Starfsemi og skipulag

Mennta- og menningarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar og fer með umsýslu alþjóðlegra áætlana og innlendra sjóða sem veita styrki til íslensks mennta-og menningarsamfélags, auk þess sem það rekur upplýsingaveitur um tækifæri til náms og starfa erlendis. Það sinnir auk þess upplýsingaþjónustu og stuðningi við stefnumótun í mennta- og menningarmálum.

Gervigreindarmynd sem sýnir bæ á Íslandi með stórri byggingu í miðjunni með hlutum sem tengjast menntun og menningu.

Það helsta sem má nefna

  • Haldið upp á 30 ára afmæli EES-samningsins með fjölbreyttum hætti
  • Evrópuár færni (e. European Year of Skills) í brennidepli
  • 14 milljónir evra til úthlutunar úr Erasmus+ og European Solidarity Corps
  • Menningar- og kvikmyndageirinn hlýtur 3,1 milljón evra í styrki á árinu
  • Tónlistarsjóður og Hljóðritasjóður sameinaðir og fluttir til Tónlistarmiðstöðvar
  • Félags- og vinnumarkaðsáætlun ESB kemur í umsjá Rannís

Aukin sókn í sjóði og samstarfsáætlanir

Árið einkenndist af stóraukinni sókn í alla sjóði og samstarfsáætlanir á mennta- og menningarsviði, bæði innlenda og evrópska sjóði, jafnt sem norrænar samstarfsáætlanir. Alþjóðlegt samstarf hefur náð fyrra flugi, og gott betur en það, og fór fjöldi umsókna í Erasmus+ og European Solidarity Corps fram úr björtustu vonum auk þess sem umsóknir í allar undiráætlanir Nordplus voru fleiri en nokkru sinni áður. Menningargeirinn á Íslandi landaði fjölmörgum styrkjum úr Creative Europe og var árangur okkar á sviði menningar, kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar með eindæmum góður á árinu. Mikill vöxtur var líka í umsóknum í þá 13 innlendu sjóði sem sviðið hefur umsjón með og ánægjulegt er að fylgjast með sköpunarkraftinum sem býr í mennta-, æskulýðs- og menningargeiranum á landinu.

Nokkrir helstu hápunktar ársins 2024 tengdust 30 ára afmæli EES-samningsins en Rannís skipulagði þrjá viðburði af því tilefni í góðu samstarfi við Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi. Að vori voru haldin málþing og uppskeruhátíð Evrópusamstarfs og að hausti lagði Evrópurútan í hringferð um landið með allar samstarfsáætlanir, sem Rannís hefur umsjón með, í farteskinu. Starfsfólk mennta- og menningarsviðs undirbjó viðburðina í samstarfi við kynningarteymi Rannís og alþjóðateymi rannsókna- og nýsköpunarsviðs og á vinnuhópurinn mikið hrós skilið fyrir frábærar hugmyndir og góða skipulagningu.

Aðrir viðburðir voru líka fyrirferðamiklir í starfi mennta- og menningarsviðs á árinu, kynningarstarf var eflt og margir alþjóðlegir vinnuhópar og gestir sóttu okkur heim. Sérstök áhersla var lögð á að halda kynningarfundi á landsbyggðinni, bæði einstaka kynningar en einnig með Evrópurútunni, og erum við afar stolt af því að hafa heimsótt bæi í öllum landshlutum á árinu til að kynna tækifæri og styrki sem í boði eru

Evrópuár færni

Árið 2024 var síðara ár af tveimur, sem var tileinkað færni á Evrópuvísu, undir heitinu European Year of Skills, og tengist það inn á flesta hluta starfsemi mennta- og menningarsviðs. Átakið var nýtt til að vekja athygli á tækifærum sem tengjast samstarfi í námi og þjálfun á öllum stigum með sérstakri áherslu á starfsmenntun og fullorðinsfræðslu. Fulltrúar mennta- og menningarsviðs Rannís héldu áfram samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem hefur umsjón með Evrópuári færni hér á landi og fólst samstarfið í setu í vinnuhópi um átakið sem gekk mjög vel.

Miðmat Evrópuáætlana

Á árinu voru nærri 14 milljónir evra til úthlutunar úr Erasmus+ og European Solidarity Corps og hafði starfsfólk Landskrifstofunnar í nógu að snúast við að afgreiða umsóknir og styðja umsækjendur jafnt sem verkefnastjóra þeirra verkefna sem eru í gangi. Ákveðin tímamót voru í evrópskum áætlunum þar sem yfirstandandi starfstímabil þeirra er nú hálfnað. Af því tilefni var staðan tekin með svokölluðu miðmati sem fór fram í öllum þátttökulöndum en tilgangur þess er að meta hvernig til hefur tekist og línur lagðar fyrir næsta tímabil. Matið kom mjög vel út fyrir íslensku Landskrifstofuna og er það ekki síst frábæru starfsfólki Erasmus+ teymis mennta- og menningarsviðs að þakka.

