborði Norðurslóða.

Á árinu 2024 var samið um næsta tímabil í Uppbyggingarsjóði EES ríkjanna sem felur í sér stuðning við 12 ESB ríki sem standa verst að vígi efnahagslega. Rannís hefur gegnt hlutverki landstengiliðs á sviði rannsókna og nýsköpunar, menntunar og menningar. Í lok árs var frá því gengið að Rannís verður landstengiliður fyrir allar áætlanir sem komið verður á fót og við öll lönd sem þiggja stuðning. Sérstaklega mikilvægt verður samstarf við Pólland sem fær hæstu upphæð einstakra styrkþegaríkja. Námsferð alls starfsfólks til Varsjár í byrjun september var mjög gagnlegt innlegg í undirbúning fyrir næsta tímabil Uppbyggingarsjóðsins.

„Sá góði árangur sem náðist í starfsemi stofnunarinnar árið 2024 er fyrst og fremst því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Rannís að þakka.“

Viðburðaríkt ár

Innra starf og rekstur Rannís gekk vel á árinu. Erlendar sértekjur stofnunarinnar jukust milli ára en samdráttur varð í beinu framlagi ríkisins og var rekstrarafkoman neikvæð þannig að eigið fé stofnunarinnar er uppurið. Var það í samræmi við áætlanir að ljúka umbótum á húsnæði og efla enn frekar umsýslukerfi Rannís. Þá skilaði Rannís gögnum til Þjóðskjalasafns með rafrænum hætti í fyrsta sinn og gekk það vel. Er þannig stigið enn eitt skrefið í átt að því að stafvæða starfsemina.

Starfsandi var góður og mikil þátttaka í þeim starfsmannaviðburðum sem skipulagðir voru. Ber þar hæst námsferð alls starfsfólks til Varsjár og árshátíð Rannís sem þar var haldin. Þetta var afar vel heppnuð námsferð og ánægjuleg samverustund fyrir starfsfólk. Þá halda viðskiptavinir stofnunarinnar áfram að vera ánægðir með starfsfólkið samkvæmt þjónustukönnun ríkisins sem Rannís tók þátt í á síðari hluta ársins.

Eins og hefð er fyrir stóð starfsfólk Rannís fyrir mörgum viðburðum á árinu. Þar bar hæst vel heppnuð Vísindavaka. Mjög mikilvægt var að geta haldið viðburðinn þrátt fyrir að ekki hafi fengist styrkur frá rannsóknaáætluninni að þessu sinni. Yfir sex þúsund manns lögðu leið sína í Laugardalshöllina og hittu þar fyrir um 40 sýnendur sem höfðu meira rými til ráðstöfunar en nokkru sinni fyrr. Fjölskyldufólk var mjög áberandi sem var afar ánægjulegt og það var gaman að sjá áhugann hjá börnunum.

Stofnunin hefur eflst á síðustu árum og talsvert hefur bæst í hópinn af nýju fólki en jafnframt er stór hópur sem hefur mikla starfsreynslu. Sá góði árangur sem náðist í starfsemi stofnunarinnar árið 2024 er fyrst og fremst því frábæra starfsfólki sem vinnur hjá Rannís að þakka.

„Stafræn stjórnsýsla verður þannig áfram í brennidepli á árinu."

Spennandi tímar fram undan

Ef horft er fram á veginn til ársins 2025 þá eru nokkur stór verkefni fram undan: Ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum í byrjun árs og nýtt ráðuneyti menningar, nýsköpunar og háskóla tekur til starfa í mars. Nýr ráðherra hyggst halda áfram þeirri vinnu sem hafin var við endurskoðun á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem fela í sér lagagrundvöll Rannís. Líklegt er að nýr ráðherra horfi til þess að sameina sjóði í samræmi við hagræðingaráform. Þá verður haldið áfram að þróa eina sjóðagátt sem allir opinberir aðilar geta nýtt. Þar verður byggt á því öfluga kerfi sem Rannís hefur þróað og þannig tryggt að betri upplýsingar liggi fyrir um hverjir njóta stuðnings úr opinberum sjóðum.

Stafræn stjórnsýsla verður þannig áfram í brennidepli á árinu. Í innra starfi verður lokið við að taka upp rafræn samningakerfi í öllum sjóðum sem Rannís hefur umsjón með og komið á tengingu við greiðslukerfi Fjársýslunnar. Þá er unnið að innleiðingu kerfis sem veitir stofnuninni betri yfirsýn yfir allan þann fjölda viðskiptavina sem stofnunin á í samskiptum við. Loks verður lokið við nýjan og fyllilega tvítyngdan vef Rannís á árinu sem er hýstur hjá Stafrænu Íslandi. Er það liður í að bæta þjónustu Rannís við allt Ísland og öll sem þar búa.

Samhliða endurskoðun á lagalegum grunni mun stofnunin vinna að eigin stefnumótun á árinu. Núgildandi stefna stofnunarinnar er til ársins 2025 og hefur reynst gagnlegt leiðarljós í starfinu. Stefnt er að því að ný stefna varði veginn til ársins 2030.

Loks má þess geta að á árinu mun ný framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggja fram tillögur að nýjum fjárhagsramma og næstu kynslóð samstarfsáætlana fyrir tímabilið 2028–2034. Breyttar aðstæður í heiminum fela í sér að lögð verður meiri áhersla á samkeppnishæfni Evrópu og svo öryggis- og varnarmál. Það verður því mikilvægt fyrir stjórnvöld og Rannís að fylgjast vel með og koma sjónarmiðum og hagsmunum Íslands vel til skila í því samráðsferli sem fram undan er.

Það er því hugur í starfsfólki Rannís sem mun halda áfram að eiga í góðu samstarfi við fjölmarga aðila og af mikilli fagmennsku – eins og þessi ársskýrsla ber vitni um – og halda þannig áfram að hafa áhrif til góðs í íslensku samfélagi.