Viðburðir

Rannsóknaþing

Rannís skipuleggur Rannsóknaþing þar sem tekin eru fyrir stefnumál á sviði rannsókna og nýsköpunar. Á Rannsóknaþingi eru Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs veitt því vísindafólki sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi.

Rannsóknaþing 2024 var fyrsta Rannsóknaþingið eftir að Vísinda- og tækniráð var lagt af og viðburðurinn því alfarið skipulagður af Rannís og Rannsóknasjóði Íslands. . Á Rannsóknaþingi eru sem fyrr tekin fyrir stefnumál á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Yfirskrift rannsóknaþings þetta árið var „Forgangsröðun í rannsóknum“ og fór þingið fram fimmtudaginn 18. apríl á Hilton Reykjavík Nordica.

Á þinginu var meðal annars fjallað um áhrifamat á markáætlun öndvegissetra og rannsóknaklasa og flutti Halla Þorsteinsdóttir, aðjúnkt hjá Háskólanum í Torontó, Kanada, og forstjóri Small Globe, samantekt á áhrifamatinu. Þá voru pallborðsumræður um forgangsröðun í rannsóknum þar sem þátttakendur voru þau Elín Díanna Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Akureyri, Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, Hjalti Páll Ingólfsson, rekstrarstjóri hjá Jarðhitaklasanum Georgi, Irma Jóhanna Erlingsdóttir, prófessor við mála- og menningardeild Háskóla Íslands og forstöðurmaður GEST / RIKK, Kristinn R. Þórisson, prófessor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, og Sigríður Valgeirsdóttir, skrifstofustjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

Í lok Rannsóknaþings voru Hvatningarverðlaun Rannsóknasjóðs fyrir bæði árin 2023 og 2024 veitt.

Myndir frá Rannsóknaþingi