Vorfundur Tækniþróunarsjóðs
Tækniþróunarsjóður heldur árlega vorfund þar sem málefni nýsköpunarumhverfisins á Íslandi eru rædd með tilliti til stuðnings stjórnvalda við nýsköpun og þróun. Þá er úthlutun Tækniþróunarsjóðs tilkynnt á fundinum og fagnað með styrkþegum.

Fimmtudaginn 6. júní var haldinn vorfundur Tækniþróunarsjóðs undir yfirskriftinni „Frá fræi til frama“ og fór fundurinn fram á Hóteli Borg ásamt því að vera í beinu streymi. Á fundinum var litið um öxl í starfsemi sjóðsins en árið markaði 20 ára afmæli Tækniþróunarsjóðs. Þá var einnig farið yfir þau áhrifamöt, sem hafa verið gerð á sjóðnum, auk þess sem gestir fengu innsýn í reynsluheim nokkurra nýsköpunarfyrirtækja sem meðal annars hafa notið góðs af stuðningi frá sjóðnum.
Opnunarávarp flutti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þá fluttu erindi á fundinum þau Sigurður Björnsson, sérfræðingur hjá Rannís, Gunnar Óskarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Páll Ragnar Jóhannesson, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Oculis, Guðný Nielsen, stofnandi og framkvæmdastjóri SoGreen, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK, og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs.
Þá var vorúthlutun sjóðsins tilkynnt í lokin og af því tilefni var tekin hópmynd af styrkþegum.