Útgáfu- og kynningarmál

Miðlun upplýsinga 

Rafræn miðlun upplýsinga skipar stóran sess í samskipta- og kynningarstarfi Rannís. Vefur Rannís og samfélagsmiðlar eru uppfærðir daglega. Útgefið kynningarefni, í prentuðu formi, um starfsemi Rannís, sjóði og áætlanir er unnið með tilliti til umhverfissjónarmiða og góðs endingartíma.

Gervigreindarmynd sem sýnir veg meðfram á í íslensku landslagi.

Vefur Rannís

Vefur Rannís er grunnstoðin í samskiptamálum stofnunarinnar. Á vefnum er hægt að nálgast upplýsingar um starfsemi Rannís, auglýsingar um umsóknarfresti, úthlutunarfréttir, viðburði og kynningar og allar upplýsingar um sjóði í umsýslu Rannís. Núverandi vefur er frá árinu 2014 og hefur að mestu leyti haldist óbreyttur fyrir utan minni háttar útlitsbreytingar á síðustu árum.

Unnið er að nýjum vef fyrir stofnunina, undir island.is, í samstarfi við Stafrænt Ísland og Hugsmiðjuna. Unnið hefur verið að því að byggja upp stofnanavef Rannís, ásamt vefsíðum sjóða, og síðast en ekki síst Styrkjatorgi sem mun veita yfirsýn yfir alla styrki og tækifæri sem Rannís, sem og aðrar stofnanir, hafa upp á að bjóða. Vegna töluverðrar forritunarvinnu við nýjan vef hefur verkáætlun verið uppfærð og gert er ráð fyrir að nýr vefur Rannís, ásamt styrkjatorginu verði að fullu kominn í loftið árið 2025 og um leið verður eldri vef lokað.

Á vefsíðu Rannís geta notendur vefsins nálgast allar upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar og þá þjónustu sem hún veitir. Áhersla er lögð á að leit sé skilvirk og að notendur fái hraða og örugga þjónustu. Hægt er að kalla fram upplýsingar á einfaldan og öruggan hátt um alla sjóði og verkefni í umsýslu Rannís, næstu umsóknarfresti og þá viðburði sem eru á döfinni.

Vefurinn er uppfærður daglega og á forsíðu eru reglulega settar inn nýjar fréttir og upplýsingar um verkefni, sjóði og umsóknarfresti. Vefurinn hentar til skoðunar í öllum tækjum, hvort sem um er að ræða tölvuskjá, spjaldtölvu eða snjallsíma. Vefurinn er því öflug gátt inn í starfsemi stofnunarinnar.

Á enska vef Rannís er hægt að nálgast helstu upplýsingar um starfsemi Rannís sem og um verkefni og sjóði í umsýslu Rannís á ensku. Vefurinn er ekki bein speglun á íslenska vefnum, heldur er þetta ritstýrð útgáfa sem veitir aðeins lykilupplýsingar á ensku.

Mynd sem sýnir skjáskot af forsíðunni á vef Rannís

Á Rannís vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um verkefni og þjónustu í umsýslu Rannís.

Helstu tölur:

  • Rannís vefurinn var heimsóttur um 283.700 sinnum á árinu, af rúmlega 111.000 gestum.
    Alls var flett í gegnum rúmlega 665.000 síður.
  • Í september voru flestar heimsóknir á Rannís vefinn, 37.600 talsins.
  • Síða Listamannalauna fékk flestar heimsóknir af sjóðasíðunum, eða tæplega 6.900. Næst flestar heimsóknir fékk síða Tækniþróunarsjóðs með um 5.000 heimsóknir og svo Nýsköpunarsjóður námsmanna með tæplega 3.700 heimsóknir.
  • Enski vefurinn fékk 22.000 heimsóknir á árinu frá um 21.000 gestum.
  • Erasmus+ vefurinn var heimsóttur rúmlega 42.700 sinnum á árinu af rúmlega 26.600 gestum.
    Alls var flett í gegnum tæplega 106.000 síður á vef Erasmus+.
  • Frétt um úthlutun Listamannalauna 2024 var mest lesna frétt ársins á vef Rannís með um 3.159 heimsóknir.
  • Fjölmennasti aldurshópurinn sem heimsækir vef Rannís er 25–34 ára.
  • Tæplega 43% umferðar fer í gegnum snjalltæki (síma eða spjaldtölvu).

Vefsvæði tengd sérverkefnum

Rannís heldur einnig utan um nokkur vefsvæði er tengjast sérverkefnum í umsjón stofnunarinnar.

Farabara.is er vefur sem veitir upplýsingar um námsmöguleika erlendis.

Landskrifstofa Erasmus+ heldur úti sérvefsvæði fyrir Erasmus+ áætlunina en þar eru veittar upplýsingar um áætlunina og verkefni tengdum henni (þar á meðal European Solidarity Corps).