Velgengni menningar- og kvikmyndageirans

Menningar- og kvikmyndageirinn sótti töluvert í Creative Europe og á árinu fengu íslenskir þátttakendur um 3,1 milljón evra í styrki. Sem fyrr var mest sótt í MEDIA hluta áætlunarinnar sem skilaði sér í miklum fjölda styrkja til íslenskrar kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar. Nítján umsóknir voru sendar inn til að þróa verkefni af ýmsu tagi, leiknar kvikmyndir, sjónvarpsþáttaraðir, tölvuleiki, heimildamyndir og kvikmyndahátíðir. Á árinu varð líka vöxtur í menningarhluta Creative Europe og verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun en mikil samkeppni er um menningarsamstarf í Evrópu.

"Unnið var áfram með menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna breytinga á umsýslu menningarsjóða, sem tengjast stofnun menningarmiðstöðva"

Breytingar og straumlínulögun

Teymi innlendra sjóða á mennta- og menningarsviði hélt áfram vinnu við að straumlínulaga vinnulag og ferla í umsýslu sjóðanna og áhersla var lögð á að bæta þjónustu við viðskiptavini með því að samræma notkun umsókna- og umsýslukerfis Rannís. Góð samvinna var við helstu fagráðuneyti en innlendir sjóðir á málefnasviðum sviðsins skiptast á milli þriggja fagráðuneyta. Unnið var áfram með menningar- og viðskiptaráðuneytinu vegna breytinga á umsýslu menningarsjóða, sem tengjast stofnun menningarmiðstöðva, og á árinu fluttist umsýsla Tónlistarsjóðs til nýstofnaðrar Tónlistamiðstöðvar auk þess sem Hljóðritasjóður rann inn í Tónlistarsjóð. Breytingar á Vinnustaðanámssjóði sem höfðu verið lengi í farvatninu urðu að veruleika á árinu þegar umsýsla sjóðsins einfaldaðist nokkuð.

Einn af hápunktum Nordplus á árinu var rafræn ráðstefna um grænar áherslur Nordplus for a Greener Future sem haldin var 28. maí.

Norrænt og tvíhliða samstarf

Rannís hefur um sex ára skeið rekið aðalskrifstofu Nordplus áætlunarinnar fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og í árslok 2024 lauk því starfi þegar yfirstjórn Nordplus fluttist til Svíþjóðar. Hafa þessi sex ár verið einstaklega lærdómsrík og hefur starfsfólk mennta- og menningarsviðs staðið sig einstaklega vel í þessu hlutverki sem féll Íslandi í skaut með stuttum fyrirvara við að leiða áætlunina, kynna tækifæri hennar og halda utan um starf hennar á allan hátt. Sem fyrr hefur Rannís áfram umsjón með undiráætlun Nordplus um norræn tungumál sem Landskrifstofa áætlunarinnar á Íslandi. Fjöldi umsókna jókst mikið á árinu í allar undiráætlanir og hefur nýtt tímabil Nordplus (2023–2027) farið afar vel af stað. Einn af hápunktum Nordplus á árinu var rafræn ráðstefna um grænar áherslur Nordplus for a Greener Future sem haldin var 28. maí.

Annað norrænt verkefni sem kláraðist á árinu var Menntun til sjálfbærni og mennta- og menningarsvið hefur haft umsjón með því fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. Lokaskýrsla verkefnisins var gefin út á haustmánuðum og var það kynnt með pompi og prakt á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var á Íslandi í nóvember.

Af öðrum verkefnum er helst að telja að styrkjum til náms í Bretlandi var úthlutað í þriðja sinn úr tvíhliða samstarfi Íslands og Bretlands undir heitinu UK-Iceland Explorer Fund þar sem íslenskir nemar geta sótt um styrk til framhaldsnáms eða starfsþjálfunar í Bretlandi. Einnig var félags- og vinnumarkaðsáætlun ESB kynnt en Rannís hefur umsjón með að koma tækifærum hennar á framfæri á Íslandi.

Góður árangur, samheldni og gott andrúmsloft.

Starf mennta- og menningarsviðs hefur gengið mjög vel á árinu, jafnt í evrópskum og norrænum samstarfsáætlunum sem og í innlendum sjóðum. Góður árangur, samheldni og gott andrúmsloft einkenndu starf sviðsins. Árangurinn er ekki síst frábæru starfsfólki sviðsins að þakka sem með dugnaði og skilvirkni er alltaf til í að koma með nýjar hugmyndir og leggja til bætt verklag, bæði í alþjóðastarfi og umsýslu innlendra sjóða. Ánægjulegt er að fylgjast með grósku og krafti í samstarfinu og fram undan eru spennandi tímar við að kynna tækifæri og samstarf á sviði menntamála, menningar, æskulýðsmála og íþrótta.