Vísindavaka - Heill heimur vísinda
Rannís skipuleggur Vísindavöku á Íslandi í samstarfi við íslenska háskóla og stofnanir en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night.

Vísindavaka 2024 var haldin laugardaginn 28. september í Laugardalshöll en Vísindavaka er langstærsti viðburðurinn sem Rannís skipuleggur. Á Vísindavöku er almenningi boðið upp á sannkallaða vísindaveislu, en þar mætir fremsta vísindafólk Íslands til að sýna og segja frá rannsóknum og nýsköpun á lifandi og gagnvirkan hátt.
Markmið Vísindavöku er að stuðla að aukinni vísindamiðlun til almennings og vekja áhuga, ekki síst hjá ungu kynslóðinni, á heimi vísindanna, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í íslensku samfélagi. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi. Á Vísindavöku kynnti vísindafólk frá íslensku háskólunum, auk helstu stofnana og fyrirtækja á sviði rannsókna- og nýsköpunar, fjölmörg rannsóknaverkefni fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir Vísindavöku voru rúmlega 6.500 og var Vísindavaka árið 2024 sú fjölmennasta frá upphafi.
Gestir fengu að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið.
Þá var Vísindavef Háskóla Íslands veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi vísindamiðlun í þágu almennings.