Vísindakakó
Á vísindakakó gefst gestum tækifæri á að hitta aðila úr vísindasamfélaginu í óformlegu spjalli um þær vísindarannsóknir sem viðkomandi leggur stund á og ekki síst fá að spyrja ótal spurninga um allt það sem við kemur því að starfa við rannsóknir og vísindi.

Vísindakakó er viðburðaröð fyrir forvitna krakka sem vilja eiga beint samtal við vísindafólk, heyra hvað það er að rannsaka og hvernig það er að starfa í vísindum. Viðburðaröðin hlaut styrk frá Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins árið 2023 til undirbúnings og framkvæmdar á Vísindakakói en verkefninu stýra Davíð Fjölnir Ármannsson, kynningarfulltrúi Rannís, og Martin Jónas B. Swift, verkefnastjóri STEM greina við Nýmennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Vísindakakósviðburðirnir fara fram á bókasöfnum landsins þar sem gestum er boðið upp á samtal við vísindafólk yfir heitu kakói, kleinum og kexi. Viðburðaröðin samanstendur af tíu viðburðum veturinn 2024–2025 og voru fimm viðburðnir haldnir haustið 2024:
- 21. sept. á Bókasafni Kópavogs
- 5. okt. á Borgarbókasafninu Gerðubergi
- 19. okt. á Bókasafni Garðabæjar
- 2. nóv. á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal
- 16. nóv. á Bókasafni Kópavogs
Samtals voru gestir á þessum fimm viðburðum tæplega 200 talsins og kom meirihluti gesta á hverjum viðburði í fyrsta skipti.
Hver viðburður var tileinkaður rannsóknum og vísindastörfum þess vísindafólks sem tók þátt í hverjum viðburði og fjölluðu viðburðir Vísindakakós um sálfræði, hvalarannsóknir, stjarneðlisfræði, skordýrafræði og frumulíffræði.