Á vefsvæði Vísindavöku er hægt að nálgast allar upplýsingar um viðburði sem tengjast Vísindavöku á Íslandi.

Rannís heldur einnig utan um Eurodesk síðuna sem veitir ungu fólki upplýsingar um ýmis tækifæri sem því býðst á erlendri grundu. Enn fremur þjónustar starfsfólk Rannís íslenskan hluta fjölmargra alþjóðlegra vefsvæða er tengjast fjölmörgum verkefnum í umsýslu Rannís.

Mynd sem sýnir skjáskot af forsíðunni á vef Erasmus plús

Á Erasmus+ vefnum er hægt að nálgast allar upplýsingar um áætlunina og verkefni tengd henni.

Mynd sem sýnir skjáskot af forsíðunni á vef Farabara.is

Upplýsingastofa um nám erlendis og Study in Iceland

Hlutverk upplýsingastofunnar er að veita leiðbeinandi ráðgjöf til þeirra sem hyggjast fara í nám erlendis og aðstoða fólk í gegnum síma, tölvupóst og fjarfundi. Upplýsingastofan heldur úti vefnum FaraBara en nýr og endurbættur vefur var settur í loftið í lok árs 2023. Nýi vefurinn er mun aðgengilegri í snjallsíma en sá gamli en heimsóknir fyrstu 10 mánuði ársins 2024 voru 10.507.

Upplýsingastofan tók einnig þátt í kynningum í menntaskólum og háskólum ásamt Eurodesk og æskulýðsteymi landskrifstofu Erasmus+. Náðu þessar kynningar til fleiri en 1.800 ungmenna vítt og breitt um landið. Upplýsingastofan heldur áfram að vera í góðu samstarfi við SÍNE (Samtök íslenskra námsmanna erlendis) en margar af reynslusögum nemenda eru t.d. birtar í samvinnu við SÍNE á vefnum farabara.is.

Study in Iceland vefurinn er yfirfarinn af starfsfólki upplýsingastofunnar en það er Íslandsstofa sem heldur vefnum úti. Einstaka sinnum berast fyrirspurnir um nám á Íslandi sem starfsfólk upplýsingastofunnar svarar einnig.

Kynningar

Framhaldsskólar og háskólar hafa verið aðalmarkhópar kynningastarfs á tækifærum fyrir ungt fólk á aldrinum 13-30 ára. Yfir 30 kynningar voru haldnar víðs vegar um landið til að miðla upplýsingum um tækifæri í námi erlendis, skiptinámi, sjálfboðaliðastörfum, ungmennaskiptum og öðru, sem stendur ungu fólki til boða, í gegnum áætlanir og stoðverkefni Rannís og náðu þær til rúmlega 1.800 manns. Samfélagsmiðlar hafa verið vel nýttir til að miðla þessum tækifærum og var aukinn kraftur lagður í samfélagsmiðla Erasmus+ og Eurodesk á Íslandi. Það er einmitt starfsfólk landskrifstofunnar og Eurodesk sem hefur annast þessar kynningar ásamt starfsfólki upplýsingastofu um nám erlendis.

Samfélagsmiðlar 

Samfélagsmiðlar er nýttir til að auka sýnileika, koma skilaboðum á framfæri, opna fyrir samskipti og styðja virkni heimasíðunnar.

Stefna Rannís um viðveru og miðlun á samfélagsmiðlum er í reglulegri endurskoðun í takti við þróun flóru samfélagsmiðla.

Facebook: Rannís heldur úti nokkrum Facebook síðum. Á Rannís síðunni er fréttum af vef Rannís deilt og sagt frá helstu viðburðum á vegum stofnunarinnar. Einnig halda nokkur verkefni, sem eru í umsýslu Rannís, úti sérsíðum, t.d. Erasmus+, Tækniþróunarsjóður, Europass, Epale Ísland, Creative Europe Desk á Íslandi, Vísindavaka, eTwinning á Íslandi og Eurodesk Ísland.

LinkedIn: Rannís er með LinkedIn síðu og deilir þar fréttum af vef Rannís og helstu viðburðum á vegum stofnunarinnar. Einnig eru Tækniþróunarsjóður og Enterprise Europe Network með sérsíður á LinkedIn.

X: Rannís er með X (Twitter) reikning þar sem helstu fréttum og upplýsingum um viðburði er deilt. Nokkur verkefni í umsjón Rannís hafa einnig eigin X (Twitter) reikninga, t.d. Erasmus+ menntun, Creative Europe, eTwinning, Nýsköpunarsjóður námsmanna, IASC, Tækniþróunarsjóður og Epale Ísland.

Instagram: Rannís er með reikning á Instagram. Þrjú verkefni í umsjón Rannís eru einnig með eigin Instagram reikninga: Eurodesk Ísland, Erasmus+ og Vísindavaka.

