Starfsemi og skipulag

Rannsókna- og nýsköpunarsvið

Sviðið er annað tveggja meginfagsviða stofnunarinnar. Á ábyrgð sviðsins er rekstur stóru samkeppnissjóðanna ásamt rekstri minni sjóða er tengjast rannsóknum og nýsköpun, að taka við umsóknum og meta verkefni sem tengjast skattendugreiðslu rannsókna og þróunar og umsýsla fleiri sjóða.

Gervigreindarmyns sem sýnir bæ á Íslandi með stórri byggingu í miðju búin til úr hlutum tengdum rannsóknum og nýsköpun.

Það helsta sem má nefna

  • Úttekt á Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknaklasa sýndi fram á aukna verðmætasköpun og fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun.
  • Breytingar voru gerðar á lögum og samsvarandi reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki
  • Rannís tók við samhæfingu European Digital Innovation Hub (EDIH)
  • 70 vísindamenn sóttu Vinnustofu um vestnorrænt samstarf í rannsóknum
  • Tækniþróunarsjóður fagnaði 20 ára afmæli

Yfirlit og breytingar á árinu

Starfsfólk sviðsins sinnti á árinu 11 innlendum samkeppnissjóðum og tveimur innlendum réttindasjóðum auk 18 alþjóðlegra samstarfsáætlana og samstarfsverkefna. Úthlutanir innlendu burðarsjóðanna Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs eru mældar í fjármagni sem er ráðstafað til nýrra verkefna. Rannsóknasjóður úthlutaði á árinu tæplega 3,3 milljörðum króna og Tækniþróunarsjóður rúmlega 2,8 milljörðum og eru úthlutanir beggja sjóðanna til verkefna sem taka allt að þrjú ár. Í Rannsóknasjóði var árangurshlutfall um 19% á árinu og um 17% í Tækniþróunarsjóði, miðað við 22% fyrir báða sjóðina árið á undan. Fyrirsjáanlegt er að árangurshlutfall muni halda áfram að lækka, því framlag til Rannsóknasjóðs lækkar um 3% og framlag til Tækniþróunarsjóðs um tæp 9% árið 2024. Því er hætt við að verulega góð verkefni muni ekki fá stuðning þegar fram í sækir.

Sviðið samanstendur af þremur teymum: Alþjóðateymi með 15 starfskrafta, nýsköpunarteymi með sjö og rannsóknateymi með fimm. Nýliðun í röðum starfsfólks sviðsins á árinu og voru tveir sérfræðingar ráðnir í alþjóðateymi sviðsins, einn sérfræðingur í nýsköpunarteymi og einn sérfræðingur í rannsóknateymi. Aukning var í fjölda starfsfólks, var 29 á árinu samanborið við 26 í fyrra.

Úttekt á Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknaklasa

Halla Þorsteinsdóttir, aðjúnkt við Háskólann í Toronto og forstjóri ráðgjafarfyrirtækisins Small Globe, framkvæmdi áhrifamat á markáætlun öndvegissetra og rannsóknaklasa sem var við lýði árin 2009–2016. Sú markáætlun studdi þrjú verkefni:

  • Edda: Edda er stofnun við Háskóla Íslands sem þjónar sem vettvangur fyrir þverfaglegar gagnrýnar samtímarannsóknir á (ó)jafnrétti og fjölbreytileika; samfélagsleg og pólitísk rof; velferðarríkinu; og öryggi og þróun.
  • GEORG: GEORG er sjálfstæð stofnun í tengslum við Háskóla Íslands og er sjálfbær samstarfs- vettvangur sem brúar bilið á milli rannsókna á jarðhita og notkunar hans.
  • Vitvélastofnun Íslands: Vitvélastofnun Íslands er sjálfstæð stofnun í tengslum við HR og brúar bilið á milli akademískra rannsókna á gervigreind, vélrænu námi og hermun og nýtingu þessarar tækni í fyrirtækjum og stofnunum.

Í skýrslunni kemur fram að setrin, sem öll eru enn starfandi í dag, efldu vísinda- og tæknirannsóknir, hvöttu til árangursríkrar samvinnu erlendra og innlendra aðila, leiddu til verðmætasköpunar og fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun og höfðu áhrif á samfélagslega umræðu á sínum áherslusviðum. Í skýrslunni komu einnig fram tillögur til stjórnvalda um mögulegar útfærslur ef slík markáætlun væri endurtekin, í ljósi niðurstaðna.

„F“

Endurskoðun laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki

Á árinu urðu breytingar á lögum og samsvarandi reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í stuttu máli eru helstu efnislegar breytingar á lögunum eftirfarandi:

Nú er óheimilt að framlengja umsókn um sama verkefni sem fengið hefur staðfestingu oftar en þrisvar. Ef sama verkefni hefur fengið framlengingu í þrígang getur umsækjandi sótt um staðfestingu á nýju verkefni sem byggist á fyrra verkefni ef sýnt er fram á að áfangamarkmiðum hafi sannanlega verið náð og nýtt verkefni byggist á þeim árangri. Heimilt er að telja til aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu allt að 20% af hámarkskostnaði eða 220 m.kr. en erlendur kostnaður takmarkast við lönd sem Ísland hefur tvísköttunarsamninga við.

