Viðburðir

Evrópusamvinna í 30 ár

Á árinu voru 30 ár liðin frá því að samningur um Evrópska efnahagssvæðið (EES) tók gildi og veitti Íslandi meðal annars aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins og aukin tækifæri til samstarfs í Evrópu. Í tilefni af þeim tímamótum skipulagði Rannís, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi, málþing og uppskeruhátíð sem haldin voru í maí. Þá skipulagði Rannís í samstarfi við sendinefnd ESB á Íslandi hringferð um landið, Evrópurútuna, þar sem evrópuverkefnum á landsbyggðinni var sérstaklega fagnað.

Málþing - EES í 30 ár - ávinningur, tækifæri, áskoranir

Málþingið bar yfirskriftina „EES í 30 ár, ávinningur, tækifæri, áskoranir“ og var haldið á Grand Hóteli Reykjavík 8. maí. Á þinginu var sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér.

Á málþinginu tóku til máls Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytinu; Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra; Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra; Iliana Ivanova, framkvæmdastjóri nýsköpunar-, rannsóknar-, menningar- , mennta-, og æskulýðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins; Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi; Borgar Þór Einarsson, varaframkvæmdastjóri Uppbyggingarsjóðs EES, og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís.

Myndir frá Málþingi

Uppskeruhátíð Evrópuverkefna

Uppskeruhátíð Evrópuverkefna var haldin hátíðlega þann 8. maí í glæsilegu sýningarrými í Kolaportinu. Rúmlega 50 sýningarbásar voru á svæðinu þar sem þátttakendur kynntu framúrskarandi verkefni sem notið hafa stuðnings í gegnum þær Evrópuáætlanir sem Ísland er aðili að og Rannís hefur umsjón með. Þá tóku mörg sendiráð Evrópusambandsríkja þátt og buðu gestum að kynnast mat og menningu sinna landa. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnaði hátíðina og boðið var upp á afmælisköku og kaffi. Þá var einnig boðið upp á lifandi tónlist og stutta fyrirlestra á sviði. Gæðaviðurkenning Erasmus+ var veitt framúrskarandi verkefnum sem tóku þátt í hátíðinni

Myndir frá Uppskeruhátíð

Evrópurútan á ferð um landið

Í september lagði Rannís og landskrifstofa Erasmus+, í samstarfi við sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, land undir fót með viðburðaröð sem bar nafnið Evrópurútan á ferð um landið.

Skipulagðir voru alls 11 samráðsfundir víðs vegar um landið í samstarfi við landshlutafélög og atvinnu- og þróunarfélög á landsbyggðinni. Á fundunum voru tækifæri á styrkjum og stuðningi í Evrópuáætlunum kynnt ásamt því að gestir á hverjum stað fengu að heyra reynslusögur frá vel heppnuðum verkefnum í heimabyggð sem höfðu hlotið Evrópustyrk. Boðið var annað hvort upp á kaffiveitingar eða hádegisverð eftir því á hvaða tíma viðburðirnir fóru fram.

Ekið var frá Reykjavík hringinn í kringum landið og fundnir haldnir á Akranesi, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Þórshöfn, Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði og Vík í Mýrdal. Þá voru farnar dagsferðir til Ísafjarðar (með flugi) og ekið til Reykjanesbæjar og Selfoss.