Helstu tölur:

  • Rannís heldur utan um átta X (Twitter) reikninga.
  • Rannís heldur utan um níu Facebook reikninga.
  • Fylgjendur Rannís reikningsins á Facebook eru 4.026 og stækkaði fylgjendahópurinn um 14% á árinu.
  • Fylgjendur Erasmus+ reikningsins á Facebook eru 5.542.
  • Alls sáu 154.200 manns færslur og auglýsingar frá Facebook síðu Rannís á árinu sem er tæplega 14% aukning milli ára.
  • Alls sáu 28.800 manns færslur og auglýsinar á Instagram síðu Rannís á árinu.
  • Heildarfjöldi birtinga á efni Rannís á Facebook var 529.000 sinnum og skiptist á milli auglýsinga (87%) og birtu efni í fréttaveitu (13%).

Myndbönd í kynningarstarfi

Rannís heldur úti YouTube rás þar sem birt eru ýmis myndbönd sem tengjast starfseminni. Einnig heldur Erasmus+ verkefnið úti eigin YouTube rás þar sem kynntir eru þeir möguleikar sem standa til boða í áætluninni og tengdum verkefnum. Fjölmörg myndbönd eru einnig aðgengileg á Facebook reikningum stofnunarinnar sem og á vef.

Dæmi um myndbönd sem gerð voru á árinu og birt á YouTube:

· Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna – Árangurssaga Solid Clouds

· Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna – Árangurssaga Kerecis

· Enterprise Europe Network – Árangurssaga Defend Iceland

· Menntun til sjálfbærni – Umfjöllun um lokaskýrslu verkefnis

Á YouTube má einnig finna upptökur úr streymi frá ýmsum viðburðum sem bæði Rannís og landskrifstofa Erasmus+ stóðu fyrir á síðasta ári.

Rafrænar útsendingar á póstlista 

Reglulega eru sendar út tilkynningar á póstlista Rannís. Þau sem skráð eru á póstlistann fá fyrst og fremst sendar áminningar um áhugaverða viðburði en einnig upplýsingar um umsóknarfresti fram undan sem og auglýsingar um tilnefningar til verðlauna og fleira.

Hægt er að skrá sig á póstlistann á vefsíðu Rannís og voru áskrifendur í lok árs 2.581.
Við skráningu á póstlistann er hægt að velja milli sjö ólíkra markhópa eftir áhugasviðum áskrifenda.

Auðvelt er að afskrá sig af póstlistanum og uppfæra upplýsingar til samræmis við persónuverndarlög.

Á árinu voru sendir út um 37 markpóstar á póstlistann til mismunandi markhópa, í tæplega 69.000 útsendingum; boðsbréf á viðburði, áminningar um umsóknarfresti, fréttabréf og fleira.

Skráning á póstlista Rannís

Sýnileiki í fjölmiðlum 

Starfsemi Rannís var vel sýnileg í fjölmiðlum á árinu. Alls var fjallað um Rannís í 771 frétt/grein sem er um 31% auking milli ára. Þar af voru 400 fréttir/greinar í netmiðlum, 160 í prentmiðlum og 24 í sjónvarpi/útvarpi. Það sem helst vekur athygli fjölmiðla eru stórar úthlutanir til ákveðinna verkefna, svo sem úr Tækniþróunarsjóði, Rannsóknasjóði, Erasmus+, Barnamenningarsjóði Íslands, Jafnréttissjóði Íslands og til Listamannalauna.
Að sama skapi beinast sjónir fjölmiðla að framúrskarandi verkefnum sem unnið hafa styrki úr sjóðum sem heyra undir Rannís. Einnig vöktu veiting viðurkenninga, eins og Nýsköpunarverðlauna Íslands og Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands, athygli.

Prentgripir, prentað kynningarefni og skýrslur

Prentað kynningarefni innlendra sjóða og erlendra áætlana var unnið eftir þörfum og lagt upp með að kynningarefni væri tímalaust og því nothæft til lengri tíma. Haldið var áfram með prentun á spjöld í nafnspjaldastærð fyrir einstaka sjóði og áætlanir. Þá var unnið að endurnýjun stærra kynningarefnis á borð við gardínustanda. Eldri gardínustandar voru þá endurnýttir og einungis prentaðar nýjar gardínur og settar í eldri standa. Þá keypti Rannís tvo ljósaveggi með útskiptanlegu kynningarefni sem nýtist í stærri kynningarviðburði sem Rannís og/eða Landskrifstofa tekur þátt í á Íslandi.

Birtingar á auglýsingum í prentuðum blöðum voru þó nokkrar en þar var athygli vakin á umsóknarfrestum og viðburðum Rannís. Í því samhengi má nefna birtingar í Morgunblaðinu, Heimildinni, Bændablaðinu og birtingar á auglýsingum fyrir Evrópurútuna í viku- og dagskrárblöðum á landsbyggðinni.