Auk framangreindra efnisbreytinga voru gerðar nokkrar breytingar á orðalagi laganna og skilgreiningum til að bæta skilning og skilvirkni þeirra. Þá eru sett inn ný ákvæði í lögin sem heimila Rannís og Skattinum aukin upplýsingasamskipti og viðbrögð við röngum eða villandi upplýsingum og gögnum, ásamt heimild til afturköllunar staðfestingar, 25% álagi og refsiákvæðum ef um brot er að ræða.

Að mati Rannís fela framangreindar breytingar ekki í sér veruleg áhrif á umsýslu þessarar stuðningsaðgerðar næstu tvö árin.

Horizon Europe

Árangur Íslands í Horizon Europe til þessa hefur verið með ágætum og árangurshlutfall íslenskra aðila er yfir 22% sem er vísbending um virka þátttöku í áætluninni. Megináhersla í starfi Horizon Europe á árinu var að samþætta þjónustu landstengla eftirfarandi áætlana og verkefna, sem Rannís hefur umsjón með, til að veita viðskiptavinum betri alhliða ráðgjöf varðandi tækifæri á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Frekari verkefni tengd Digital Europe

Digital Europe áætlunin er fjármögnunaráætlun ESB sem leggur áherslu á að koma stafrænni tækni til fyrirtækja, borgara og opinberra aðila. Rannís er þátttakandi í tveimur verkefnum sem eru að hluta til fjármögnuð af Digital Europe áætluninni; European Digital Innovation Hub (EDIH) og National Coordination Center (NCC). Á árinu tók Rannís við samhæfingu EDIH og mun sinna henni út árið 2025. Einnig ber sérstaklega að nefna að NCC gerði það að verkum að sérstakur netöryggistyrkur (Eyvör) var settur á fót í umsjón Rannís. Samtals úthlutaði Eyvör 97 m.kr. á árinu til 13 íslenskra fyrirtækja og stofnana til að vinna að umbótum á sviði netöryggismála.

„Mikill áhugi var á möguleikum á styrkjum sem gætu stutt uppbyggingu sameiginlegra vestnorrænna rannsóknaverkefna“

Vinnustofa um vestnorrænt samstarf í rannsóknum

Í ágúst komu um 70 vísindamenn og aðrir fulltrúar frá háskólum, rannsóknastofnunum og rannsóknarráðum í Grænlandi, Íslandi og Færeyjum saman í Norræna húsinu í Þórshöfn til samstarfsfundar. Var þetta fyrsti viðburðurinn sem kemur í kjölfar samstarfsyfirlýsinga um rannsóknir sem löndin hafa öll gert sín á milli. Yfirskrift fundarins var „Efling svæðisbundinna tengsla“ og var markmið hans að efla rannsóknasamstarf landanna þriggja. Dagskráin innihélt kynningar, umræður, þemavinnustofur og tengslamyndunarviðburði og fræðafólk frá löndunum þremur kannaði þar möguleika á samstarfi við aðra sem unnu að svipuðum viðfangsefnum og við vísindafólk úr öðrum fræðigreinum. Einnig var rætt hvernig rannsakendur geta nýtt hæfni og bolmagn hvers annars og hvernig aukið samstarf getur styrkt þátttöku Norðurlanda í norrænu og alþjóðlegu samstarfi. Að lokum má nefna að mikill áhugi var á möguleikum á styrkjum sem gætu stutt uppbyggingu sameiginlegra vestnorrænna rannsóknaverkefna.

Stórafmæli Tækniþróunarsjóðs

Á vorfundi Tækniþróunarsjóðs í júní minntist Sigurður Björnsson, fyrrverandi sviðsstjóri Rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís, þess að 20 ár voru liðin frá stofnun sjóðsins. Fór Sigurður m.a. yfir þann lagaramma sem sagði til um stofnun sjóðsins, hvernig styrktarflokkar hefðu þróast í gegnum tíðina til að styðja alla nýsköpunarkeðjuna sem best og hvernig sjóðurinn passaði inn í sjóðaumhverfi á landsvísu. Þá tæpti hann á því að ráðstöfunarfé sjóðsins hefði aukist nánast línulega á föstu verðlagi árin 20 og hvernig stjórnmál, staða ríkisfjármála og heimsfaraldur hefðu haft áhrif á sjóðinn. Að lokum má geta þess að Sigurði reiknaðist svo til að Tækniþróunarsjóður hefði á þessum 20 árum úthlutað um 45 milljörðum á verðlagi 2023.